Tveir Gústar


Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari, sem gerði styttuna af Gústa guðsmanni á Ráðhústorginu á Siglufirði, fékk í vikunni afhent eintak af bók Sigurðar Ægissonar um Gústa. Áður en styttan var mótuð í fullri stærð gerði Ragnhildur litla styttu sem stillt var upp, ásamt bókinni, á heimili Ragnhildar í Skerjafirði, eins og sést á meðfylgjandi ljósmyndum.

Það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur út bókina um Gústa, en hann hét fullu nafni Guðmundur Ágúst Gíslason, var fæddur í Dýrafirði í ágústmánuði 1897 og lést á Siglufirði vorið 1985, 87 ára að aldri. Gústi var fiskimaður og studdi útbreiðslu kristinnar trúar í fjarlægum löndum, auk þess sem hann las guðsorð fyrir gangandi vegfarendur á Siglufirði.

Bókinni um Gústa guðsmann hefur verið mjög vel tekið. Í umsögn Péturs Péturssonar prófessors sagði að bók Sigurðar væri „einstök heimild um sérstakan mann sem var engum öðrum líkur“.

Rætt var við höfund bókarinnar á Morgunvakt Rásar 1. Slóðin er hér (hefst 1:17:37).

Myndir og texti: Jónas Ragnarsson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]