Varúðarljósin í Múlagöngum


Það var alveg furðulegt, satt best að segja, ljósaskiltið sem sett var upp í vestari enda Múlaganga fyrir einhverju síðan, til að vara við umferð sem kom að vestan og átti forgang í austurátt. Ljósin sem tekin höfðu verið niður þjónuðu ágætlega sínum tilgangi, þar sem annað var gult, síblikkandi, þar til skynjari nam að bíll var að fara inn um gangnamunnann Ólafsfjarðarmegin, þá hætti gula ljósið að blikka og við tók svo rautt ljós sem logaði stöðugt á meðan bíllinn var að koma sér í gegn um þrenginguna.

Enginn texti var þar.

Nýja ljósaskiltið var tvískipt, hið efra gult og rautt með tveimur örvum sem vísuðu hvor í sína áttina, önnur var svört en hin rauð, og það lýsti stanslaust og fór ekki að blikka fyrr en skynjari nam að bíll var að nálgast vestari gangnamunnann, svo tók neðra skiltið að lýsa – ekki rauðu heldu gulu og með áletruninni VARÚÐ Bíll á móti.

Undirritaður mætti fyrir viku eða svo bíl í stórhættulegri þrengingunni. Í honum voru tvær enskumælandi stúlkur komandi úr austri og áttu því ekki réttinn. Aðspurðar sögðust þær jú hafa séð skiltið, en ekki vitað hvað það merkti.

Þann 20. maí sendi undirritaður tölvubréf til Vegagerðarinnar á Akureyri þar sem m.a. var spurt:

1. Af hverju í ósköpunum þurfti að skipta um ljós?
2. Af hverju er neðra ljósið ekki rautt?
3. Af hverju er neðra ljósið á íslensku bara? Er ekki gert ráð fyrir að útlendingar aki þarna um, eða gerir Vegagerðin ráð fyrir að þeir kunni íslensku?

Og varðandi erlendu ferðamennina, sem hingað flykkjast, var auk þess bent á, að í fréttum þá nýverið hefði komið fram að bílaleigur hér á landi hefðu sjaldan eða aldrei haft meira að gera en einmitt þessi misserin.

Skemmst er frá því að segja að viðbrögð fengust engin.

Hinn 24. maí ákvað undirritaður að áframsenda erindið til deildarstjóra samskiptadeildar Vegagerðarinnar í Reykjavík sem svaraði um leið, að hann myndi ýta við mönnum nyrðra. Ekkert gerðist þó fyrr en í morgun, 27. maí, eftir að erindið hafði var ítrekað. Þá var deildarstjóra samskiptadeildar tilkynnt að norðan, að búið væri að breyta skiltinu, með von um að „ástandið verði betra þótt alltaf sé hætta á einhverjum uppákomum þarna“. Afrit bréfsins var sent til undirritaðs.

Neðra ljósaskiltið er sumsé orðið rautt – sem óneitanlega er skref í rétta átt – en nú stendur: STOP Bíll á móti.

Vegagerðin virðist því samkvæmt þessu ekki gera ráð fyrir erlendum ferðamönnum í Múlagöngum eða þá stóla á hitt, að þeir skilji íslensku, allir sem einn.

Ljósaskiltið fyrir rauðu breytinguna. Bíll á leið vestur þrenginguna.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

Tagged:


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is