Veðurfar og mannlíf gott í Siglufirði


Morgunblaðið birtir reglulega pistla fréttaritara sinna, í þætti sem nefnist Úr bæjarlífinu.
Er þar reynt að bregða upp myndum úr heimabyggð og því sem fólk úti um
land er að fást við hverju sinni. Þetta á að vera stutt og hnitmiðað,
ekki fleira en 2.000 slög.

Í dag var komið að Siglufirði. Flest ef ekki allt sem þar var nefnt hefur reyndar verið til umfjöllunar hér áður. En þarna sagði:

Grunnskóli Fjallabyggðar tók til starfa 1. ágúst 2010 og leysti af hólmi Grunnskóla Ólafsfjarðar og Grunnskóla Siglufjarðar.
Við skólann eru þrjár starfsstöðvar: Yngri deild í Ólafsfirði, þar sem
eru u.þ.b. 65 nemendur, yngri deild á Siglufirði, með u.þ.b. 75
nemendur, og eldri deild á Siglufirði, með um 135 nemendur. Tónskóli
Fjallabyggðar leit einnig dagsins ljós á haustdögum, í stað Tónskóla
Ólafsfjarðar og Tónlistarskóla Siglufjarðar. Nemendur þar eru 152
talsins.

Í byrjun desember voru átta
Englendingar og tveir íslenskir aðstoðarmenn í Siglufirði við efnisöflun
og myndatökur hjá Ramma og Primex fyrir sjónvarpsþátt sem sýndur verður
hjá BBC seinna í vetur og fjallar um fullvinnslu á afurðum úr
dýraríkinu.

Ungur Siglfirðingur, nemandi í 10.
bekk, Sigurjón Sigtryggsson, mun keppa í frjálsum íþróttum á Special
Olympics, sem haldnir verða í Aþenu í Grikklandi 25. júni til 4. júlí
2011.

Vegagerðin hefur nýlega sett upp
veðurstöð undir Herkonugili, vestan Strákaganga. Myndavélar komust í
gagnið þar í haust. Ekki þarf að hafa um það mörg orð hvílíka þýðingu
þetta hefur fyrir þá ökumenn sem þurfa að fara Siglufjarðarveg um vetur,
ekki síst í tvísýnu. Samskonar tæki voru einnig sett upp í
Ólafsfjarðarmúla, við Rípil. Og myndavélar eru nú jafnframt við alla
munna Héðinsfjarðarganga.

Treflinum hennar Fríðu Bjarkar
Gylfadóttur, sem ríflega 1.400 manns tóku þátt í að prjóna og lagður var
á milli austur- og vesturhluta sveitarfélagsins í tilefni opnunar
Héðinsfjarðarganga 2. október, var komið fyrir í Menningarhúsinu Hofi á
Akureyri eftir það, í tilefni alþjóðlegu athafnavikunnar. Hann verður
svo í Ráðhúsi Reykjavíkur frá 10. janúar, í tvær vikur.

Áramótin voru heiðskír og stillt, en þó köld. Púðursprengingar Fjallabyggðunga sáust víst úti í Grímsey.

Frá miðjum nóvember til 28. janúar búa Siglfirðingar við sólarleysi. En
þegar sú gula birtist aftur er fagnað með viðeigandi hætti, kaffi og
pönnukökum.

Veturinn er annars snjóléttur og mannlíf gott.

Næsti bæjarlífspistill héðan er ráðgerður einhvern fyrstu dagana í mars.

Siglufjörður upp úr miðnætti 1. janúar 2011.

[Birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. janúar 2011, bls. 12.]

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is