Vorfuglarnir


Nú er einmánuður hálfnaður og á næsta leiti bíður sumarið.

Wikipedia segir þetta um hörpu:

„Harpa, einnig nefnd hörpumánuður og hörputungl í 17. aldar rímhandritum og gaukmánuður í Snorra-Eddu, er sjöundi mánuður ársins og fyrsti sumarmánuðurinn í gamla norræna tímatalinu. Kemur næstur á eftir einmánuði síðasta mánuði vetrar. Harpa hefst á næsta fimmtudegi eftir 18. apríl. Fyrsti dagur hörpu er jafnframt haldinn hátíðlegur sem sumardagurinn fyrsti.“

Að þessu sinni ber hann upp á 23. apríl.

Fyrstu vorfuglarnir komu í fjörðinn okkar 17. mars, að sögn Guðnýjar Róbertsdóttur og Örlygs Kristfinnssonar, sem í mörg ár hafa fylgst grannt með þessu og skráð jafnharðan í bækur sínar. Þetta voru 2 tjaldar. Nokkrum dögum síðar,  20. mars, flugu 8 álftir yfir Eyrina og alls sáust 11 fram á Leirum. Þann 4. apríl sáust 20 hettumáfar og 6. apríl 3 grágæsir á Leirutanga. Skógarþrestirnir voru alla vega komnir í dymbilviku, kannski fyrr.

Og sennilega er hrafninn lagstur á. Aðalvarptíminn er í apríl en getur þó hafist bæði fyrr og síðar.

Sumsé, allt að gerast.

Meðfylgjandi ljósmynd af hettumáfunum tók Sveinn Þorsteinsson í dag.

Mynd: Sveinn Þorsteinsson | [email protected]
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]