Tjaldurinn orpinn


Tjaldurinn er farinn að verpa. Undirritaður fann egg í hreiðurbolla í
dag á ónefndum stað í firðinum. Annað kemur væntanlega á morgun og hið
þriðja á miðvikudag. Og flórgoðinn er kominn, að vísu bara einn fugl. Og
ýmsar andategundir, s.s. rauðhöfðaönd, skúfönd og urtönd.

Tjaldurinn er 40-46 cm að lengd, um 570 g að þyngd að meðaltali (400-745 g; kvenfuglar ívið þyngri en karlfuglar; upplýsingar um nánari skiptingu milli kynja ekki fyrir hendi) og með 80-86 cm vænghaf.

Í varpbúningi er hann svartur að ofan og niður að bringu en hvítur undir. Fætur eru rauðbleikir og gildvaxnir og nefið rauðgult og langt, hliðflatt og lítið eitt uppsveigt. Gumpur er hvítur. Lithimna augna rauð.

Vetrarbúningur er eins ef frá er talinn hvítur kragi á framhálsi. Kynin eru mjög áþekk í útliti.   

Um þrjár deilitegundir er að ræða og er þar m.a. farið eftir stærð nefs og vængja og mismun í litarhætti. Nafntegundin, H. o. ostralegus, verpir í Evrópu, þ.m.t. á Íslandi og alla leið yfir í Rússland vestanvert, H. o. longipes í Austur- og Suður-Rússlandi og inn í Vestur-Síberíu og H. o. osculans í Austur-Asíu. Áður voru íslenskir tjaldar flokkaðir sér, undir latínuheitinu H. o. malacophaga, og breskir sem H. o. occidentalis.

Íslenski tjaldurinn er að mestu leyti farfugl sem kemur hingað til lands gjarnan í mars og byrjun apríl. Á vorin og sumrin er hann einkennisfugl mikils hluta af ströndum Íslands en er einnig að finna inn til landsins, eins og undir Eyjafjöllum, í Fljótshlíð og víðar.

Varptíminn hefst seint í apríl eða í maíbyrjun og er hreiðrið ekki nema örlítil dæld sem fuglarnir búa til með því að nudda kviðnum við sand eða möl eða annan hentugan jarðveg. Oft er um nokkrar hreiðurskálar að ræða en kvenfuglinn svo látinn um að velja þá bestu; hún er síðan fóðruð með nokkrum skeljabrotum eða völum.

Erfitt er að segja til um hversu þétt tjaldurinn verpir hér á landi enda hefur það aldrei verið rannsakað til hlítar. En þess finnast dæmi að á um 30 km strandlengju á Vesturlandi (frá Akraósi, syðst í Hnappadalssýslu, að ósum Straumfjarðarár) hafi pör átt hreiður með á.a.g. 50-100 m bili. Þess ber þó að gæta að tjaldurinn er mun algengari á Suður- og Vesturlandi en annarsstaðar þannig að hér er trúlega um mesta þéttleika að ræða á öllu landinu. Norðanlands og fyrir austan er hann aftur á móti tiltölulega nýsestur að. Sumarið 1984 fundust á 26 km strandlengju (frá ósi Laxár í Aðaldal að Stórhöfða á Tjörnesi) alls 20 hreiður og að auki eitt tjaldspar, nær örugglega með egg. Stór hluti þessarar strandar, eða á.a.g. 5 km, eru klettar fram í sjó og því ekki kjörlendi tjalda. Því má gera ráð fyrir að þarna hafi verið allt að einu pari á km.

Við sjávarstrendur er varpkjörlendið rétt fyrir ofan stórstraumsflóðmörk, einkum það sem er að finna skeljasand, fíngerða möl og þaraleifar. Ef strendur eru grýttar, og þessi skilyrði ekki fyrir hendi, velur tjaldurinn hreiðrinu stað á melum og snögglendum bölum. 

