Úr endurminningum Guðmundar í Bakka


Guðmundur Bjarnason, jafnan kenndur við Bakka í Siglufirði, var einhver
þekktasti einstaklingur í bæjarlífinu hér á síðari hluta 19. aldar og
fram á miðja þá 20.

Hann fæddist í Brennigerði í Skagafirði árið 1864 en kom hingað árið 1870.

  

Hann kunni frá ýmsu að segja, enda hokinn af reynslu.

  

Eftirfarandi grein birtist fyrst í Sjómannablaðinu Víkingi, 9.
tölublaði, 1. september 1941. Ekki er ljóst hver skráði.

Guðmundur Bjarnason

En áður, svona til frekari kynningar, mætti líta aðeins á skrif Óskars J. Þorlákssonar um Guðmund, þegar hinn síðarnefndi fagnaði 80 ára afmæli, 6. september 1944. Það birtist í Morgunblaðinu og er á þessa leið:

Einn af elstu borgurum Siglufjarðar, Guðmundur Bjarnason í Bakka, verður áttræður í dag. Guðmundur er fæddur að Brennigerði, Skagafirði, 6. sept. 1864 og voru foreldrar hans þau hjónin, Bjarni Guðmundsson, ættaður úr Skagafirði, en móðir hans Þóra Jónsdóttir var ættuð frá Siglunesi.

Árið 1870 fluttist Guðmundur með foreldrum sínum til Siglufjarðar og settust þau að í Bakka, er var tómt hús utan Hvanneyrar og hafði fyrst verið byggt þar nokkrum árum áður eða 1866. Guðmundur ólst upp í Bakka og hefir átt þar heima alla tíð síðan. Árið 1889 kvæntist hann Halldóru Björnsdóttur frá Þernuskeri á Látraströnd (f. 1863) hinni mætustu konu og búa þau enn í Bakka, ásamt sonarsyni þeirra hjóna, er ber nafn afa síns. Og þrátt fyrir háan aldur eru þau hin ernustu. Þau eignuðust tvo syni, Bjarna og Gest, sem báðir eru látnir fyrir nokkrum árum. En sonur Guðmundar, er hann eignaðist áður en hann giftist er nú búsettur í Færeyjum.

Á yngri árum sínum stundaði Guðmundur sjó á hákarla- og fiskiskipum og hafði hið mesta yndi af öllum veiðiskap, enda þótti hann hin mesta aflakló og selaskytta var hann talinn ágæt.

Á árunum 1893-1923 eða full 30 ár vann Guðmundur við lifrarbræðslu hjá verslun Gránufjelagsins í Siglufirði, í tíð sex verslunarstjóra og hafði á þeim árum góða aðstöðu til þess að fylgjast með skipum og aflabrögðum. Eftir að Óskar Halldórsson, hóf útgerð í Bakka, vann Guðmundur hjá honum við lifrarbræðslu um 10 ára skeið, en síðan keypti hann og bræddi lifur fyrir eigin reikning í nokkur ár, eða fram til ársins 1939.

Það má segja um Guðmund í Bakka, að hann hafi lifað tvenna tímana hjer í Siglufirði. Þegar hann kom hingað var Siglufjörður fátækur útkjálki og örfá hús og kofar á Eyrinni, þar sem nú er kaupstaðurinn. Nú er Siglufjörður meðal stærstu bæja landsins og einn hinn þýðingarmesti í atvinnulífi þjóðarinnar. Hjer er ekki staður til þess að rekja þá sögu.

En Guðmundur kann frá mörgu að segja í sambandi við þróun bæjarins, að fornu og nýju. Einna ánægjulegast þykir Guðmundi að minnast áranna 1924?30, þegar útgerð Óskars Halldórssonar í Bakka stóð með mestum blóma. Og þó að dauft sje nú yfir Bakka, er Guðmundur ekki vonlaus um að þar kunni að birta yfir aftur.

Flestir sjómenn, einkum þeir eldri, kannast við Guðmund í Bakka og mörgum hefir hann gert greiða um dagana. Færeyingar höfðu lengi mikil viðskipti við hann, og fyrir allmörgum árum veitti danska stjórnin honum heiðurspening og viðurkenningarskjal, sem þakklætisvott fyrir margskonar fyrirgreiðslu við færeyska og danska sjómenn, er leituðu til Siglufjarðar.

Guðmundur og Halldóra í Bakka eru gestrisin og trygg í lund og eiga marga vini og kunningja, bæði í Siglufirði og víða um land, er munu hugsa hlýtt til þeirra í dag, á þessum merkisdegi í lífi Guðmundar, og óska þess að ævikvöld þeirra megi verða fagurt og friðsælt.

Við þetta er að bæta, að Guðmundur lést í desember 1949, 85 ára. Halldóra Björnsdóttir, kona hans, lést árið 1965, 101 árs.

Guðmundur og Halldóra á gullbrúðkaupsdaginn.

