Þúfutittlingurinn kominn


Enn bætist í hóp sumarfuglanna okkar. Þúfutittlingur sást austan við
neðri Hólsárbrú í gær. Nokkrar andategundir eru líka komnar, og það
fyrir nokkru síðan, t.d. rauðhöfðaönd, skúfönd og urtönd, sem og
lóuþrællinn, sandlóan og spóinn. Enn vantar þó kjóa, lóuþræl og
steindepil.

Þúfutittlingurinn er um 14,5 cm að lengd, um 20 g að þyngd að meðaltali (kvenfuglar 15-22 g, karlfuglar 15-25 g; rannsókn á íslenskum fuglum sýndi að þeir voru að jafnaði 17 g (kvenfuglar) og 19 g (karlfuglar)) og með 22-25 cm vænghaf.

Hamur fuglsins er að stærstu leyti mógulur, brúngulur eða gulgrænn að lit. Á smágerðu höfðinu, baki og niður á miðjar síður og á tiltölulega breiðum vængjum, ofanverðum, bogadregnum til endanna er hann að jafnaði dekkstur. Á framhálsi, bringu og kvið er gult aftur meira ráðandi og jafnvel út í ljósgrátt. Þar ofan í koma einnig svartir, ílangir dílar, mest áberandi á kverk og frambringu. Jaðrar vængfjaðra eru ljósgulir en stélfjaðra hvítir. Lithimna augna er dökkbrún en ljósar rákir ofan við þau. Nef er mjög fíngert, ljóst við nefrót en dökknar þaðan fram. Fætur eru brúngulir og afturtáin mjög löng.

Deilitegundir eru oftast sagðar tvær. Anthus pratensis whistleri á varpheimkynni á Írlandi og vestanverðu Skotlandi en nafntegundin, A. p. pratensis, er á Suðaustur-Grænlandi, í Evrópu, að mestu leyti norðan Alpafjalla (nema í áðurnefndum löndum) og í Vestur-Síberíu. Hugsanlegt er þó talið að íslenskir þúfutittlingar og grænlenskir myndi sérstaka deilitegund.

Íslenski þúfutittlingurinn er eindreginn farfugl. Hann kemur til landsins síðast í apríl eða byrjun maímánaðar. Oftast hefst varpið ekki fyrr en nær dregur júní. Hann er mjög algengur um allt land, algengastur samt í þurru og blautu graslendi, en er einnig í kjarrlendi og vel grónum hraunum. Mælingar í Dýrafirði eitt sinn gáfu til kynna að 170 varppör héldu til á ferkílómetra svæði.

Eggin geta verið 2-6 að tölu; eru erlendis oftast 3-5 en hér á landi yfirleitt 5-6. Þau eru móbrún og lögð í haganlega gerða körfu inni í þúfu, holu eða kjarri; kvenfuglinn einn annast gerð hennar og byggir úr stráum og hárum. Útungun tekur 11-15 daga og sem fyrr kemur það verk aðallega í hlut kvenfuglsins að framkvæma. Karlfuglinn lætur hinsvegar meira að sér kveða eftir ábrot, þ.e.a.s. við fæðuöflun. Ungarnir verða fleygir 10-14 daga gamlir en eru áfram mataðir af foreldrunum í 13 daga eða svo. Kynþroska er náð að ári liðnu. Fyrir kemur að þúfutittlingurinn verpi tvisvar á sumri.

Flugið er reikult og vaggandi. Oftar en ekki fylgir hann skorningum og troðningum, sest og flögrar upp aftur. Af þessu háttalagi er fuglinn oft nefndur götutittlingur. Röddin er ýmist veikt tísthljóð, endurtekið hratt þegar fuglinn er í uppnámi, eða þá sterkara hvellhljóð. Að auki er söngur karlfuglsins mjóróma flaut sem vex að hraðara uns því lýkur með hljómþýðu dilli. Þetta stef er flutt með tilheyrandi látbragði, bæði á flugi og jörðu niðri.

