Þráinn Guðmundsson


Í bókinni Margir eru vísdóms vegir ? skólastarf á Siglufirði í eitt hundrað ár, 1883-1983, sem Þ. Ragnar Jónasson tók saman og út kom árið 1999, er m.a. að finna áhugavert skrif eftir Þráin Guðmundsson, sem ber yfirskriftina ?Á kirkjuloftinu forðum daga?.

Það er núna komið undir Greinar, enda við hæfi á degi íslenskrar tungu að lesa eitthvað gott eftir annálaðan skólamann, og að auki lærðan í þeim fræðum.

Þráinn Skagfjörð Guðmundsson fæddist á Siglufirði 24. apríl 1933.

Foreldrar hans voru hjónin Ingibjörg Jónsdóttir, f. 6. ágúst 1902, frá Sauðaneskoti á Upsaströnd við Dalvík, d. 13. maí 1974, og Guðmundur Þorleifsson, f. 31. október 1886, fyrrum bóndi á Syðstahóli í Sléttuhlíð í Skagafirði, d. 4. september 1968.

Hinn 23. október 1954 giftist Þráinn Margréti Guðmundsdóttur, f. í Reykjavík 21. janúar 1934. Foreldrar hennar voru hjónin Þuríður Þorsteinsdóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 28. október 1909 í Knútsborg á Seltjarnarnesi, d. 9. apríl 2006, og Guðmundur Helgason, bakari í Reykjavík, f. 19. janúar 1909, d. 25. mars 1972. Þráinn og Margrét eignuðust fimm börn, þau eru:

1) Ingibjörg skrifstofumaður, búsett í Englandi, f. 29. september 1955, börn hennar eru Paul Þráinn, Magnus John og Margret Theresa.

2) Guðmundur Ómar, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, f. 8. september 1957, maki Bergþóra Haraldsdóttir. Börn þeirra eru Þuríður, Halldóra, Daníel og sonur Guðmundar er Þráinn.

3) Hulda leikskólakennari, f. 25. septmember 1961, maki Helgi Kristinn Hannesson, börnin eru Eva Ösp, Margrét Anna, Þráinn Halldór og Halldóra Ósk.

4) Margrét, kennari í Árósum, f. 26. nóvember 1964, maki Héðinn Kjartansson. Börnin eru Þórkatla Skagfjörð, Þráinn Skagfjörð, Þorgerður Skagfjörð, Björk Skagfjörð og Baldvina Skagfjörð.

5) Lúðvík, viðskiptafræðingur og endurskoðandi, f. 31. október 1973.

Þráinn ólst upp á Siglufirði á síldarárunum. Sem ungur maður vann hann á síldarplönunum á Siglufirði. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1953 og lauk prófi frá Kennaraskólanum 1957. Hann nam síðan íslensk fræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan fyrrihlutaprófi. Þráinn dvaldi við nám í Svíþjóð 1957?58 og hlaut Fulbright-styrk til náms í Bandaríkjunum 1966?68.

Þráinn starfaði allan sinn starfsferil að skóla- og fræðslumálum. Hann var kennari við Miðbæjarskólann 1954?63 og síðan yfirkennari og skólastjóri við Laugalækjarskóla um 30 ára skeið, 1963?93. Hann var fræðslustjóri Reykjavíkur 1985?86 og á tímabili var hann skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur. Hann hafði forystu um að komið yrði á fullorðinsfræðslu hér á landi með stofnun Kvöldskóla Reykjavíkur en próf frá Kvöldskólanum veitti réttindi til framhaldsnáms. Síðustu árin starfaði hann hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og lét þar af störfum 2003.

Þráinn hafði mikinn áhuga á skák. Hann tók þátt í starfi skákhreyfingarinnar og sat í stjórn Skáksambands Íslands í nær 40 ár. Hann var forseti Skáksambandsins 1986?89 og í mörg ár var hann fulltrúi Íslands á þingum Alþjóðaskáksambandsins FIDE. Þá var hann oft fararstjóri íslensku ólympíuskáksveitarinnar. Árið 1990 var hann útnefndur alþjóðlegur skákdómari af FIDE. Hann var ritari Skáksambandsins þegar heimsmeistaraeinvígið í skák fór fram hér á landi árið 1972 og tók mikinn þátt í skipulagi og framkvæmd þess merka skákviðburðar. Þá starfaði hann við fjölmörg alþjóðleg skákmót sem fram hafa farið hér á landi. Hann var ritstjóri tímaritsins Skák og ritaði sögu Skáksambands Íslands í tveimur bindum. Þráinn var útnefndur heiðursfélagi bæði Skáksambands Íslands og Taflfélags Reykjavíkur.

Hann lést á Kanaríeyjum 20. mars 2007.

Þráinn Guðmundsson.

Ljósmynd og æviatriði Þráins: Morgunblaðið, 14. apríl 2007.

Annar texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is