Tombóla fyrir barnastarfið

Systurnar Guðbjörg Marý, sem er að verða 8 ára, og Valgerður Ása, sem er að verða 10 ára, bönkuðu upp á hjá presti á Hvanneyrarhólnum um áttaleytið í kvöld og færðu honum rúmar 5.000 krónur, sem renna skyldu til barnastarfs Siglufjarðarkirkju. Var þarna um að ræða afrakstur þriggja daga tombólusöfnunar þeirra framan við Kjörbúðina. Þær búa ásamt foreldrum sínum, Eyjólfi Hannessyni og Guðrúnu Ósk Guðjónsdóttur, á Selfossi, en eru í heimsókn þessa dagana hjá afa og ömmu, Guðjóni Jóhannssyni og Valgerði Halldórsdóttur.

Prestur þakkaði systrunum að sjálfsögðu með handabandi fyrir hina stóru og dýrmætu gjöf.

Þær eru líka að safna í heimabæ sínum, eru komnar með yfir 10.000 krónur þar og hvergi nærri hættar, og hyggjast láta það sömuleiðis renna til einhvers góðs málefnis.

Flott hjá þeim.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson │ sae@sae.is.