Tímamót í sögu fuglamerkinga


Í fyrradag, 11. júlí, klukkan 14.00, urðu tímamót í sögu fuglamerkinga á Íslandi þegar í ljós kom að hettusöngvari (Sylvia atricapilla), lítill, evrasískur spörfugl á stærð við auðnutittling, sem hrakist hafði til Siglufjarðar með einhverri djúpu lægðinni síðasta haust, skilaði sér yfir hafið aftur nú í vor eða sumar, að Inverness í Skotlandi. Sá sem náði honum þar var heimamaður, Hugh Insley að nafni.

Fram til þess höfðu menn ekki vitneskju um að þetta væri gerlegt, áttu helst von á að þessir fuglar og aðrir af líkum toga þyrftu að ílendast hér vegna landfræðilegra aðstæðna. En nú hefur það sannast að svo er ekki.

Um er að ræða kvenfugl sem hafði komið í svokallað mistnet á Hvanneyrarhólnum 3. nóvember í fyrra, nánar tiltekið klukkan 16.42, og fékk í kjölfarið álmerki um annan fótinn og var sleppt að því búnu. Fyrir einskæra tilviljun var Kristín Sigurjónsdóttir á staðnum með myndavél sína og fangaði augnablikin, án þess að átta sig á mikilvægi þess þá, frekar en aðrir. Sást hettusöngvarinn oft í vetur og náðist að auki í merkingargildru á jörðu niðri í sama garði 29. desember, 20. janúar og 30. mars.

Meðalþyngd hettusöngvara er 16–25 grömm, en getur farið upp í 31 gramm hjá þeim sem eru að undirbúa flug á vetrarstöðvar. Hettusöngvarinn sem náðist í Skotlandi vó 18.2 grömm.

Kynin eru ólík í útliti, karlfuglinn grár á búkinn og með svarta kollhettu, en kvenfuglar og ungfuglar eru með ryðbrúna hettu.

Á vef Fuglaverndar segir að þetta sé skógarfugl, sem aðallega laðist að lauftrjám, og verpi í görðum þar sem nægur undirgróður sé til staðar. Hann sé árviss flækingur á haustin og algengastur þeirra söngvara sem komi til Íslands. Ekki sé þó um að ræða nema örfáa fugla að meðaltali ár hvert. 
Í Norðvestur Evrópu sé varptíminn frá síðla apríl til fyrrihluta júlí. Fæðan sé aðallega skordýr yfir varptímann en að vetrarlagi, ef þau er ekki að hafa úti í náttúrunni, sé fleira á matseðlinum og komi hann þá í epli, perur og aðra ávexti, sem og brauð, kjötafganga og feitmeti, í görðum velunnara smáfugla.

Á merkingarstaðnum á Siglufirði og víðar í bænum er æti sett út alla daga á veturna handa flækingsfuglum og öðrum, sem án nokkurs vafa hefur gert það að verkum að hettusöngvarinn frækni lifði af kaldasta skammdegið.

Hér fyrir neðan má sjá myndir Kristínar Sigurjónsdóttur og Hugh Insley.

Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og Hugh Insley.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is