Vel heppnuðum degi lauk með flugeldasýningu


Í gær hófst dagskrá Síldarævintýrisins kl. 09.00 um morguninn og stóð linnulaust
allan daginn og fram á nótt, með ýmsum skemmtiatriðum, hér og þar um bæinn.

Kl. 17.00 voru t.d. Hlöðver og Þorsteinn Freyr Sigurðssynir ásamt með Þórunni Marinós með tónleika í Siglufjarðarkirkju, og sá Antonia Hevesi um undirleikinn. Og bæði kl. 18.00 og 21.00 var á fjölunum, nánar tiltekið í Bátahúsinu, óskalagaþáttur sjómanna, Meira salt. Sérstakir gestir voru Ómar Ragnarsson og Bogomil Font.

Hvort tveggja er sagt hafa lukkast með eindæmum vel, og kemur ekki á óvart, enda einvalalið þar á ferðinni.

Um miðnættið var Björgunarsveitin Strákar
með flugeldasýningu út af miðri innri höfninni í Siglufirði, auk þess
sem kveikt var í bálkesti fyrir framan Síldarminjasafnið. Skapaði þetta andrúmsloft, sem fólk kunni vel að meta. Og ekki spillti
veðrið fyrir, kyrrt og gott.

Hér kemur ein mynd.

Bálkösturinn var glæsilegur og flugeldasýningin líka.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is