Verk eftir Þorvald Davíð og Ragnar Jónasson á Þjóðlagahátíð


Eins og fram kom í Morgunblaðinu á dögunum verður þjóðlagaflokkurinn Ný íslensk þjóðlög eftir bandaríska tónskáldið Evan Fein og Þorvald Davíð Kristjánsson fluttur á Þjóðlagahátíð á Siglufirði í júlí, auk laga úr óperunni The Raven’s Kiss, sem þeir sömdu saman, en í báðum tilvikum er um að ræða frumflutning á Íslandi. Við sama tækifæri verður frumflutt nýtt lag eftir Evan Fein við ljóð eftir Ragnar Jónasson, ?Úti?.

Eins og kunnugt er hefur Þorvaldur Davíð, ásamt Saga Film, tryggt sér kvikmyndaréttinn að Snjóblindu og fleiri Siglufjarðarbókum Ragnars.

Flutningurinn fer fram í Siglufjarðarkirkju föstudaginn 4. júlí kl. 20.00 og er það tenórinn Bragi Bergþórsson sem flytur verkin, en Evan leikur undir á píanó.

Evan Fein er fæddur árið 1984 og kennir við tónlistardeild Juilliard-listaháskólans og hefur nýlokið doktorsnámi í tónsmíðum við sama skóla. Sönglagaflokkurinn Ný íslensk þjóðlög (2009) varð til í samvinnu þeirra Evans og Þorvaldar Davíðs Kristjánssonar á meðan þeir voru saman við nám í Juilliard-listaháskólanum í New York. Lögin túlka viðbrögð tveggja einstaklinga þegar þeir líta sama staðinn augum: annar sér landslagið í fyrsta sinn en hinn, sem gjörþekkir staðinn, sér hann skyndilega í nýju ljósi fyrir tilstilli gestsins. Þorvaldur orti ljóðin á ferð þeirra Evans um Ísland á meðan þeir unnu að óperunni The Raven?s Kiss sem gerist á Vestfjörðum. Óperan var frumflutt í Juilliard árið 2011 og endursýnd í Scandinavia House í New York árið 2012.

Dagskrá kvöldsins er nánar tiltekið sem hér segir, en tónverkin eru öll eftir Evan Fein:

Úrval úr óperunni The Raven?s Kiss (2011) (Texti: Þorvaldur Davíð Kristjánsson)

I. Lullaby

II. A Darkling Bird

III. Tales from Fálkafjörður

Tvö lög úr Hávamálum (2010)

I. Hávamál: II

II. Hávamál: LXIV

Eggert Snorri (2009 – Ljóð: Steinn Steinarr)

Úti (2014 – Ljóð: Ragnar Jónasson)

Ný íslensk þjóðlög (2009 – Ljóð: Þorvaldur Davíð Kristjánsson)

I. Andansmenn

II. Kvöldsólarlag

III. Upp og niður

IV. Sólstafir

V. Að vera of seinn

VI. Útí á hafi

VII. Ástarstjörnur tvær

VIII. Haustið

IX. Álfaborg

X. Komdu heim

XI. Sál mín svífur burt (Breiðdalur)


Bandaríska tónskáldið Evan Fein.

Mynd og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is