En hér kemur þá brot úr endurminningum Guðmundar, tekið úr Sjómannablaðinu Víkingi 1941. Útgáfan sem hér birtist er með
nútímastafsetningu.

Úr endurminningum Guðmundar í Bakka

Flestir sjómenn sem komið hafa til Siglufjarðar munu kannast við Guðmund Bjarnason á Bakka eða hafa heyrt hans getið. Guðmundur er meðal elstu borgara í Siglufirði og hefur átt heima á Bakka í rúm 70 ár samfleytt. Hann er fæddur að Brennigerði í Skagafirði 6. september 1864 en fluttist fimm ára gamall til Siglufjarðar. Á árunum 1882-1892 stundaði Guðmundur sjó á hákarlaskipum, en eftir það hætti hann sjómennsku og gerðist lifrarbræðslumaður hjá verslun Gránufélagsins á Siglufirði og var við það starf í 30 ár. Fylgdist hann því vel með hákarlaveiðunum um fjölda ára, enda munu fáir honum fróðari um allt er að þeim veiðum laut.

Við  Kolbeinsey

Kolbeinsey heitir lítil Klettaey norður í Íshafi. Er hún 107 km eða tæpar 58 sjómílur í hánorður af Siglunesi. Eftir hnattstöðu reiknast Kolbeinsey 67° 10′ n. br. og 18° 44′ v. 1. Frá Grímsey er stefna hennar í norð-norðvestur, en vegalengdin milli eyjanna sem næst 79 km eða tæpar 43 sjómílur.

Fremur mun hafa verið fáferðugt til Kolbeinseyjar, en þó voru hákarlaskip oft á þeim slóðum og kom þá stundum fyrir, að menn brugðu sér í eyjuna til eggjatöku.

Sumarið 1932 var Kolbeinsey rækilega athuguð af nokkrum Húsvíkingum, sem fóru þangað á vélbát. Mældu þeir eyjuna og reyndist hún vera 60 faðmar á lengd, en 40 faðmar á breidd, þá tóku þeir af henni nokkrar góðar myndir. Birtist fróðleg ritgerð um ferðina og sögu Kolbeinseyjar í Eimreiðinni 1933 eftir Jochum Eggertsson.

Í eftirfarandi þáttum segir Guðmundur frá ævintýrum, sem hann og félagar hans lentu í við Kolbeinsey.

Bjarndýrið

Veturinn 1886 var ég háseti á hákarlaskipinu Njáli frá Akureyri, skipstjóri var Albert Finnbogason frá Garði í Dalsmynni við Eyjafjörð. Eitt sinn lágum við um tvær sjómílur suðaustur af Kolbeinsey. Veður var ágætt, logn og sólskin og dauður sjór. Ég sat undir vað og var að draga hákarl. Heyri ég þá að einhver kallar að bjarndýr sé á sundi aftan við skipið, undir skútanum. Þustu nú margir af skipverjum aftur en ég hljóp strax niður í káetu og sótti byssu mína og skotfæri. Þegar ég kom upp aftur var bjarndýrið komið nokkuð frá skipinu. Dró ég nú í skyndi prammann að skipinu, en svo var skipsbáturinn jafnan kallaður, og vildi ég þegar elta bjarndýrið. Í fyrstu vildu engir af skipverjum koma með mér í þessa ævintýraför, enda fyrirbauð skipstjóri okkur að fara frá skipinu, en sagði þó að ef við færum gerðum við það á eigin ábyrgð. Mælti ég nokkur orð í styttingi því mér þótti leitt að láta svo góðan feng ganga okkur úr greipum.

Varð nú úr að þrír af skipverjum buðust til þess að fara með mér á prammanum. Lögðum við þegar frá skipinu og tókum að elta bjarndýrið og hlóð ég þegar byssuna og hafði hana til taks. Ísspöng allstór lá ekki alllangt frá okkur og stefndi bjarndýrið þangað. Hófst nú sannkallaður lífróður og dró enginn af sér og tókst okkur brátt að komast fram fyrir dýrið, milli þess og íssins. Skaut ég þá sex skotum að bangsa á nokkru færi, en hann lét sig hvergi, heldur lagði kollhúfurnar og hristi hausinn. Vorum við nú komnir svo nálægt honum að við hugðumst leggja hann með hákarlsdrep, er við höfðum í bátnum.

Allt í einu hóf bangsi sig upp í sjónum og kom öskrandi á móti okkur og var þá allt annað en árennilegur. Beið ég nú þess að hann kæmi í gott skotfæri og hafði byssuna tilbúna og skaut hann síðan sem væri hann stórgripur, og var það banaskot.

Við náðum honum þegar, komum kaðli um hálsinn á honum og drógum hann á eftir prammanum til skipsins og var það þungur róður. Alls vorum við sjö klukkustundir frá því að við fórum frá skipinu og þar til við komum þangað aftur.

