Vitringarnir frá Austurlöndum


Heimsókn vitringanna þriggja til Betlehem, sem er að finna í 2. kafla Matteusarguðspjalls, er í hópi allra þekktustu sagna Biblíunnar. Um þessa austrænu, dularfullu og greinilega auðugu ferðalanga hefur töluvert verið ritað síðan og ýmsar spurningar vaknað. Þær helstu voru eftirfarandi: Hvaðan komu þessir tignu gestir (ef þeir á annað borð voru til og allt gerðist eins og höfundur guðspjallsins lýsir)? Hvað voru þeir? Hversu margir? Og var einhver sérstök merking fólgin í gjöfum þeirra?

Þessari grein er ætlað að svara þeim – og öðrum – að einhverju leyti.

Magoi

Nýja testamentið er upphaflega ritað á grísku og þar er orðið magoi notað um þessa ferðalanga. Í eintölu er það magos. Allt varðandi þessa menn er dálítið þokukennt, en orðið sem um ræðir mun vera tökuorð úr forn-persnesku, annaðhvort dregið af magush, að því er sumir vilja meina, eða þá magupati. Var þetta titill prestastéttar – og e.t.v. sérstakrar ættkvíslar, einnar af sex – í Medíu, landi þar sem í dag er norðvesturhluti Írans. Halda sumir því fram, að þeir hafi gegnt svipuðu hlutverki og andalæknar eða sjamanar margra gamalla þjóða. Á nútíma persnesku er orðið ritað mobed. Á íslensku hafa umræddir prestar stundum verið nefndir magúsar. Þeir aðhylltust í fyrstu náttúrutrúarbrögð, en við tilkomu Zaraþústra spámanns (einhvers staðar á bilinu 1400-600 f. Kr.; Grikkir nefndu hann Zóróaster, Indverjar og Persar Zarthosht), sem tók yfir hið gamla, virðast þeir hafa gengið inn á hinar nýju brautir eins og ekkert væri, með svipuð hlutverk og áður, eflaust vegna fæðingarréttar síns, ef svo má að orði komast, eða einhvers slíks, ekki ósvipað levítum í gyðingdómi, eða þá andlegs atgervis. Einhver orðaði það svo, að magúsarnir hafi einfaldlega gert sig ómissandi. Einnig hafa fræðimenn getið sér þess til, að Zaraþústra hafi sjálfur verið magús, og það skýrir ýmislegt, ef rétt er. En á 5. öld kannast gríski sagnfræðingurinn Heródótus (484?-425) við, að þeir sjái ekki bara um fórnir, heldur séu einnig í draumaráðningum og spámennsku, og lesi að auki í fyrirbæri í himinhvelfingunni. Jafnframt munu þeir hafa gegnt annarri stjórnsýslu, verið ráðgjafar um eitt og annað veraldlegt, séð um bókhald o.s.frv.

Eftir að Alexander mikli ræðst inn í Persíu veturinn 331-330 f. Kr. og hefur sigur er vitað um slíka presta í þjónustu hans, sem undirstrikar það sem áður er vikið að, að a.m.k. einhverjir í þeirra röðum hafi alltaf gengið til liðs við nýja herra. Landvinningar Makedóníukonungsins virðast þó ekki hafa breytt neinu um þekkingu vestursins á austrænum trúarbrögðum, því í grískum og latneskum heimildum urðu títtnefndir prestar einungis fulltrúar alls sem hafði með guðsdýrkun og aðra andlega hluti þar að gera. Og þegar nær dregur fæðingu Krists eru magoi iðulega starfandi fyrir utan Persíu líka, því Strabó (63? f. Kr.-21? e. Kr.), Plútarchos (46?-120? e. Kr.) og Jósefus (37?-101? e. Kr.) kannast allir við þá á Miðjarðarhafssvæðinu, og – vel að merkja – þeir eru gyðingar, sem þýðir, að á þessum tíma er orðið ekki lengur einskorðað við hina gömlu persnesku stétt, heldur nær yfir alla fjölkunnuga menn. Enska orðið magic (galdur, töfrar) og önnur slík eru komin úr þessum jarðvegi.

