Vegurinn um Almenningana sígur um 10-15 cm á sólarhring


Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að vegurinn um Almenningana, sem á hátíðlegu máli er nefndur Siglufjarðarvegur utan Fljóta, sígi um 10-15 cm á sólarhring þrátt fyrir að stöðugt sé borið í hann. Eða m.ö.o., yrði ekkert að gert í viku gæti myndast þarna 70-105 cm lægð.

Í sömu frétt er frá því greint, að unnið sé að því að opna Lágheiði, og þá sem hjáleið eflaust. Ekkert hefur verið minnst á Skarðsveg.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er að finna þetta um ástandið hér nyrðra: ?Jarðsig hefur verið viðvarandi á Siglufjarðarvegi að undanförnu og skvompur eða brot geta myndast skyndilega. Því eru vegfarendur beðnir að sýna sérstaka aðgát.?

Þann 28. apríl síðastliðinn tók Kristján L. Möller ástand vegarins til umræðu á Alþingi, með fyrirspurn á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra. Hér er útdráttur úr þeirri umræðu:

 

Kristján L. Möller: ?Þess vegna segi ég að eina framtíðarlausnin, eina varanlega lausnin, sé sú að farið verði í það sem talað var um þegar Strákagöng voru gerð, að gera jarðgöng úr Hólsdal og yfir í Fljót. Það er á aðalskipulagi Fjallabyggðar þar sem gert er ráð fyrir jarðgöngum, sem við getum kallað Siglufjarðargöng, úr Hólsdal yfir í Fljót.?

 

Hanna Birna Kristjánsdóttir: ?Ég tek undir með háttvirtum þingmanni hvað varðar þetta verkefni að til lengri framtíðar litið sé næstum því, ég vil ekki segja öruggt, en næstum því ljóst, að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að ef við erum að leita að varanlegri lausn verður hún að vera með öðrum hætti, t.d. í formi jarðganga líkt og háttvirtur þingmaður nefndi. Annað eru auðvitað bráðabirgðalausnir og útlistun eða útfærsla á viðfangsefni og vandamáli sem til staðar er sem mun ekki leysast nema horft verði til varanlegra lausna.?

 

Össur Skarphéðinsson: ?Hæstvirtur innanríkisráðherra er raunsæiskona. Hún segir það alveg skýrt, og það eru tíðindin úr þessari umræðu, að ef menn ætli að finna varanlega lausn á þessum vanda sé hún einungis ein, sú að gera jarðgöng. Mér finnst það líka bera vott um framsýni ráðuneytisins og Vegagerðarinnar sérstaklega að vera búin að skoða og velta fyrir sér ýmsum leiðum.?

 

Kristján L. Möller: ?Ég þakka hæstvirtum innanríkisráðherra sérstaklega fyrir það svar sem hún deilir með mér og öðrum sem hafa sett það fram, þ.e. að eina varanlega lausnin á samgöngum við Siglufjörð þessa leiðina sé jarðgöng, hvort sem það er úr Hólsdal eða Skarðsdal og yfir í Fljót, líkt og rætt var um þegar Strákagöng voru gerð. Illu heilli var sú leið ekki valin vegna þess að hún var örlítið lengri í göngum en ekkert var hugsað um vegagerð o.s.frv. Það væri margt öðruvísi ef það hefði verið gert.?

Nánar hér.

Tengdar fréttir á Siglfirðingi.is:

Þessi mynd í Almenningunum var tekin í síðustu viku.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is