Yfirlitssýning á verkum Abbýar


Laugardaginn 20. maí kl. 14.00 opnar Arnfinna Björnsdóttir, Bæjarlistamaður Fjallabyggðar, sýningu í Ráðhússalnum að Gránugötu 24. Siglufirði. Hún verður opin til kl. 17.00 þann dag.
Einnig verður opið sunnudaginn 21. maí frá kl. 14.00 til 17.00.

Sýningin er yfirlitssýning á verkum Abbýar, eins og hún er kölluð, frá fyrstu verkum og til dagsins í dag.

Ár hvert hefur Abbý opnað sýningu á vinnustofu sinni á þessum degi, sem einmitt er afmælisdagur Siglufjarðar. En vegna Bæjarlistamannsútnefningarinnar setur hún upp sýningu í Ráðhússalnum að þessu sinni. Síðan mun hún sýna á Kaffi Klöru í Ólafsfirði á 17. júní og í tilefni af 75 ára afmæli sínu mun hún setja upp þriðju sýninguna á þessu ári í Bláa húsinu hjá Rauðku 19. júlí kl. 14.00–17.00.

Arnfinna Björnsdóttir er fædd á Siglufirði 1942. Þar hefur hún fengist við listir og handverk í 55 ár. Draumur hennar á yngri árum var að fara í listnám en veruleikinn leiddi hana í Verslunarskólann og í framhaldi af því í skrifstofuvinnu fyrir Siglufjarðarbæ í 35 ár. Í gegnum tíðina hefur Abbý sótt ýmis námskeið á sviði lista undir leiðsögn Örlygs Kristfinnssonar og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Síðan hún hætti störfum hjá Siglufjarðarbæ, síðastliðin 15 ár, hefur hún einbeitt sér að listinni. Hún heldur vinnustofu í Aðalgötu 13 þar sem hún vinnur daglega að klippimyndum, teikningum, málverki, hekli og saumaskap ýmiskonar. Vinnustofan er opin almenningi frá miðjum maí og fram á haust.

Klippimyndir Abbýar af stemningum frá síldarárunum eru vel þekktar og sýna mikla næmni fyrir viðfangsefninu jafnt og meðferð lita og forma. Hún hefur sett upp einkasýningar á verkum sínum á Akureyri og Siglufirði og tekið þátt í samsýningum á Akureyri, Siglufirði og Hjalteyri. Verk hennar vekja ávallt mikla athygli og hafa þekktir listamenn og safnarar keypt verkin hennar.

Í hugum Siglfirðinga er Arnfinna listamaður sem hefur haldið uppi merkjum sköpunargleðinnar í áratugi.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is