En höfundi Matteusarguðspjalls finnst greinilega mikið til um heimsóknina úr austri, og viðbrögð Heródesar gefa eitthvað áþekkt til kynna, svo að á bak við notkunina magoi þar er eitthvað stórfenglegt og göfugt, þ.e.a.s. hin upprunalega merking, því í zaraþústratrú var svartigaldur bannaður. Nema ef vera kynni, eins og sumir hafa viljað túlka málið, að þarna hafi fulltrúar myrkraaflanna komið, lagt vopn sín og krafta við fótskör meistarans og hreinlega gefist upp. En í guðspjallinu eru þeir fyrst og síðast tákn fyrir heiðingjana, sem fagna komu Guðssonarins og lúta honum í auðmýkt; Jesús er ekki bara Messías gyðinga, heldur allra manna. Og hér koma gull, reykelsi og myrra okkur til aðstoðar; þetta voru nefnilega eðlilegar og venjubundnar gjafir undirokaðra þjóða til herraþjóðarinnar á þeim tíma, lúxusvara, í flokki með demöntum, kryddjurtum og öðru af þeim toga. Pundið af gulli og reykelsi kostaði mjög svipað á 1. öld e. Kr., jafnvirði um 45.000 íslenskra króna, en myrra var 6-7 sinnum dýrari.

Konungar

Vitringarnir breytast snemma í eitthvað enn meira, að talið er aðallega fyrir áhrif Tertúllianusar kirkjuföður (160?-230?), sem fullyrti að í austri væri nánast litið á umrædda menn sem konunga. E.t.v. hafa nokkrir ritningarstaðir í Gamla testamentinu einnig hjálpað þarna til. Í Davíðssálmum 68:30 segir t.d.: ?Konungar skulu færa þér gjafir.? Og í sömu bók, 72:10, segir: ?Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.? Og í Jesaja 49:7 er ritað: ?Konungar munu sjá… og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá… og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.? Í Jesaja 60:3 er líka þetta: ?Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.? Og í Jesaja 60:10: ?Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér…?

Það er samt ekki fyrr en á 10.-12. öld að myndverk eru almennt farin að sýna hina tignu gesti í konungsgervum.

Í latnesku kirkjubiblíunni Vulgata, sem Híerónýmus kirkjufaðir (340?-420) þýddi undir lok 4. aldar, er tökuorðið ?magi? notað yfir austanfarana. Þetta hafði bersýnilega sín áhrif á aðrar þýðingar, einkum í löndum kaþólskra, sem flestar eru á sömu línu. En áhrif Marteins Lúthers ná til annarra flestra; hann notar ?die Weisen? (vitringar) í þýðingu sinni, 1534. Enskar biblíuútgáfur eru aðallega með ?wise men?, sem og danskar (?vise?), norskar (?vismenn?) og sænskar (?vise män?), en þýskar eru reyndar á ýmsan veg nú á tímum (?Magier?, ?Sternforscher?, ?die Weisen?, ?Weise?). Bara ein – Wycliffe-útgáfan, fyrsta þýðing Biblíunnar allrar á ensku, 1382 – nefnir konunga í þessu sambandi, og reyndar hitt líka, eða segir ?astrologers […kings, or wise men,]? (stjörnuspekingar […konungar, eða vitringar]).

Í öllum íslensku biblíuútgáfunum, allt frá Guðbrandsbiblíu 1584 til útgáfunnar 1981, er gríska orðið magoi þýtt sem ?vitringar?. Og eins verður í Biblíu 21. aldar, sem kemur á markað árið 2006. En í íslenskum heimildum öðrum eru þeir gjarnan nefndir Austurvegskonungarnir.

Heimkynnin

En hvaðan komu þessir menn?

Um það eru deildar meiningar, eins og um flest annað í þessari sögu. En ljóst er, að þeir voru ekki Hebrear, eins og spurning þeirra upplýsir: ?Hvar er hinn nýfæddi konungur gyðinga?? Höfundur Matteusarguðspjalls veit einungis að þeir komu úr austri, þekktu himintunglin og gátu ráðið í boðskap þeirra. Af þeim sökum koma margar austrænar þjóðir hér til greina, enda átti stjörnuspeki djúpar rætur þar æði víða.

Ein tilgátan er Arabía, en þar var að finna allar gjafirnar og það í ríkum mæli. Í vesturhlutanum unnu menn gull, og í suðri uxu trén sem reykelsi og myrra komu af. Klemens í Róm (30?-100? e. Kr.) ritar í bréfi til Korintumanna, árið 96, að hann tengi austrænu gestina við ?landsvæðin nærri Arabíu?. Og Jústínus píslarvottur (u.þ.b. 100/114 – u.þ.b. 162/168) tók undir þetta í skrifi árið 160; fullyrti reyndar, að þeir hefðu komið frá Arabíu sjálfri. E.t.v. er þetta bara skírskotun í Jesaja 60:6, en þar segir: ?Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.? Eða Davíðssálm 72:15, er segir: ?Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.? En Saba var á þessum tíma land í Suðvestur-Arabíu, og töluvert af gyðingum þar. Og þar rýndu menn í stjörnuhimininn. Vert er líka að geta þess, að úlfaldalestir, sem komu frá Arabíu til Palestínu, voru sagðar koma ?úr austri?. Aðrir helstu stuðningsmenn fyrir Arabíutilgátunni voru áðurnefndur Tertúllíanus kirkjufaðir (160?-230?), og heilagur Epifaníus (310-403).

