Veggjald í Strákagöngum


Fyrir sextíu árum, í mars 1959, kom Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri með þá hugmynd að tekið yrði 10,3 milljóna króna lán til að ljúka við Strákaveg og Strákagöng á þremur árum, væntanlegar fjárveitingar ríkissjóðs yrðu nýttar til að greiða niður lánið en vextir af því verði greiddir með veggjöldum.

Rætt var um að gjaldið yrði 100 krónur fyrir hvern bíl sem færi um göngin (eins og áskrift að dagblaði í þrjá mánuði) en að heimamenn myndu greiða „hóflegt gjald“. Þá var búið að leggja veg út að gangamunnanum Siglufjarðarmegin og sprengja 12 metra inn í bergið til að kanna jarðlög. Þessi upphafshluti ganganna var kallaður Gatið á Landsenda (sem er örnefni þar skammt frá) en sumir töldu þetta frekar vera holu en gat.

Í apríl 1959 samþykkti bæjarstjórn Siglufjarðar að taka að sér að greiða vextina með því skilyrði að heimilað yrði að leggja „vegarskatt á bifreiðar er fara um jarðgöngin“.

Þessi hugmynd komst ekki í framkvæmd og Strákagöngin voru ekki tilbúin fyrr en haustið 1967. Líklegt var þetta í fyrsta sinn sem rætt var um veggjald eða vegarskatt á þjóðvegum landsins.

Á þessum tíma var stefnt að því að göngin yrðu tvíbreið. Þegar gangagerðin var boðin út, 1965, var bæði boðið í einbreið og tvíbreið göng og voru þau tvíbreiðu aðeins 12-30% dýrari en einbreið.

Heimildir:

Slóð á grein í Alþýðublaðinu 7. mars 1959: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1989206

Slóð á grein í Alþýðublaðinu 7. apríl 1959: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1989957

Slóð á grein í Morgunblaðinu 8. apríl 1959: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1321426

Slóð á grein í Lesbók Morgunblaðsins: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3285583

Mynd: Úr Lesbók Morgunblaðsins 1959.
Texti: Jónas Ragnarsson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]