Um samning og skemmtiferðaskip


„Endurnýjaður rekstrarsamningur milli Síldarminjasafnsins og Fjallabyggðar var undirritaður 27. febrúar. Þar er kveðið á um 5,5 milljóna króna framlag til safnsins á ári. Rétt er að upplýsa þá sem ekki þekkja til að hér er um nokkurs konar þjónustusamning að ræða því á móti kemur ákveðin þjónusta af hálfu safnsins. Íbúar sveitarfélagsins fá frían aðgang að safninu og kveðið er á um samstarf við Grunnskólann. Þá er ekki það sísta ákvæðið um kynningu á ferðaþjónustu í Fjallabyggð. Þar hefur starfsmaður safnsins unnið mjög skipulega á síðustu fjórum árum að því að laða að skemmtiferðaskip og er árangurinn mjög skýr: Sumarið 2013 voru þrjár skipakomur, 2014 voru þær sex og fyrir sumarið 2015 eru sextán komur skemmtiferðaskipa bókaðar. Þessar heimsóknir færa samfélaginu verulegar tekjur og má ætla að einungis tekjur Hafnarsjóðs nemi allt að 8 milljónum króna á þessu ári.“ Þetta segir í nýrri frétt á heimasíðu Síldarminjasafnins.

Og ennfremur:

„Það var að frumkvæði Síldarminjasafnsins að þessi kynning hófst í samstarfi við sveitarfélagið (enda safnið helsta aðdráttaraflið) og hefur Anita Elefsen rekstrarstjóri safnsins sótt ráðstefnur innanlands sem utan og komið á dýrmætum kynnum við starfsmenn íslenskra hafna sem og umboðsmenn skipafélaga. Þess má geta að samtímis því að íslenskar hafnir keppa sín á milli um að laða að sér viðskipti við skemmtiferðaskip þá eiga þær með sér mikið samstarf um þessa grein ferðaþjónustunnar.

Það er óskandi að öllum megi vera ljóst að umræddur samningur ætti að vera báðum aðilum mikils virði.“

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Örlygur Kristfinnsson | orlygur@sild.is / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is