Þúfutittlingurinn lifir nær eingöngu á fæðu úr dýraríkinu, mest skordýrum og lirfum þeirra. Síðsumars koma hópar þúfutittlinga stundum heim að bæjum, í leit að æti á nýslegnum túnum og við tað- og mykjuhauga. En frá lokum ágústmánaðar og að miðjum september halda þeir svo flestir af landi brott til vetrarstöðvanna, sumir þó ekki fyrr en í október. Einstaka fuglar hafa sést í vetrartalningum um áramót, eftir hagstætt tíðarfar.

Þúfutittlingurinn dvelur á veturna á svæði frá Vestur-Frakklandi og allt til Marokkó í Norður-Afríku. Þar er hann einkum í votlendi, ræktuðu landi og við sjávarstrendur. Hann er það sem kallað er skammflugsfarfugl, þ.e.a.s. flýgur í stuttum áföngum og þá einkum að deginum. Í einum spretti verður hann þó að fara yfir hafið milli Íslands og Skotlands – um 800 km veg. Flughraðinn er um 40 km/klst og tekur ferðin um sólarhring, ef skilyrði eru góð. Reynir þetta mjög á fuglinn líkamlega. Rannsóknir, gerðar í Surtsey vorið 1968, gáfu til kynna að hann tapaði nærri því helmingi af þyngd sinni á hinu langa farflugi.

Íslenski stofninn hefur verið áætlaður 600.000-800.000 varppör.

Af náttúrulegum óvinum hér á landi er fremstan að telja smyrilinn. En burtséð frá honum verður þúfutittlingurinn aldrei langlífur að heitið geti, frekar en aðrir smáfuglar.

Íslensk þjóðtrú er fátæk hvað varðar þennan fugl. Jón Guðmundsson lærði (1574-1658) segir t.d. ekkert um hann í riti sínu um Íslands aðskiljanlegar náttúrur, annað en að telja hann í hópi meingaðra landfugla. Snorri Björnsson á Húsafelli (1710-1803) kann frá örlitlu meiru að greina, eða orðrétt: ?Menn hafa… eftir tekið að hverju megin hann hreiðrar sig í þúfum er í skjóli við þá átt, sem lengstum viðrar á því vori.?

Annað er vart að finna í gömlum ritum.

Það er ekki fyrr en á 20. öld að úr rætist, í bókinni Fuglarnir (1936), eftir Bjarna Sæmundsson. Þar ritar hann á einum stað, m.a.: ?Óvinir þúfutitlingsins eru helst ýmis smá-rándýr, ránfuglar og eggjaræningjar, hér á landi einkum kettir og smyrlar. Svo virðist, sem hann skoði örninn sem óvin, því að þar sem örn bar að bygðum þúfutitlinga, man höf[undur] eftir því frá æskustöðvum sínum, að þeir söfnuðust saman og eltu hann langar leiðir uppi í loftinu, eins og þeir væru að reka hann burtu; nema ef þeir hafi þvert á móti verið að sýna ?konungi? fuglanna tilhlýðilega virðingu, með því að fylgja honum úr hlaði!? Svo bætir hann við: ?Samkv[æmt] alþýðutrúnni þar syðra, átti tilgangurinn fyrir þúfutittling[u]num, með þessum eltingaleik að vera sá, að reyna að tortíma össu, með því að bora sér inn í rauf hennar og eta úr henni innýflin!, og var litið svo á, að hún væri dauðhrædd við þessa litlu óþokka.?

Í Noregi er sagt að kæmi fugl og berði utan gluggarúðuna hvað eftir annað var einhver feigur í því húsi.

Í breskri þjóðtrú er fuglinn oft í slagtogi með gauknum. Og á Írlandi var því trúað, að þúfutittlingurinn væri sífellt að reyna að komast upp í kjaftinn á gauknum, og að ef honum tækist það, myndi heimurinn farast.   

Önnur íslensk heiti tegundarinnar eru m.a. gráspörr, grátittlingur, grátísla, götuspörr, götutittlingur og þúfutístir.

Þessi mynd var tekin í Siglufirði 11. júlí 2006, við Langeyrarveg.

Þessi á Arnarstapa á Snæfellsnesi 17. júní 2010.

Og þessi í Haganesvík í Fljótum 25. maí 2011.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is