Vegurinn ruddur upp í Siglufjarðarskarð


Stefnt er að því að opna veginn upp í Siglufjarðarskarð eins fljótt og verða má, þó ekki fyrr en í maí eða júní, að sögn Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra Fjallabyggðar. Ekki verður farið lengra að sinni, því mikið þyrfti að gera við veginn í Hraunadal til að svo mætti verða. Ekki verður heldur borið í veginn sem fyrir er upp í skarðið Siglufjarðarmegin.

Verður komið fyrir skilti þar í efra, uppi á planinu, með þeim upplýsingum að menn séu þar á eigin ábyrgð.

Fagna ber þessu framtaki, svo langt sem það nær, því ekki hefur verið hægt að fara akandi þar yfir í nokkur ár.

Vonandi gerist það jafnframt innan ekki allt of langs tíma að vegurinn verði lagfærður Fljótamegin líka, svo unnt verði að keyra alla leið niður hinum megin. Það myndi tvímælalaust gleðja margan túristann, sem og heimamanninn og burtflutta Siglfirðinga.

Upphaflega var fjallseggin í skarðinu svo mjó að þar mátti sitja klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu, segir á Wikipediu. Í þessa egg hafði þó til forna verið höggvið skarð, nægilega breitt til að unnt væri að koma klyfjahesti þar í gegn. Skarðið var svo sprengt niður um fjórtán metra árið 1940 og í framhaldi af því var lagður akfær vegur um skarðið árið 1946. Það var áður, sem kunnugt er, aðallandleiðin milli Siglufjarðar og Skagafjarðar, allt þar til Strákagöng voru opnuð 1967.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir teknar af Skarðssvæðinu í gegnum árin.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]