Tvær síungar


Elín Jónasdóttir er 103 ára í dag, 16. maí 2011. Hún er fædd á Efri-Kvíhólma undir Eyjafjöllum. Elín átti sjö systkini, Bergrós systir hennar býr í Vík í Mýrdal og er orðin 98 ára en hin systkinin urðu 81 árs til 96 ára. Móðir þeirra varð 98 ára.

?Ég kom í Siglufjörð 1939 og hef verið hér síðan, gerðist húsmóðir en starfaði líka við síldarsöltun á sumrin, þegar það var í boði,? sagði Elín í viðtali, sem birt var í Morgunblaðinu á aldarafmælinu og einnig er að finna hér.

Maður Elínar var Óskar Sveinsson sjómaður, fæddur 1903, dáinn 1983. Börn þeirra eru þrjú, Haukur fæddur 1941, Guðlaug 1942 og Guðfinna 1946.

Nú eru á lífi rúmlega fjörutíu Íslendingar sem eru hundrað ára og eldri. Elín er í níunda sæti yfir þá elstu. Enginn íbúi Siglufjarðar hefur náð jafn háum aldri og Elín. Halldóra Björnsdóttir í Bakka varð 101 árs en Einar Ásmundsson, Guðmundur Guðmundsson og Vilborg Þorleifsdóttir urðu 100 ára.

Þessi mynd var tekin á sjúkrahúsinu í dag. Eins og sést lítur Elín vel út.

Hún segir að heilsan sé ágæt og kveðst hafa það gott þarna.

Næstelsti íbúi Siglufjarðar er Nanna Franklínsdóttir, sem varð 95 ára 12. maí. Hún er frá Litla-Fjarðarhorni í Strandasýslu. Hún á systur á lífi sem orðin er 100 ára og aðra sem er 96 ára. En Nanna og elsti núlifandi Íslendingurinn, Torfhildur Torfadóttir á Ísafirði, sem er 106 ára, eru fjórmenningar.

Í tilefni dagsins gáfu frændur hennar – þeir Sigurmar Kristján, Guðmundur Jón og Óskar Helgi, synir Alberts Sigurðssonar (fæddur 1918, dáinn 2007) og Guðborgar Franklínsdóttur – henni forláta leðurjakka, allan merktan í bak og fyrir, en Nanna hefur sem kunnugt er í nokkur ár ekið um götur bæjarins á vélhjóli, sem gárungarnir hafa kallað ellinöðru, og kunni hún vel að meta þessa hlífðarflík.

Nanna komin í leðurdressið.

Það er merkt í bak …

og fyrir.

Komin af stað á tryllitækinu.

Svo var bara hlegið að öllu saman.

Ljósmyndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Tafla: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is og Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is