Valin í U15 landsliðið

Anna Brynja Agnarsdóttir - Siglufjörður

Siglfirðingurinn Anna Brynja Agnarsdóttir, nýlega orðin 15 ára gömul, hefur verið valin í U15 landslið Íslands í knattspyrnu. Hún leikur með Þór á Akureyri, er á yngra ári í 3. flokki en hefur jafnframt verið að spila með 2. flokki í sumar. Hún lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki Þór/KA á Íslandsmótinu í Pepsi Max deild kvenna þann 10. júlí síðastliðinn, þá enn 14 ára.

Fyrir þau sem ekki vita eru foreldrar hennar Telma Björk Birkisdóttir (Önnu Margrétar Skarphéðinsdóttur og Birkis Más Ólafssonar) og Agnar Þór Sveinsson (Sigrúnar Victoríu Agnarsdóttur og Sveins Aðalbjörnssonar).

Anna Brynja er þessa dagana stödd í Reykjavík en er á leið til Víetnam því KSÍ þáði boð UEFA um þátttöku í móti fyrir U15 landslið kvenna, sem fram fer í Hanoi dagana 29. ágúst til 7. september. Um er að ræða samstarfsverkefni UEFA og FIFA sem miðar að því að fjölga tækifærum ungra og efnilegra stúlkna til að leika knattspyrnu á alþjóðlegum vettvangi og vinna þannig að því að auka enn gæði í knattspyrnu kvenna á heimsvísu, að því er segir á heimasíðu KSÍ. Verkefni fyrir þennan aldurshóp hefur tilfinnanlega vantað og fagnar KSÍ því þessu framtaki UEFA og FIFA.

U15 landsliðshópurinn í Víetnam verður þannig skipaður:

Aldís Guðlaugsdóttir | Víkingur Ó.
Amelía Rún Fjeldsted | Keflavík
Anna Brynja Agnarsdóttir | Þór
Berglind Þrastardóttir | Haukar
Birna Kristín Björnsdóttir | Augnablik
Eyrún Vala Harðardóttir | Augnablik
Helena Jónsdóttir | ÍBV
Hildur Björk Búadóttir | Valur
Írena Héðinsdóttir Gonzalez | Breiðablik
Ísfold Marý Sigtryggsdóttir | KA
Kara Petra Aradóttir | Keflavík
Mikaela Nótt Pétursdóttir | Haukar
Sara Dögg Ásþórsdóttir | Afturelding
Snædís María Jörundsdóttir | Stjarnan
Tinna Brá Magnúsdóttir | Grótta
Unnur Stefánsdóttir | Grindavík
Viktoría Diljá Halldórsdóttir | Haukar
Þórdís Katla Sigurðardóttir | Augnablik

Ísland mun mæta gestgjöfunum, Víetnam, og að auki leika gegn Japan og Mjanmar. Þjálfari íslenska liðsins er Lúðvík Gunnarsson, og honum til aðstoðar verður Jörundur Áki Sveinsson.

Siglfirðingur.is óskar Önnu Brynju innilega til hamingju.

Áfram Ísland.

Anna Brynja Agnarsdóttir Anna Brynja Agnarsdóttir

Forsíðumynd: Sigurður Ægisson | [email protected]
Aðrar myndir: Aðsendar.
Texti: Sigurður Ægisson | [email protected] / KSÍ.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]