Vígsla Héðinsfjarðarganga


Vígsla Héðinsfjarðarganga í gær, þar sem á annað þúsund manns komu saman og fögnuðu í blíðskaparveðri hinum miklu tímamótum í sögu þessa landshluta, tókst afar vel. Haldnar voru margar tölur, hver annarri betri. Þar á meðal var ávarp Ingvars Erlingssonar, forseta bæjarstjórnar Fjallabyggðar.

Siglfirðingur.is hefur fengið góðfúslegt leyfi hans til birtingar á því. En það var svofellt:

Kæru hátíðargestir, til hamingju með daginn.

Langþráð
stund er runnin upp með opnun Héðinsfjarðarganga í dag. Göngin eru
glæsileg viðbót við samgöngukerfi landsins sem er lífæð hinna dreifðu
byggða íslands. 

Þessi stund á sér langan aðdraganda sem spannar
yfir 20 ár þar sem margir hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess
að gera þennan draum að veruleika. Ráðherrar, þingmenn,
sveitarstjórnarmenn, íbúar og aðrir áhugasamir hafa með samstilltu átaki
unnið markvisst að þessu verkefni með hag allra landsmanna, ekki aðeins
íbúa í næsta umhverfi ganganna að leiðarljósi. Ég vil fyrir hönd íbúa
Fjallabyggðar koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa gert þetta
stórvirki sem Héðinsfjarðargöng svo sannarlega eru að veruleika.

Íbúar
Siglufjarðar og Ólafsfjarðar fagna í dag stórum áfanga í raunverulegri
og áþreifanlegri sameiningu byggðakjarnanna tveggja sem mynda
sveitarfélagið okkar, Fjallabyggð. Ég segi áfanga því að enn er mikið
verk óunnið og við íbúarnir höfum það nú í hendi okkar hvernig við sem
samfélag nýtum okkur möguleikana sem blasa við okkur og göngin gera að
veruleika. Nú þurfum við hvert og eitt að líta í eigin barm og taka
meðvitaða ákvörðun um það hvernig við ætlum sem einstaklingar að móta
saman þetta nýja samfélag okkar til framtíðar. Með jákvæðni og
gagnkvæmum skilningi og umburðarlyndi getum við haft áhrif á það hvernig
samfélagið þróast í átt að sátt og samlyndi. Verum öðrum til
fyrirmyndar í þessum efnum.

Tækifærin eru til staðar, breytingar á
högum okkar og aðstæðum eru óumflýjanlegar og margir óttast að
breytingarnar verði ekki allar til góðs.

Fortíð og saga bæjanna
tveggja, Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, verður ekki tekin frá okkur, hún á
sér sinn stað í hjörtum okkar, menningu og á spjöldum sögunnar, en nú
er komið að því að horfa til framtíðar og byrja að skrifa nýjan kafla,
sögu Fjallabyggðar. Ótti við breytingar er skiljanlegur og hluti af
mannlegu eðli, en gleymum því ekki að allt sem við segjum og gerum hefur
áhrif í samfélaginu okkar. Hvernig við tökumst á við breytingarnar sem
nú eru að eiga sér stað getur ráðið úrslitum um það hvernig okkur tekst
til við að sameina byggðakjarnanna tvo, ekki aðeins sem eitt
þjónustusvæði heldur sem eitt samheldið og samstíga samfélag. ?Þetta
verður allt annað þegar göngin opna? hafa fjölmargir sagt meðan
á framkvæmdum stóð, nú er komið að okkur að sýna viljann til
raunverulegrar sameiningar í verki.

Við í Fjallabyggð erum lánsöm
að eiga góða nágranna bæði í austri og vestri sem fagna með okkur í dag
og eru ekki síður en við spenntir fyrir þeim möguleikum sem við stöndum
nú frammi fyrir. Aukin samvinna á öllu Norðurlandi er nú fyrirsjáanleg
og okkur ber skylda til þess að hafa víðsýni, kjark og þor til að nýta
þann samtakamátt sem við búum yfir sem ein heild, íbúar hinna norðlensku
byggða.

Héðinsfjarðargöng og vegirnir sem að þeim liggja eru
glæsileg mannvirki og eiga Vegagerðin, vertakarnir Háfell, Metrostav,
starfsmenn þeirra allir og undirverktakar skilið mikið lof fyrir
framkvæmdina. Unnið hefur verið við oft á tíðum erfið skilyrði og ýmis
vandamál komið upp sem leyst hafa verið með þrautseigju og útsjónarsemi.
Verktakar hafa verið afar þolinmóðir og liðlegir við alla sem til
þeirra hafa leitað og eiga þeir heiður skilinn fyrir það.

Starfsmenn
sem komið hafa mislangt að til þess að vinna við gerð ganganna hafa
sett sterkan svip á mannlífið í Fjallabyggð og verið til sóma í
hvívetna. Þeir eru í raun orðnir hluti af samfélaginu okkar og hafa sett
mark sitt á það á ýmsa vegu, miðlað okkur af menningu sinni og tekið
virkan þátt í menningarlífi okkar. Hafið bestu þakkir fyrir ykkar
framlag til samfélagsins okkar.

Það er mikil og vönduð
menningardagskrá í Fjallabyggð um helgina í tilefni dagsins. Um leið og
ég þakka öllum þeim sem komið hafa að undirbúningi og framkvæmd þessarar
hátíðar vil ég hvetja bæjarbúa og gesti til að njóta þess sem er í boði
í Fjallabyggð um helgina og sameinast í kaffiboði Vegagerðar og
Fjallabyggðar í Íþróttamiðstöðinni í Ólafsfirði kl. 16.00 í dag.

Ég
vil þakka öllum þeim sem hingað eru komin til þess samgleðjast með
okkur á þessum merkisdegi; njótið dagsins og megi framtíðin verða okkur
öllum björt.

Sannarlega orð við hæfi.

Hér koma svo loksins nokkrar myndir.

Myndir: Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is (langflestar), Sigurður Ægisson | sae@sae.is (nokkrar) og Jóhann Óli Hilmarsson | johannoli@johannoli.com (tvær)

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is