Tjaldurinn er kominn


Tjaldurinn er kominn og vorið þá á næsta leiti. Tveir sáust fyrir nokkrum dögum rétt hjá Bás á Leirutanga og í dag voru þrír mættir á uppfyllinguna austur af Roaldsbrakka.

Íslenski tjaldurinn er að mestu leyti farfugl sem kemur hingað til lands gjarnan í mars og byrjun apríl. Á vorin og sumrin er hann einkennisfugl mikils hluta af ströndum Íslands en er einnig að finna inn til landsins, eins og undir Eyjafjöllum, í Fljótshlíð og víðar.
Varptíminn hefst seint í apríl eða í maíbyrjun.

Erfitt er að segja til um hversu þétt tjaldurinn verpir hér á landi enda hefur það aldrei verið rannsakað til hlítar. En þess finnast dæmi að á um 30 km strandlengju á Vesturlandi (frá Akraósi, syðst í Hnappadalssýslu, að ósum Straumfjarðarár) hafi pör átt hreiður með á.a.g. 50-100 m bili. Þess ber þó að gæta að tjaldurinn er mun algengari á Suður- og Vesturlandi en annarsstaðar þannig að hér er trúlega um mesta þéttleika að ræða á öllu landinu. Norðanlands og fyrir austan er hann aftur á móti tiltölulega nýsestur að. Sumarið 1984 fundust á 26 km strandlengju (frá ósi Laxár í Aðaldal að Stórhöfða á Tjörnesi) alls 20 hreiður og að auki eitt tjaldspar, nær örugglega með egg. Stór hluti þessarar strandar, eða á.a.g. 5 km, eru klettar fram í sjó og því ekki kjörlendi tjalda. Því má gera ráð fyrir að þarna hafi verið allt að einu pari á km.

Á veturna er einkum dvalið á Bretlandseyjum (Englandi) og Norðvestur-Írlandi. Töluverður hópur ílendist þó hérlendis, einkum varpfuglar, og þá helst vestan-, sunnan- og suðvestanlands.

Ljósmyndin hér fyrir ofan var tekin í dag.

Mynd: Mikael Sigurðsson.
Texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]