Aðrir benda á, að vitringarnir gætu allt eins hafa komið frá einhverjum þeirra ríkja sem voru austar, þ.e.a.s. í gömlu Mesópótamíu. Eða jafnvel frá Indlandi. Einnig hafa Egyptaland, Eþíópía, Armenía, Skýþía og fleiri verið nefnd. En flestir virðast þó nú á tímum hneigjast að Babyloníu eða Persíu. Í því fyrrnefnda höfðu menn rannsakað næturhimininn gaumgæfilega í 1.000-2.000 ár, er hér var komið, lengur en aðrar þjóðir í vesturheimi, og höfðu í kringum árið 450 f. Kr. búið til dýrahringinn með hinum þekktu tólf stjörnumerkjum, og tengsl við gyðinga og spádóma þeirra var einnig fyrir hendi, eftir herleiðinguna á 6. öld f. Kr., en merkilegt þykir, að engum í frumkristninni virðist hafa dottið babýlonskir stjörnuspekúlantar í hug í þessu efni. En stuðningur við þá hugmynd er samt kominn fram á 4. öld (Þeódótus frá Ancyra í Litlu-Asíu; síðar Ankara).

Í síðarnefnda ríkinu, Persíu, var engin hefð fyrir slíkri nákvæmri rannsókn himinhnattanna, þótt menn hafi dundað eitthvað við stjörnuspeki. Hins vegar er þáttur Zaraþústra álitinn stór, því gamlar heimildir bendla trúarbrögð hans þrálátlega við gestina úr austurvegi, enda voru þau nauðalík gyðingdómi. Að þetta hafi verið prestar zaraþústratrúar, sem um Krists burð voru í þjónustu Parþa, sem fóru með völd frá 170 f. Kr. – 226 e. Kr. (en umrædd trúarbrögð voru þó áfram við lýði á þessum slóðum, víðast hvar, fram á 7. öld), var reyndar skilningur þorra kirkjunnar manna á fyrstu öldum. Sterkustu fulltrúar þeirra urðu Klemens í Alexandríu (150?-230?) og heilagur Kýrillus, erkibiskup í Alexandríu (376?-444).

Í apókrýfuriti, sem talið er hafa verið samið á 5. eða 6. öld, og nefnist Arabíska bernskuguðspjallið, segir orðrétt: ?Og þegar Drottinn Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, á tíma Heródesar konungs, sjá, vitringar [magi] komu úr austri til Jerúsalem, eins og Zeraduscht hafði spáð…?

Er í þessu sambandi líka oft vitnað til atburðar árið 614 e. Kr., þegar Persar réðust inn í Landið helga og eyðilögðu þar fjöldann allan af guðshúsum kristinna, en hlífðu Fæðingarkirkjunni í Betlehem, eftir að hafa litið þar augum mósaíkmynd, er sýndi vitringana færa Jesúbarninu gjafirnar þrjár. Þeir könnuðust við búningana, þetta var sumsé persneskur klæðnaður. Kirkjan hafði upphaflega verið reist árið 327, eyðilögð af Samverjum árið 529, en endurbyggð nokkru á eftir.

Að endingu er rétt að geta þess, að austur af Palestínu voru einungis fjögur ríki sem höfðu ?ekta? magúsa í þjónustu sinni um Krists burð: Assyría, Babylonía, Medía og Persía. Þess vegna er ekki ósennileg kenning, að þetta hafi í raun verið klerkar zaraþústratrúar, en ekki þó frá Persíu heldur Babyloníu, hafandi þar kynnst alvöru stjörnuvísindum.

Fjöldi og nöfn

Í Matteusarguðspjalli segir ekkert um fjölda þessara gesta úr austri. Elsta teikning af atburðinum við jötuna, sem er að finna í katakombunum í og við Rómaborg, og er frá 2. eða 3. öld, sýnir fjóra vitringa. Önnur, frá 3. öld, er með tvo. En um svipað leyti minnist Órígenes (185-254) kirkjufaðir hinn gríski á það í skrifi einu, að um þrjá hafi verið að ræða og átti fjöldi gjafanna þar vafalaust stóran hlut að máli. Og þetta varð svo endanleg niðurstaða í vesturkirkjunni frá og með 11. eða 12. öld.

