Ungur fálki í Engidal


Ungur fálki sat á minnisvarðanum í Engidal um miðjan dag í gær og hvíldi sig. Eða kannski var hann að svipast um eftir bráð. Eftir u.þ.b. hálftíma setu þar tók hann flugið og hélt vestur eftir. Ekki er algengt að sjá þessa tegund hér í nágrenninu, þótt einstaka fugl heimsæki annað slagið byggðarlagið.

Þessi kraftmikli og ófélagslyndi fugl er hánorrænn. Á Íslandi verpir hann um allt land, er hvergi algengur en einna mest af honum norðanmegin – í Dalasýslu, á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslum, Skagafirði, Eyjafirði og Múlasýslum, að ógleymdum Þingeyjarsýslum. Erlendis verpir hann á Grænlandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Rússlandi, Kanada og Alaska; heildarfjöldinn er talinn vera 7,880-10,990 pör, þ.e.a.s. 1?1,5 á 1,000 ferkílómetra svæði. Hér á landi er þéttleikinn sennilega langmestur í heiminum, þrátt fyrir áðurnefnt, u.þ.b. eitt par á 150?300 ferkílómetrum.

Kjörlendið er freðmýrar, heiðar og fjalllendi.

Þegar ungarnir eru orðnir færir um að bjarga sér, um mánuði eftir að þeir eru orðnir fleygir, yfirgefa þeir varpstöðvarnar og leggjast í flakk. Gjarnan er þá leitað til strandar. Fyrsti veturinn er þeim býsna erfiður og afföll geta orðið mikil. Eftir það aukast lífslíkurnar. Ungfuglarnir eru dekkri á lit en hinir fullorðnu og með bláleitar klær og nef. Tveggja ára gamlir eru þeir orðnir kynþroska, að talið er, og hafa klæðst endanlegum búningi. Nefrót og fætur eru þá orðin gul.

Kjörfæðan á Íslandi er rjúpa; á vorin einkum karrar (sem eru hvítir og mjög áberandi þá), á haustin nýfleygir ungar. Hafa menn þóst sjá tengsl á milli stofnstærðar rjúpunnar annarsvegar og afkomu fálkans hinsvegar, en eins og kunnugt er verða ákveðnar sveiflur í rjúpnastofninum er ná hámarki á tíu ára fresti að jafnaði. Einnig veiðir fálkinn mikið endur, sjófugla og mófugla og veltur það fremur á staðháttum en öðru hvert fæðuvalið í raun er. Þannig að fálkar sem verpa inn til landsins gætu byggt afkomu sína nær eingöngu á rjúpu en þeir sem verpa nær auðugum votlendissvæðum, eins og t.d. Mývatni eða Laxá, eða þá við sjó, á fuglum sem þar eru. 

Íslenski fálkinn er trúlega staðfugl en flækingar sem hafa sést á Bretlandi og Írlandi og jafnvel allt suður til Portúgals, Spánar og Norður-Ítalíu að líkindum komnir frá Grænlandi um Ísland eða frá Kanada, enda flestir af hvíta litarafbrigðinu. Og þótt einhverjir séu líka gráir í þeim hópi er ómögulegt að segja til um upprunann því íslenskir og grænlenskir eru í þeim litarbúningi nákvæmlega eins. A.m.k. er víst að enginn fálki, merktur á Íslandi, hefur endurheimst erlendis.

Íslensk þjóðtrú hefur ýmislegt af fálkanum að segja. Óðinn flaug um í valsham og sama gerði Loki, og það oft. Eins notuðu galdramenn fyrri alda hann eitthvað í töfur sín. Jón Guðmundsson hinn lærði (1574-1658) nefnir bara það eitt (í ritinu Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur) að fuglinn sé óætur. En Jón Árnason þjóðsagnasafnari (1819-1888) getur þess að fálkinn sé í raun og veru bróðir rjúpunnar en ásæki hana samt og drepi sér til matar af því að hann muni ekki hið rétta fyrr en inn að hjartanu komi; þá líka væli hann ámátlega. Og Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1856-1918) kannast við það að ef ófrísk kona borðaði valsleginn fugl (þ.e.s. drepinn af fálka) þótti einsýnt að barnið fæddist með valbrá.

Og hann var líka stundum veðurviti, a.m.k. í Árnessýslu. Ef valur settist þar á sátu, þótti það öruggt þerrimerki. Það gerðist þó sjaldan.

Í erlendri þjóðtrú ber fuglinn yfirleitt með sér jákvæðar bylgjur.

Varla þarf að taka fram, að á Íslandi er hann alfriðaður.

Óneitanlega glæsilegur fugl, þótt ekki sé hann enn kominn í fullorðinsbúning.

Myndin var tekin kl. 14.47 í gær.

Þessi ungi fálki var á Togarabryggjunni 10. apríl 2007, að éta stokkandarstegg.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is