Úr kirkjuturni á Siglufirði


Egill Helgason er staddur á Siglufirði vegna þáttagerðar, sem nánar verður frá greint síðar. Á miðvikudag birti hann eftirfarandi pistil á heimasíðu sinni:

„Ég fékk að klöngrast upp í kirkjuturninn á Siglufirði í gær – í mikilli sumarblíðu. Það er ekki alveg auðvelt fyrir mann af minni stærð, það er upp þrönga stiga og op að fara. En þetta er þess virði, útsýnið úr turninum er dásamlegt.

Kirkjan á Siglufirði var á sínum tíma stærsta guðshús á Íslandi fyrir utan kaþólsku kirkjuna á Landakoti. Hún var vígð 1932, teiknuð af dönskum arkitekt, Arne Finsen. Þá var mikill uppgangur í bænum vegna síldveiða, fólk dreif að til að vinna í síldinni. Bærinn var reyndar frægur fyrir mörg trúfélög sem þar störfuðu, eins og gjarnan á stöðum þar sem eru mikil uppgrip togaðist á syndin og guðræknin. Fólk vann, drakk, syndgaði, iðraðist og frelsaðist, fékk svo kannski aftur, sitt á hvað.

Siglfirðingar áttu líka einn frægasta prest á landinu, þjóðlagasafnarann Bjarna Þorsteinsson. Bjarni þjónaði á Siglufirði í heil 47 ár. Bjarni var allt í öllu í bænum, þótti reyndar stundum aðeins ráðríkur, en hann var líka áhugamaður um ýmis framfaramál, meðal annars bæjarskipulag.

Á myndinni sést úr kirkjuturninum yfir Aðalgötuna á Siglufirði. Þetta er einhver merkasta og sögufrægasta gata á Íslandi. Á síldarárunum iðaði þarna allt af lífi – og hin síðari ár hefur gatan verðið að ganga í endurnýjun lífdaga með auknum ferðamannastraumi.

Gatan liggur eftir eyri sem hefur ýmist verið kölluð Þormóðseyri, Siglufjarðareyri eða Hvanneyri. Séra Bjarni bjó svo um hnútana að göturnar liggja eftir reglustikumynstri, þetta er grid eins og það heitir á ensku, þetta er óvenjulegt í íslenskum bæjum en fyrir vikið er meiri borgarbragur á Siglufirði en almennt á Íslandi.“

Mynd: Skjáskot af heimasíðu Egils Helgasonar.
Texti: Fenginn af heimasíðu Egils Helgasonar / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is