Í riti, sem nefna mætti Fjársjóðshellinn á íslensku, og talið er vera eftir Efraim hinn sýrlenska (Ephrem Syrus; 306?-373), en í varðveittri útgáfu er líklega frá 6. öld, eru konungarnir einnig sagðir hafa verið þrír: Hormizdad frá Makhozdi í Persíu, Izdegerd frá Saba og Perozad frá Shaba í austri. Í annarri heimild er rithátturinn Hormizdah, Yazdehgerd og Rerozdh. Og á enn öðrum stað, í Bók Adams og Evu, sem talið er að hafi verið rituð einhvers staðar á bilinu 3.-7. öld, eru þeir nefndir Hor, Basantar og Karsundas (eða Hor, Basanter og Karsudan).

En annars staðar varð þó önnur tilgáta lífseigari, með Jóhannes Chrysostomus (u.þ.b. 347-407) og Ágústínus (354-430) í broddi fylkingar; þar sögðu menn að konungarnir hefðu verið tólf. Eflaust er þar í, með og undir fjöldi ættkvísla Ísraelsmanna, sem og tala postulanna. Og enn aðrir voru með sex eða átta.

Mósaíkmynd ein í Ravenna á Norðaustur-Ítalíu, frá um 550 e. Kr., er með elstu heimildum um Kaspar (Caspar, Gaspar, Jasper), Melkíor og Baltasar sem nöfn á þremenningunum, og eru þau endanlega fest í vesturkirkjunni á 12. öld. Þau eru líklega dregin af Gathaspa, Melichior og Bithisarea, sem fyrst birtast okkur í ritinu Excerpta latina barbari, frá 8. öld, en sem talið er vera þýðing á grískum texta frá því um 500. Þar er atburðurinn í Betlehem sagður hafa gerst 1. janúar. Í 6. aldar apókrýfuritinu Armenska bernskuguðspjallinu voru þeir sagðir hafa verið konungar í þremur löndum, Kaspar á Indlandi, Melkon í Persíu, og Baltasar í Arabíu. Sýrlenska kirkjan átti þó líka Hormisdas, Gushnasaph og Larvandad, og armenska kirkjan Kagba og Badadilma.

Á 13. öld kemur svo fram rit í austri, eignað nestoríananum Shelêmôn biskupi í al-Basra í Írak. Það nefnist á íslensku Bók býflugunnar og hefur m.a. að geyma nöfn tólf persneskra konunga, sem eiga að hafa fært Jesúbarninu gjafirnar dýrmætu. Og þeir voru eftirtaldir: Zarwandad sonur Artaban, Hormizdad sonur Sitaruk (Santarok), Gushnasaph (Gushnasp) sonur Gundaphar, og Arshakh sonur Miharok komu með gullið. Meharok sonur Huham, Ahshiresh sonur Hasban, Sardalah sonur Baladan, og Merodach sonur Beldaran gáfu reykelsið. Og Zarwandad sonur Warzwad, Iryaho sonur Kesro (Khosrau), Artahshisht sonur Holiti, og Ashton’abodan sonur Shishron létu af hendi myrruna.

Útlitslýsing

Ágústínus, sem áður var minnst á, leit á vitringana sem fulltrúa alls mannkynsins. Þetta er á 4. og 5. öld. Í elstu myndverkum kristninnar, sem á annað borð hafa þessa frásögn að yrkisefni, eru þeir reyndar áþekkir í sjón og í persneskum klæðnaði. En síðar var farið að greina á milli þeirra. Á 6. öld er t.d. einn þeirra orðinn blökkumaður, en það nær samt ekki eyrum listmálara að heitið geti fyrr en á 14. og 15. öld.

Beda prestur hinn fróði (673-735), fyrsti sagnaritari Englands, útfærði hugmynd Ágústínusar, eða gekk skrefinu lengra, og kvað vitringana tákna þrjár álfur heimsins – Asíu, Afríku og Evrópu – og jafnframt þá syni Nóa, feður umræddra kynþátta.

