Ungur fálki í heimsókn


Ungur fálki sat í dag hinn rólegasti á einum ljósastauranna sem eru meðfram Langeyrarveginum og hreyfði sig ekki þótt fólk gengi framhjá. Þarna var hann lungann úr deginum, skimandi eftir bráð. Hann lét sig hverfa um fimmleytið. Skemmst er að minnast annars á sama stað í lok janúar í fyrra og eins til í lok janúar 2016.

Þessi kraftmikli og ófélagslyndi fugl er hánorrænn. Á Íslandi verpir hann um allt land, er hvergi algengur en einna mest af honum norðanmegin – í Dalasýslu, á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslum, Skagafirði, Eyjafirði og Múlasýslum, að ógleymdum Þingeyjarsýslum. Erlendis verpir hann á Grænlandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Rússlandi, Kanada og Alaska; heildarfjöldinn er talinn vera 7,880-10,990 pör, þ.e.a.s. 1–1,5 á 1,000 ferkílómetra svæði. Hér á landi er þéttleikinn sennilega langmestur í heiminum.

Þegar ungarnir eru orðnir færir um að bjarga sér, um mánuði eftir að þeir eru orðnir fleygir, yfirgefa þeir varpstöðvarnar og leggjast í flakk. Þá er gjarnan leitað til strandar. Fyrsti veturinn er þeim býsna erfiður og afföll geta orðið mikil. Eftir það aukast lífslíkurnar.

Ungfuglarnir eru dekkri á lit en hinir fullorðnu og með bláleitar klær og nef. Tveggja ára gamlir eru þeir orðnir kynþroska, að talið er, og hafa klæðst endanlegum búningi. Nefrót og fætur eru þá orðin gul.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is