Turnfálki í hrakningum millilendir í Sigurbjörgu ÓF-1


Blautur og þreyttur turnfálki gerði sig heimakominn í Sigurbjörgu ÓF-1 fyrir tæpum hálfum mánuði, þar sem skipið var á grálúðuveiðum á Langanesgrunni. „Það var skítaveður og bara fyrir rælni var ég uppi á dekki og sé hann koma fljúgandi og klessukeyra á handriðið uppi í brú; ég fer þangað upp, geng að honum og tek hann,“ segir Sigurbergur Sveinn Sveinsson, sem varð hans fyrst allra um borð var og náði að bjarga honum í skjól og þerra. Fuglinn tók hraustlega til matar síns alveg frá upphafi. „Hann var farinn að éta þremur tímum eftir að hann náðist og er enn á því rólinu, heimtar sinn mat á þriggja tíma fresti. Hann er búinn að klára heilan lambahrygg á 11-12 dögum,“ bætir Sigurbergur við.

Turnfálkanum var reglulega leyft að fljúga um í netageymslu skipsins, eftir að hann tók að hressast.

„Ég er allur sundurbitinn og klóraður, alveg upp að olnboga, því ég var berhentur að glíma við hann til að byrja með. Eftir átta daga fór ég loks til vélstjórans og bað hann um leðurvettlinga, þá var þetta eiginlega orðið fullmikið,“ segir Sigurbergur, sem hefur engu að síður tekið miklu ástfóstri við fuglinn eftir þessa löngu samveru á hafi úti, enda er þessi óvænti gestur bersýnilega mikill karakter.

Turnfálki er varpfugl í Evrópu, Asíu og Afríku. Í Evrópu er hann einn algengasti og útbreiddasti ránfuglinn og verpir allt norður á 70. breiddargráðu. Kjörlendi hans er mjög fjölbreytilegt – lyngheiðar, sjávarstrendur, gisið skóglendi, ræktað land og í einhverjum tilvika borgir – en þó ekki túndrur og barrskógar. Hann lifir aðallega á nagdýrum, mest stúfmúsum, en einnig þó smáfuglum og skordýrum. Turnfálki er farfugl í Norður- og Austur-Evrópu en annars staðar í álfunni er hann að hluta til staðfugl. Vetrarheimkynnin ná allt suður til Afríku. Líklegt er talið að flestir turnfálkar sem koma hingað til Íslands séu upprunnir í norðvestanverðri Evrópu.

Turnfálkinn, sem slóst í för með skipverjum á Sigurbjörgu ÓF-1 og tók land í Siglufirði í gærmorgun, mun vera fullorðinn kvenfugl. Hann verður merktur og í kjölfarið sleppt lausum.

Sigurbjörg ÓF-1 við Hafnarbryggjuna í Siglufirði.

Sigurbjörg ÓF-1 við Hafnarbryggjuna í Siglufirði.

Turnfálkinn í nærmynd.

 

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is