Vor í lofti


Veturinn er að losa tök sín, á því er
ekki nokkur vafi, því eins og fram kom á Siglo.is á föstudag eru
vorfuglarnir að tínast hér inn einn af öðrum til sumardvalar, en þá sáust m.a.
tjaldar á Leirusvæðinu. Og í dag náði Sveinn Þorsteinsson myndum af
þremur. Og fréttir af þessu sama berast af öllu landinu.

Vonir eru bundnar við að svartþrestirnir sem hér hafa verið í vetur, á
bilinu 10-20 eða jafnvel enn fleiri, fari hvergi heldur taki að byggja sér hreiður með hækkandi
sól. Öruggt merki um áhuga í þá veru er söngur karlfuglanna frá miðnætti og fram í birtingu. Eru bæjarbúar því hvattir til að leggja við hlustir á
næstunni, en þessi tegund verpir í Reykjavík og víðar og hefur gert um árabil, m.a. í Fossvoginum.

Auk tíu svartþrasta voru þrír gráþrestir, ein silkitoppa, einn skógarþröstur og einn stari á Hvanneyrarhólnum í morgun.

Einn góður í viðbót, hrafninn, sem að vísu er staðfugl, fer bráðum að safna sér í laup – eða er
kannski búinn að því; varptíminn getur verið frá marslokum og fram í
apríl.

Hér má sjá einn af tjöldunum þremur frá því í dag.

Hinir tveir voru styggari og flugu á brott.

Krummi þáði glaður soðna lifrarpylsu og blóðmör á dögunum, enda þarf hann að safna kröftum fyrir varpið.

Myndir af tjöldum: Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is

Mynd af hrafni og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is