Vikugamall flórgoðaungi í Saurbæjarmýrinni


Eins og sagt var frá á þessari fréttasíðu 8. júlí síðastliðinn gerðu tvö flórgoðapör sér hreiður í Siglufirði fyrstu daga júnímánaðar og er ekki vitað til þess að slíkt hafi gerst hér áður. En því miður fór allt á kaf í vatn eftir stórrigningu og varpið misfórst.

Þegar farið var að athuga hvernig eggjunum hefði reitt af fundust engin, þau höfði skolast burt, en þó mátti sjá að fuglarnir – í öðru hreiðrinu a.m.k. – höfðu borið þangað nýtt efni, sem benti til að þeir ætluðu að reyna aftur.

Og þetta gekk eftir.

Í dag sáu Örlygur Kristfinnsson og kona hans, Guðný Róbertsdóttir, nefnilega einn vikugamlan unga með öðru parinu og er hann þá sá fyrsti þessarar tegundar sem klekst út í firðinum. Þetta var nánar tiltekið í Saurbæjarmýrinni.

Hitt parið er líka á svæðinu, en ungalaust.

Vegna mikillar fjarlægðar náðist ekki góð mynd af hinum stoltu foreldrum með afkvæmi sitt, en hún er þó betri en ekkert. Aukamynd, til nánari skýringar, er fengin af Netinu, með leyfi.

Upprunalega fréttin er annars hér.

Tvö flórgoðapör reyndu varp í Siglufirði í ár.

Hér má sjá annað flórgoðaparið með ungann, fyrr í dag.

Annar fuglanna er með nýveitt hornsíli, að því er virðist, og býr sig undir að mata afkvæmið.

 

Unginn er einkennilega röndóttur á höfði. Þessi mynd er frá Alaska.

Myndir (fyrsta og önnur) og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Neðsta mynd: http://www.fws.gov. Birt með leyfi.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is