Tjaldur bjargar branduglu – og krakkarnir kættust!


Laugardaginn 30. október var Tjaldur SH 270 að veiðum á Strandagrunni, djúpt út af Húnaflóa. Urðu skipverjar þá varir við uglu sem sest hafði á skipið. Þegar leið á daginn var nokkuð af henni dregið og hún handsömuð og sett í pappakassa. Því næst var henni færður nýveiddur múkki og varð þá mikill handagangur í öskjunni. Kristjón Guðmundsson stýrimaður annaðist fuglinn og þekkti hann að þetta var brandugla. Lét hann Nátturufræðistofnun í Reykjavík vita af fengnum og þegar Tjaldur lagðist að bryggju á Siglufirði á mánudagsmorgni var þar mættur útsendari stofnunarinnar með gamla vírkörfu af Síldarminjasafninu – og uglan þá komin í sitt eigið gegnsæja búr.

Þessu næst fór hún í bíltúr út í grunnskóla þar sem allir, starfsfólkið og nemendur, litlir og stórir, sýndu henni mikinn áhuga, hlustuðu á svolitla uglufræðslu og tóku fjölda mynda.

Loks var henni sleppt og gefið frelsi í kjarrlendi frammi á firði. Vonast er til að hún nýti sér vel haustmyrkrið til músaveiða og lifi af.

Branduglan í heimsókn hjá börnunum í 1. og 2. bekk.

Þetta er óneitanlega tignarlegur fugl.

Myndir: Anita Elefsen og Halla Óladóttir.
Texti: Örlygur Kristfinnsson.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is