Eggin eru oftast þrjú en geta þó verið 1-4 og jafnvel fimm, sem þó mun heyra til undantekninga. Þau eru grá eða ljósbrún, alsett svörtum dröfnum. Þeim er orpið með um sólarhrings millibili. Álega hefst um leið og öll eggin eru komin og sjá báðir fuglar um þá hlið mála, kvenfuglinn þó drjúgum meira. Útungunartíminn er 21-27 dagar. Ungarnir, sem eru hreiðurfælnir, verða svo fleygir 28-35 dögum eftir ábrot og sjálfstæðir litlu þar á eftir. Sá þáttur getur reyndar dregist uns þeir eru orðnir 26 vikna gamlir. Kynþroska er náð 3-5 ára.

Ólíkt því sem gerist hjá flestum öðrum tegundum vaðfugla eru nýfæddir ungarnir mataðir af foreldrunum í 7-10 daga. Er talið að sérstæð fæða tjaldsins ráði hér mestu um. Við sjávarsíðuna lifir hann mikið á sandmaðki og öðrum burstaormum, krabbadýrum og ýmsum skeldýrum, einkum þó kræklingi og hjartarskel. Inn til landsins eru hinsvegar ánamaðkar og skordýr þýðingarmesta fæðan. Tjaldurinn er m.a. fær um að opna skeljar, eins og t.d. krækling, með voldugu nefinu. Baráttan við þær getur samt orðið honum að fjörtjóni því ef hann ekki nær að höggva á réttan stað og veikja samdráttarvöðva þeirra á hann það á hættu að festa eða klemma nefið á milli helminganna og annaðhvort drukkna þegar flæðir að, þ.e.a.s. ef skeljarnar eru á annað borð fastar við undirlagið, eða svelta til bana.

Flugið er þróttmikið en vængjaslögin yfirleitt grunn. Í tilhugalífinu á fuglinn það til að sýna fluglistir með hægum, djúpum vængjatökum.

Bróðurpartur íslenska stofnsins
yfirgefur landið á veturna og dvelur einkum á Bretlandseyjum (Englandi)
og Norðvestur-Írlandi. Töluverður hópur ílendist þó hérlendis, einkum
varpfuglar, og þá helst vestan-, sunnan- og suðvestanlands.

Tjaldurinn er ekki félagslyndur á
varptíma en um leið og eggtíð sleppir kveður við annan tón. Vetrarstofn
tjalda í Evrópu, sem þá eru komnir víða að og jafnvel alla leið frá
Rússlandi, er í venjulegu árferði talinn hafa að geyma yfir 700.000
fugla. Af þeim munu vera í Hollandi um 280.000 fuglar, á Bretlandseyjum
um 250.000, í Vestur-Þýskalandi 45.000-145.000, á Írlandi 30.000-35.000
og í Frakklandi um 30.000. Á Atlantshafsströnd Norður-Afríku er talið að
gisti eitthvað á bilinu 3.000-10.000 tjaldar og við Miðjarðarhafið
600-1.100 (flestir í Túnis).

Tjaldurinn hefur að líkindum í upphafi
aðeins verið strandfugl en á þessari öld tekið upp á því, einkum í
Evrópu, að færa varpsvæði sín inn í löndin, eins og t.d. í Hollandi,
Norður-Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð og hér. Kýs hann þá að verpa á
árbökkum og eyrum. Innanlandsbyggð tjalds í Mið-Asíu er hinsvegar miklu
eldri og af öðrum rótum sprottin eða leifar frá þeim tíma er sjórinn
teygðist þangað inn. Á síðustu 35 árum hefur fuglinn svo tekið upp á því
að verpa í borgum. Velur hann sér þá oft hreiðurstað á flötum þökum
húsa. Dæmi um slíkt eru þekkt m.a. frá Skotlandi, Hollandi, Svíþjóð og
Reykjavík.

Íslenski stofninn er í dag talinn hafa að geyma 10.000-20.000 varppör.

Tjaldurinn getur orðið langlífur.
Nokkrar staðfestar heimildir eru um fugla sem urðu yfir 30 ára úti í
náttúrunni. En eftir því sem best er vitað á heimsmetið tjaldur sem
merktur var dúnungi í Vestur-Þýskalandi í júní árið 1927 og náðist aftur
lifandi í varpi árið 1963, þ.e.a.s. 36 árum síðar. 

Tjaldseggið sem undirritaður fann í dag.

Annar fuglanna var þar skammt undan og fylgdist vel með hinum óboðna gesti.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is