Tími haustgestanna nálgast


Sumarfuglarnir okkar eru langflestir horfnir á braut til vetrarheimkynna sinna, en enn má þó sjá rauðhöfðaendur og einhverjar fleiri tegundir á Langeyrartjörninni, sem og álftirnar tvær. En með skammdeginu og kröppum lægðum fara senn að koma aðrir í þeirra stað. Þar á meðal eru gráþrestir, svartþrestir, ýmsir söngvarar og silkitoppur. Rétt er að fara að huga að því að setja epli eða perur upp í tré eða á einhvern áberandi stað, vilji fólk hafa slíka gesti nærri.

Einnig gætu slæðst hingað fræætur, og þar dugar ágætlega að setja hirsi eða fitukúlur á greinar, eða þá finku- eða páfagaukafræ á pall eða bretti, en það samt hátt að kettir nái ekki til.

Fjallabyggðungar eru beðnir um að láta undirritaðan vita ef eitthvað slíkt ber fyrir augu þjótandi um loftin eða nartandi í æti á komandi vikum og mánuðum.

Þessi mynd af silkitoppu fyrir utan prestsetrið Hanneyri var tekin í skammdeginu 2010.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is