Var nú bjarndýrið dregið á þilfar og flegið þannig að feldurinn var látinn halda sér með haus og hrömmum. Nokkuð af kjötinu hirtum við, aðallega ganglimina, og nutu þar aðrar skipshafnir góðs af, en hinu fleygðum við eða höfðum í hákarlabeitu.

Í þessari ferð bar ekki fleira til tíðinda nema hvað mér tókst að skjóta sex væna blöðruseli, en í ferðinni fengum við alls 96 tunnur lifrar.

Feldinn af bjarndýrinu keypti Jakob Hafstein verslunarstjóri á Akureyri fyrir 160 krónur. Var andvirðinu skipt milli skipshafnarinnar og fékk ég tvo hluti fyrir að skjóta dýrið. Eftir því sem ég best veit er feldurinn enn til í eigu Júlíusar Hafstein sýslumanns á Húsavík.

Eggjatakan

Í næstu ferð þetta sama vor lágum við enn eina sjómílu suðaustur af Kolbeinsey. Var þetta um hávarptímann og eyjan hvít af fugli. Hákarl var tregur og lítið að gera um borð. Komst þá til tals að gaman væri að fara í eyjuna og fá sér nokkur svartfuglaegg og varð það úr að við rerum á prammanum í eyjuna. Að þessu sinni fór skipstjórinn Albert Finnbogason með okkur og vorum við fimm saman. Lagði skipstjóri ríkt á við stýrimann, Sigurgeir Indriðason frá Veisu í Fnjóskadal, að leysa ekki skipið meðan við værum í burtu, hvað sem fyrir kæmi.

Við tókum með okkur tóma tunnu og ýmsar tilfæringar sem nauðsynlegar voru við eggjatökuna. Logn var og blíðviðri, þegar við lögðum af stað. Vorum við rúman klukkutíma að róa að eyjunni.

Við komum að henni að sunnan og ætluðum að fara þar upp, en þar var nokkur súgur, svo að við rerum norður fyrir og lögðum þar að sem fyrir var lág blágrýtisklöpp. Hljóp ég strax upp með línu og dró upp tunnuna og annað er við höfðum meðferðis. En það skipti engum togum að þegar ég var kominn upp tök súgurinn að vaxa svo að ekki þótti gerlegt að fleiri réðust til uppgöngu. Fór ég nú að litast um og var alls staðar krökkt af svartfugli og hvar sem litið var lágu nýorpin egg á klöppinni, svo að mér þótti þarna æði matarlegt. Tók ég nú að safna eggjunum af mesta kappi, því engan tíma mátti missa, og bar ég þau jafnóðum í tunnuna. Tíndi ég þarna á einni til tveimur klukkustundum um 700 egg. Gekk ég síðan frá tunnunni og lét hana síga ofan af klöppinni, niður í sjóinn, þar sem bátsverjar áttu hægast með að ná til hennar, og gekk það greiðlega.

En nú átti ég sjálfur eftir að komast niður í bátinn og var það þrautin þyngri. Var kvikan orðin það mikil að ógerningur var að leggja prammanum að klöppinni. Reyndi hann fyrst að koma eins nærri og kostur var og átti ég að sæta lagi og stökkva niður í hann, en þetta reyndist ógerningur. Fór alllangur tími í þessar tilraunir. Loks sá ég að þetta dugði ekki og batt línuna yfir um mig og kastaði endanum niður í bátinn. Fleygði ég mér síðan í sjóinn og var dreginn upp í bátinn og gekk það allt slysalaust.

Mátti þetta varla seinna vera því nú tók að hvessa af norðaustri og var komin bleytuhríð með dimmviðri. Var nú tekin stefna á skipið, eftir áttavita, því til þess sást ekki. Allt í einu sáum við skipið og var þá búið að leysa það og ætlaði stýrimaður að halda til lands að segja tíðindin, því hann hugði okkur alla dauða, þar eð átta klukkustundir voru liðnar frá því við fórum frá skipinu, og komið leiðindaveður. Ef allt hefði gengið að óskum hefðum við átt að vera þrjár til fjórar klukkustundir.

Var nú breytt um stefnu og brátt batnaði veðrið. Sigldum við fram á svonefnt Nýjagrunn og lögðumst þar við hákarl og vorum þar í viku, en fengum lítið. Á leiðinni heim fórum við fram hjá Kolbeinsey og skruppum í eyjuna en þar voru þá engin egg að sjá og mun sjórinn hafa sópað þeim öllum burt frá því að við vorum þar síðast.

Í þessari ferð fengum við 58 tunnur lifrar og lögðum upp á Siglufirði, en annars var venja að leggja upp á Akureyri.

[Myndin af Guðmundi einum og sér er úr greininni í Víkingi, 1. september 1941, bls. 10, en hin úr bók Ingólfs Kristjánssonar: Ómar frá tónskálds ævi, milli bls. 192 og 193.]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is