Í kringum árið 750 kom fram írskt eða engilsaxneskt skrif, Excerpta et collectanea, eftir óþekktan mann, og í því var að finna nákvæma lýsingu á vitringunum, sem átti eftir að hafa gífurleg áhrif á þá myndlistarmenn sem gerðu fæðingarfrásöguna að yrkisefni næstu aldirnar. Þarna var Kaspar sagður hafa verið ungur maður, skegglaus, rauðhærður, íklæddur grænum kyrtli eða mussu, stuttum, rauðum möttli eða skikkju, í fjólubláum skófatnaði; og með reykelsi, táknandi guðdóm barnsins í jötunni. Melkíor var aldinn og grár, fúlskeggjaður og síðhærður, íklæddur fjólubláum kyrtli eða mussu, og stuttum, grænum möttli eða skykkju, með höfuðfat gert úr ýmsum efnum, og í fjólubláum og hvítum skóm; og með gull, táknandi konungdóm drengsins litla. Baltasar var á miðjum aldri, dökkur, alskeggjaður, íklæddur rauðum kyrtli eða mussu, og stuttum, hvítum möttli eða skikkju, og grænskóaður; hann gaf myrruna, táknandi dauða Mannssonarins. Öll fötin voru úr silki. Þó er dálítið á reiki hver vitringanna er dökkur; stundum er það Kaspar. Og hann á það líka til að vera miðaldra.

Hvað táknfræði gjafanna varðar hafa menn oftast og aðallega lesið framannefnt út úr þeim; sumir hafa þó viljað bæta því við, að myrran táknaði Jesú einnig sem lækni og græðara. Og því er ekki að neita að fleiri útlistanir hafa sést á prenti.

Árið 1370 kom fram það rit, sem við eigum núverandi mynd okkar af vitringunum að þakka eða kenna. Þetta var Saga konunganna þriggja eða Historia trium regum, samansafn af öllu eða flestu því sem um vitringana þrjá gekk í munni fólks eða í bókum. Höfundur var Johannes von Hildesheim, munkur af reglu Karmelíta. Í þessu skrifi hans er Kaspar frá Eþíópíu.

Vitringarnir tóku þó örlítið hliðarspor í myndlistinni í kjölfar þess að Evrópubúar fundu Ameríku aftur, í lok 15. aldar; einn var þá gjarnan sýndur í líki indíánahöfðingja.

Og í suður-amerískri króníku frá 1609 er því haldið fram, að Bartólómeus postuli hafi verið kristniboði í Andesfjöllum og að Melkíor hafi komið þaðan. Um svipað leyti var í evrópskri myndlist farið að sýna einn hinna tignu austrænu gesta sem konu.

Nú á tímum eru vitringarnir þrír óaðskiljanlegur hluti alls jólahalds, bæði í austur- og vesturkirkjunni. Í löndum mótmælenda var þrettándinn lengi eftir siðbreytingu hátíð vitringanna, en árið 1770 var hann afnuminn sem messudagur, og þess vegna lagðist minning þeirra af hér á landi. Í Danmörku kallast 6. janúar þó ennþá ?hellig tre kongers fest?.

Heimferðin og annað

En hvað varð svo um þá, eftir heimsóknina til Betlehem? Matteusarguðspjall segir að þeir hafi farið aðra leið heim, eftir bendingu í draumi um að snúa ekki aftur til Heródesar. En síðan er þögn.

Helgisagnir meina að Tómas postuli hafi síðar farið austur um, hitt þremenningana á Indlandi og kristnað þá. Einnig er rætt um, að þeir hafi orðið erkibiskupar. Og miðaldaheimild ein frá Köln í Vestur-Þýskalandi segir, að þeir hafi allir dáið, árið 54, í Sebaste í Armeníu, hafandi þar áður lagt á sig mikið erfiði við útbreiðslu fagnaðarerindisins. Melkíor andaðist 1. janúar, 116 ára gamall, Baltasar 6. janúar, 112 ára að aldri, og Kaspar 11. janúar, 109 ára. Jarðneskar leifar þeirra eiga síðar að hafa uppgötvast í Persíu, verið fluttar til Konstantínópel á 4. öld, þaðan til Mílanó á Ítalíu á 5. öld, og svo til Kölnar árið 1163.

Ítalska kaupsýslumanninum og ferðalangnum Markó Póló (1254-1324?) var þó sagt á 13. öld, að grafir þeirra væru í Persíu. En í þessum fræðum sem öðrum er ekkert merkilegt þótt eitthvað stangist á. Því oft er nú svo, að allir vildu Lilju kveðið hafa.

