Vantar bara hnakkana


Súkkulaðikaffihús Fríðu Bjarkar Gylfadóttur að Túngötu 40a á Siglufirði er orðið þekkt kennileiti í bænum, þótt ekki séu nema rúm tvö ár síðan það var opnað, eða nánar tiltekið 25. júní 2016. Þar hafa frá upphafi verið á boðstólum handgerðir konfektmolar úr úrvalssúkkulaði, belgísku, auk margs annars. Og heimafólk og ferðamenn, innlendir sem erlendir, hafa streymt þangað, auk þess sem hægt hefur verið að panta siglfirska dýrindið í gegnum vefsíðuna frida.is.

Súkkulaðikaffihúsið sló svo rækilega í gegn að ráðist var í að stækka húsakynnin í byrjun árs 2017. Og enn þurfti að endurskipuleggja síðasta haust.

„Já, til að geta boðið upp á vöfflur þurfti ég meira pláss og þess vegna fór ég í þessa viðbót núna,“ segir Fríða, en þar á hún við nýtt þjónustuborð að austanverðu í aðalsalnum, sem auðveldar mjög alla afgreiðslu á téðri vöru. Framkvæmdir stóðu að mestu yfir í nóvember en verkið kláraðist fyrir skemmstu. Auk þess var bætt við nýjum kæli.

„Reyndar er þetta ekki alveg tilbúið, því til að viðhalda þemanu á eftir að setja hnakka á stólana framan við nýju vitbótina, en þeir verða komnir áður en langt um líður,“ segir Fríða. Til skýringar skal þess getið að hún er mikil hestakona og þar að auki listamaður eins og glöggt má sjá ef litið er í kring á súkkulaðikaffihúsinu, þar sem m.a. prýða veggi málverk hennar af hestum auk þess sem hnakkur er í viðbótinni sem tekin var í notkun fyrir páskana 2017. Fríða var kjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2015.

Súkkulaðikaffihúsið var lokað í janúar en opnað að nýju í gær, 1. febrúar. Fyrir utan súkkulaði geta viðskiptavinir nú fengið keypt ýmsan annan varning, s.s. innkaupapoka, póstkort og stuttermaboli með einni hestamynd listakonunnar að ógleymdum nýjum kaffibollum, Corkcicle, sem halda köldu í 9 tíma og heitu í 3 tíma; hún flytur þá inn sjálf. Ýmsir drykkir eru í boði líka, áfengir sem óáfengir. Þar á meðal er ný tegund af freyðivíni sem og alvöru kampavín. Að ógleymdu því, að nú er Fríða að hanna súkkulaðimola til heiðurs Mjallhvíti, sem eins og flestir vita á uppruna að rekja til Siglufjarðar.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is