Trefillinn langi


Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag er enn verið að safna í trefilinn
langa, enda rúmur mánuður þar til Héðinsfjarðargöngin verða
formlega opnuð.

Fréttin var annars svofelld:

Stefnt er að því að vígja ný göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar innan tíðar og í tilefni þess er nú unnið að því að prjóna 17 kílómetra langan trefil sem á jafnframt að innsigla sameiningu sveitarfélaganna á hlýlegan hátt.

Fríða Björk Gylfadóttir er forsprakkinn í prjónaskapnum en um 500 manns eru nú komnir á lista og býst Fríða við að enn fleiri sláist í hópinn. ?Það er alltaf að aukast og ég á von á miklu fleira fólki á lista,? segir hún. ?Við erum komin með 7,4 kílómetra og það eru bæði konur og karlar að prjóna. Sá yngsti er 10 ára gamall, Haukur Orri Kristjánsson, og sú elsta er hin 94 ára gamla Nanna Franklínsdóttir.?

Þegar verkinu er lokið og búið að vígja göngin er ætlunin að búta trefilinn niður í hæfilegar lengdir og selja til styrktar góðgerðarmálum. Hann á því framhaldslíf.

Aðspurð hvar garnið er fengið segir Fríða að Ístex hafi veitt góðan afslátt en einnig hafa margir prjónað búta úr afgöngum. ?Ég hef líka fengið peningastyrki héðan og þaðan.? Sendingar af garni hafa borist víðsvegar að af landinu en einnig að utan, frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bandaríkjunum, Eistlandi og Þýskalandi, svo eitthvað sé nefnt. Fyrir prjónaáhugafólk heldur Fríða úti síðunni www.frida.is með frekari upplýsingum.

Þau sem tök hafa á, en hafa ekki til þessa lagt í púkkið, eru eindregið hvött til að taka fram prjónana.

Það er núna eða aldrei.

Siglfirðingur.is rak inn nefið á vinnustofu Fríðu í gær og tók nokkrar myndir af glaðri prjónasamkomu. Þær koma hér.

Eins og sjá má var ekki leiðinlegt þarna.

Haukur Orri Kristjánsson, 10 ára gamall, fór létt með þetta.

Og þessar reyndar líka, enda aðeins eldri og þaulvanar.

Annað sjónarhorn á hópinn.

Í þessum kassa eru 1000 metrar, takk.

Trefillinn sem Fríða Björk Gylfadóttir er með um hálsinn kom frá Eistlandi,

en sá guli frá skrifstofu Vegamálastjóra, og í honum er merki Vegagerðarinnar.

Myndir og texti (nema Morgunblaðsfréttin): Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is