En hvað trúverðugleik sögunnar um magúsana að öðru leyti varðar, er rétt að benda á orð sagnfræðingsins Ernest L. Martin, sem ritar eftirfarandi:

?Mikilvægt er að átta sig á, að ferðalag á borð við þetta er ekki komið úr heimi fantasíunnar. Magúsar ferðuðust glæsilega. Frásögn Matteusarguðspjalls kemur ágætlega heim og saman við aðrar slíkar reisur, þar sem prestar zaraþústratrúar áttu í hlut, steðjandi á fund konunga og annarra valdhafa. Þegar Neró setti Tridates, af reglu magúsa, konung yfir Armeníu fór hinn síðarnefndi til Rómar, á fund keisarans, ásamt þremur öðrum magúsum, til að færa honum gjafir. Og ýmsar serímóníur og tilstand fylgdi þessu öllu. Eins mun þessu hafa verið farið, þegar magúsarnir komu til Heródesar á sínum tíma… Það er líka ástæðan fyrir því, að ?öll Jerúsalem? vissi af heimsókninni…?

Þegar öllu er á botninn hvolft eru orð S.V. McCasland þó sennilega best til þess fallin að ljúka þessu, en hann segir:

?Landafræði, þjóðfræði og austræn trúarbrögð varpa einungis fölu ljósi á magúsana; það er ekki fyrr en með trú jólanna að þeir verða að fullu sýnilegir og ná að ljóma.?

Mósaíkmynd í Ravenna á Ítalíu frá miðri 6. öld. Vitringarnir eru í persneskum klæðnaði og nöfn þeirra fyrir ofan: Balthassar, Melchior og Gaspar. Hér er Melkíor yngstur.

Gjafir vitringanna, eftir Pieter Pauwel Rubens; olía á striga, málað 1626-1629, nú varðveitt á Louvresafninu í París.

Einhvern veginn svona litu Mið-Austurlönd út um Krists burð.

Kaspar, tálgaður úr ösp. Hluti jólaskreytingar úr þýsku klaustri. Frá því fyrir 1489.

Baltasar er oftast talinn vera sá dökki þremenninganna, en Kaspar þó stundum, eins og í þessu tilviki.

Hann er sagður hafa gefið reykelsið, tákn fyrir guðdóm Jesúbarnsins, og er oftast sýndur yngstur vitringanna.

Melkíor, tálgaður úr ösp. Hluti jólaskreytingar úr þýsku klaustri. Frá því fyrir 1489.

Melkíor á að hafa komið með gullið, táknandi konungdóm drengsins litla.

Hann er oftast fulltrúi Evrópu á myndum og yfirleitt sá elsti í hópnum.

Undantekningin er þó nærtæk, sjá mósaíkmyndina frá Ravenna, sem fylgir þessari grein.

Baltasar, tálgaður úr ösp. Hluti jólaskreytingar úr þýsku klaustri. Frá því fyrir 1489.

Gjöf hans, myrran, táknaði dauða Jesú, en einnig læknishæfileika hans.

Baltasar er gjarnan látinn tákna miðaldra vitringinn.


?Arabar safna reykelsi?. Úr bókinni Cosmographie Universelle eftir Andre Thevet (1575).

Reykelsistré í Dhofar-héraði í Austur-Óman.

Nærmynd af reykelsistré í Dhofar-héraði í Austur-Óman. Hér sjást tárin vel.

Myrrutré á aldintíma í Hadramaut-héraði í Jemen.

Svona líta myrra (t.v.) og reykelsi (t.h.) út sem harpeis, kominn beint af trjánum. Síðan á eftir að mylja þetta í púður. Pundið af gulli og reykelsi kostaði mjög svipað á 1. öld e.Kr., en myrra var 6-7 sinnum dýrari.

Reykelsi og myrra eru enn í dag notuð eins og fyrr á tímum,

þótt læknisfræðilegt hlutverk þeirra sé ekki jafn mikið nú og þá.

Hér má sjá ilmkerti, þar sem bæði efnin koma við sögu.

[Þetta skrif birtist upphaflega í Morgunblaðinu 24. desember 2004, bls. 34-35, en myndir hér eru fleiri, sumar úr greininni ?Gull, reykelsi og myrra,? í Á sprekamó, afmælisriti tileinkað Helga Hallgrímssyni náttúrufræðingi sjötugum, 11. júní 2005, Hólar 2005, bls. 282-289, og svo aftur í Morgunblaðinu 11. desember 2005, bls. 14. Um heimildir texta og mynda vísast þangað.]

Myndir: Sjá framannefnt.

Texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]