Unglingastarfið í miklum blóma


Í Fjallabyggð hafa orðið miklar breytingar á fræðslu-, íþrótta- og tómstundamálum eftir opnun Héðinsfjarðarganganna 2. október árið 2010, en sem kunnugt er varð það sveitarfélag til 11. júní 2006 við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar. Grunn,- leik- og tónskólar voru sameinaðir, sem og nokkur íþróttafélög, og einnig var opnaður nýr menntaskóli á Ólafsfirði haustið 2010, MTR, sem hefur getið sér afar gott orð, var t.a.m. valinn Stofnun ársins 2016 af SFR – stéttarfélagi í almanna-þjónustu. Og í lok ágústmánaðar varð til enn einn tónskólinn, þegar Tónskóli Fjallabyggðar sameinaðist þeim á Dalvík svo að úr varð Tónlistarskólinn á Tröllaskaga, TAT, með starfsstöðvar á öllum þremur stöðunum. Þrátt fyrir allar breytingarnar og raskið blómstra staðirnir og unga fólkið sýnir því meiri áhuga en áður að búa í heimabyggð, eins og fram kom í skýrslu Ástu Júlíu Aðalsteinsdóttur í fyrra, sem bar yfirskriftina Ungt fólk í Fjallabyggð og var hluti af stærrra verkefni, sem nefndist Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga. Sú rannsókn hófst árið 2008 og var henni ætlað að meta jákvæð og neikvæð áhrif Héðinsfjarðarganganna á Mið-Norðurlandi. Unglingar í Fjallabyggð eru þar sagðir mun líklegir til að vilja búa áfram í heimabyggð sinni en jafnaldrar þeirra í öðrum byggðarkjörnum af svipaðri stærð.

Smástrákar af báðum kynjum

Eitt af því sem stendur 13-17 ára unglingum í Fjallabyggð til boða, fyrir utan hefðbundnar íþróttaæfingar og tómstundir, sem mikill fjöldi sækir, er það sem Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði hefur verið með um árabil en hefur aldrei verið vinsælla en einmitt núna.

„Já, við erum með 23 krakka í unglingadeildinni Smástrákum, reyndar af báðum kynjum þrátt fyrir nafnið, og bæði úr Ólafsfirði og Siglufirði, því Björgunarsveitin Tindar í Ólafsfirði er ekki með unglingastarf, einungis Björgunarsveitin Strákar, og þess vegna buðum við austurbæingum að vera með okkur, enda er þetta eitt sveitarfélag og bara eðlilegt og sjálfsagt að leyfa öllum á þeirra reki sem vilja að koma hingað til að ná sér í fræðslu og reynslu,“ segir Magnús Magnússon, sem er einn þeirra sem veitir starfinu forstöðu. Hin eru Gunnar Örn Óskarsson, Hilmar Símonarson, Ragnar Már Hansson, Unnur María Unnarsdóttir og Sara Þorsteinsdóttir.

„Við hittumst einu sinni í viku, nánar tiltekið á þriðjudagskvöldum, og þá eru kennd grunnatriði í fyrstu hjálp, leitartækni, fjallamennsku, hnútum og ýmsu öðru, þ.e.a.s. grunnatriðunum í að verða björgunarmaður.“

Að sögn Magnúsar er verið að frá september og fram í miðjan júní, og skotist í óvissuferð á einhverjum af seinustu fundunum á vorin, þar sem gjarnan er reynt að brjóta þetta eitthvað upp, gera eitthvað öðruvísi.

„Við fórum fórum t.d. í rafting og paintball síðast, borðuðum eitthvað gott og tókum svo keilu og bíóferð í lokin á Akureyri. Þátttökugjöld eru engin, það eina sem þarf að borga er í óvissuferðina og svo 2.500 krónur í hettupeysu merkta Smástrákum, en það er vara sem kostar töluvert meira ella,“ segir hann.

Strákar líka í örum vexti

Magnús hefur verið umsjónarmaður í átta ár og ýmsir komið til aðstoðar með honum. „Ég byrjaði með sex unglinga en fyrir 4-5 árum varð sprenging í þátttökunni, eftir að starfið varð þéttara og við sýnilegri. Við erum ekki að fá mikið til okkar krakka sem eru í knattspyrnu, enda svo mikið um æfingar þar, að svona myndi einfaldlega rekast á eða yrði hreinlega of mikil fyrir þá krakka, heldur eru þetta unglingar sem eru lítið eða ekki í öðru íþrótta- og tómstundastarfi, nema þá badminton, sem er afar vinsælt hér í Siglufirði og búið að vera áratugum saman. Þannig að þetta er svona viðbót við þetta öfluga félagsstarf sem er hérna í sveitarfélaginu, beggja vegna. Það hefur líka verið að fjölga í Strákum, það hefur verið að koma fólk inn og prufa, bæði kyn, sem er mjög jákvætt, svo að við horfum björtum augum til framtíðarinnar hvað þetta og annað varðar.“

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá unglingana sem mættir voru þriðjudagskvöldið 25. október síðastliðinn, tilbúnir í að nema eitthvað gagnlegt í björgunarfræðunum í Þormóðsbúð. Gestur Hansson, fjallagarpur og snjóaeftirlitsmaður Veðurstofu Íslands á Siglufirði var þá með fræðslu um ýmsar gerðir af hnútum.

Í alvörusveitina, Stráka, komast unglingarnir við 18 ára aldurinn. Þar eru um 20 starfandi núna. Formaður er Jón Hrólfur Baldursson.

„Björgunarsveitin Strákar er líka einu sinni í viku með starf, vinnukvöld, á fimmtudögum, og svo erum við með ýmsa smærri hópa, t.a.m. bílahóp, sleðahóp, fjallahóp, bátahóp og fleiri og það er æft þegar mönnum hentar, þ.e.a.s. þegar flestir geta mætt.“

Stefnir í metumferð um Héðinsfjarðargöngin

Í ágústmánuði síðastliðnum jókst umferð um Héðinsfjarðargöng um 4% miðað við sama mánuð í fyrra. Hefur umferðin því aukist um tæp 12% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Stefnir í metumferð um Héðinsfjarðargöngin nú í ár og að heildarökutækjafjöldi verði 250–260 þúsund. Meðalumferð á dag stefnir því í um 710 ökutæki á sólarhring. Þegar ráðist var í gerð Héðinsfjarðargangna áætlaði Vegagerðin að 350 bílar myndu fara um þau á dag.

Við þetta er að bæta, að árlega hefur ritið Vísbending metið fjárhagslegan styrk íslenskra sveitarfélaga og tekið heildarniðurstöðurnar saman. Úttektin byggir á ársreikningum þeirra og er farið rækilega yfir skuldir, tekjur, íbúafjölda, eignir og grunn-rekstur, bæði A-hluta og B-hluta í efnahagsreikningi þeirra. Sveitarfélögunum eru gefnar einkunnir eftir nokkrum þáttum eða forsendum sem leiða til þess að það sveitarfélag sem skorar hæst fær útnefninguna Draumasveitarfélagið.

Fjallabyggð lenti þetta árið í 3. sæti með einkunnina 7.5, en var í fyrra í 6. sæti með 7.1 stig.

„Niðurstaðan verður að teljast afar ánægjuleg og sýnir að rekstur Fjallabyggðar er mjög traustur“, segir í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae[email protected]
Fylgjur: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]