Varp í fullum gangi


Þessi heiðlóa lá á eggjum sínum á ónefndum stað í Siglufirði í dag og er ákveðin í að koma upp ungum, þrátt fyrir hina köldu sumartíð. Hún var nefnilega búin að verpa fyrir síðasta hret og er aðdáunarvert að vita til þess að hún og aðrir fuglar skuli hafa þraukað, á kafi í snjó. En nú fer sumsé að líða að ábroti.

Íslenska heiðlóan er eindreginn farfugl sem er þegar farin að koma til landsins í marslok en stærstu hóparnir birtast þó ekki fyrr en liðið er á aprílmánuð. Í góðu vori leita fuglarnir strax inn til landsins en að öðrum kosti halda þeir sig mest í fjörum eða leita á náðir þéttbýlisins í von um æti í ófreðinni jörð á milli húsa. Lóan er félagslynd allt árið um kring en hóparnir taka að þynnast er líður að varptíma.

Heiðlóan byrjar varp sitt alla jafna í hálfnuðum maí eða svo og er kjörlendi hennar á varptíma þurrlendi með strjálum kyrkingslegum gróðri, bæði á láglendi og til fjalla. Erlendis kann hún best við sig í 200-600 m hæð yfir sjávarmáli en hér á landi eru þessi mörk frá 0-700 m. Á öðrum árstímum leitar hún einnig í ræktað land og fjörur. Þó veður hún ógjarnan. Þar sem hentuga varpstaði er á annað borð að finna er heiðlóan jafndreifð um alla hluta landsins.

Einkvæni ríkir. Hreiðrið er mjög einfalt að allri gerð, ekki nema smá laut á bersvæði. Eggin eru fjögur að tölu og oftast mosagræn, grá eða ljósbrún með rauðum og svörtum dröfnum. Bæði foreldri sjá um útungun, er tekur 27-34 daga, og annast líka sameiginlega um ungana eftir það. Fyrsta sólarhring eftir klak eru þeir í hreiðrinu en verða sjálfbjarga og fara á kreik um leið og hýið er þornað. Þeir verða fleygir 25-33 daga gamlir og kynþroska að ári liðnu.

Hér á landi er fæða heiðlóunnar einkum skordýr, helst bjöllur og fiðrildalirfur, og svo ánamaðkar. Við sjó tekur hún einnig marflær, burstaorma og fleiri slík kvikindi. Og á haustin eru tínd ber.

Eftir að ungarnir hafa náð tökum á fluglistinni safnast lóurnar í hópa, t.d. á nýslegnum túnum, engjum og sjávarleirum. Eru þær mjög áberandi um það leyti og einn af mörgum þáttum í íslenskri náttúru er segir til um að ekki sé langt í haust og vetur.

Lit ungfugla svipar um margt til vetrarbúnings hinna fullorðnu.

Erfitt er að segja til um með nákvæmni hvenær fyrstu lóurnar hverfa á brott en trúlega er það í ágústmánuði. Í september er þeim greinilega tekið að fækka mikið og í venjulegu árferði er allur þorri fuglanna horfinn í byrjun nóvember.

Fyrr á öldum var talið að heiðlóan færi aldrei héðan af landi burt heldur lægi í vetrardvala í klettasprungum, með laufblað eða birkiviðaranga í nefinu, eins og álitið var um svöluna hjá öðrum þjóðum. En nú vita menn betur, hún er eindreginn farfugl eins og áður var minnst á. Aðal vetrarheimkynni beggja deilitegundanna eru á vestanverðum Bretlandseyjum, í Frakklandi, á Spáni, í Portúgal og svo eitthvað í öðrum löndum við Miðjarðarhaf, allt inn í botn þar. Talið er að mestur hluti íslenska stofnsins haldi sig á Írlandi en þó hafa lóur merktar á Íslandi einnig fundist í Norður-Afríku svo að dreifingin er greinilega um nokkuð breitt svæði.

Hér má sjá egginn fjögur, sem hún liggur á í Siglufirði.

Myndir: Mikael Sigurðsson og Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is