Þvílíkur munur


?Héðinsfjarðargöngin eru strax farin að sýna fram á að samgöngubætur, ámóta þeirri stórframkvæmd sem ráðist var í með gerð ganganna, auka bjartsýni, efla dug og leggja grunn að margvíslegum nýjum tækifærum fyrir heimabyggð og nærsveitir,? segir Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands og fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði í grein í Morgunblaðinu í dag. ?Snyrtileg hús og myndarleg uppbygging ferðaþjónustufyrirtækja eru farin að setja skemmtilegan svip á bæinn,? segir hann.

Magnús var á ferð á þessum slóðum nýlega og heillaðist af náttúrufegurð Héðinsfjarðar og var hissa á því hve stutt væri orðið milli þéttbýlisstaðanna í Fjallabyggð. ?Aldrei hafa jafnfáar mínútur komið jafnmikið á óvart og þessi stutta stund sem færði okkur frá Ólafsfirði til Siglufjarðar,? segir hann. ?Þvílíkur munur.?

Grein Magnúsar er hér í heild:

?Það var notaleg sumarstemning á Ólafsfirði þegar við, félagar að sunnan, fengum óvænt heimboð frá vinafólki, þar sem kaffi og ljúffengt meðlæti var á borð borið. Ferðinni var reyndar heitið á Siglufjörð á þessum heitasta degi sumarsins. Eftir notalega stund á Ólafsfirði var ferðinni haldið áfram um Héðinsfjarðargöng og yfir til Siglufjarðar.

Það verður að segjast eins og er að aldrei hafa jafnfáar mínútur komið jafnmikið á óvart og þessi stutta stund sem færði okkur frá Ólafsfirði til Siglufjarðar. Eftir örfáar mínútur um nýgerð og glæsileg jarðgöng vorum við komnir til Héðinsfjarðar sem blasti við í allri sinni dýrð. Vatnið, fjöllin, fjölskrúðugt fuglalíf og gróðursælir balar, allt í senn, svo stórfenglegt. Stuttur stans og síðan er ekið af stað. Og göngin góðu færðu okkur áfram til Siglufjarðar á þessum fáu mínútum, þvílíkur munur. Ekki var veðrið síðra á Siglufirði, logn og blíða og kvöldsólin glitraði á fagra fjallstindana og bærinn iðaði bókstaflega af lífi. Snyrtileg hús og myndarleg uppbygging ferðaþjónustufyrirtækja eru farin að setja skemmtilegan svip á bæinn. Það var ekki laust við að maður þættist finna lyktina frá síldarbræðslunni og sæi síldarstúlkur spóka sig á bryggjunum. Þetta var þannig dagur.

En hver skyldi svo vera tilgangur með því að hripa niður þessar línur um Siglufjörð, bæinn sem við félagar höfum engin sérstök tengsl við, nema þá helst að minnast skemmtilegrar göngu um fallega skóginn í Skarðsdal og hins stórmerkilega Síldarminjasafns? Jú, það er vegna þeirrar staðreyndar að Héðinsfjarðargöngin eru strax farin að sýna fram á að samgöngubætur, ámóta þeirri stórframkvæmd sem ráðist var í með gerð ganganna, auka bjartsýni, efla dug og leggja grunn að margvíslegum nýjum tækifærum fyrir heimabyggð og nærsveitir.

Siglufjörður, líkt og margir aðrir staðir, víða um land, hefur lagt drjúgan skerf til uppbyggingar íslensku samfélagi. Áður var það síldin sem færði okkur aukna velmegun. Nú bíða íbúanna hins vegar margvísleg önnur tækifæri til uppbyggingar.

Til hamingju íbúar í Fjallabyggð, til hamingju landsmenn.?

Magnús Gunnarsson.

Siglfirskur haustdagur.Mynd af Magnúsi: Fengin af Netinu.

Mynd úr Siglufirði: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is