Þráinn Guðmundsson: Á kirkjuloftinu forðum daga


Þótt nú sé æði langt síðan ég og mínir skólafélagar stöldruðum við á kirkjuloftinu og fylltum þessi virðulegu húsakynni hávaða og ærslum um sinn slær enn bjarma á þessi ár í minningunni.

Það var í sjálfu sér ævintýri og hlunnindi að fá að alast upp í Siglufirði á þessum árum – árunum milli 1940 og 1950 – og vera hluti þess horfna mannlífs sem þar var lifað á síldarárunum sælu. Veran í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar var hluti þess ævintýris.

Er líða tók á sumar athafna og erfiðis, sumar breyskjuheitra, sólríkra daga eða norðaustan úrhellisrigninga, sumar lognkyrra nátta, þegar högg beykjanna á plönunum bergmáluðu milli fjalla, varð okkur unga fólkinu oftar og oftar litið í átt til kirkjunnar með kitling í maga, blöndnum kvíða og tilhlökkun. Kannski var kirkjuturninn, sem gnæfði yfir byggðina, í senn ógnvekjandi og traustur, vísbending til okkar um það að innan veggja hans yrði engin léttúð né leikaraskapur liðinn, þar skyldi markið sett hátt.

Og svo var komið haust. Rúturnar höfðu fyllt maga sína dag eftir dag og silast yfir Skarðið með síldarstúlkur að sunnan, en eftir stóðu brakkarnir auðir og daprir. Síðasti síldarbáturinn var horfinn fyrir Siglunesið með tvo tóma nótabáta í eftirdragi. Það var komið hem á polla og hafði fölnað í fjöll. Lífið á Siglufirði var að taka árvissum hamskiptum, í þetta sinn haustið 1947.

Það hafði verið gaman að losna við skólann og ganga út í vorið endur fyrir löngu, en það var jafngaman að hefja nú nám aftur og það í gagnfræðaskóla – og hér vorum við mætt á kirkjuloftinu í byrjun október, hópur siglfirskra ungmenna með eftirvæntingu í huga, ómótaður leir fyrir kennarana til að móta.

Ekki man ég hvað bekkurinn var fjölmennur, en námfýsi og áhugi á fræðunum var svona upp og ofan eins og gengur. Glaðværð, smáglettur og meiningarfullar augngotur milli kynja gáfu löngum dimmum dögum, er norðaustan stórhríðin hamaðist fyrir utan, lif og lit. (Vel á minnst, ég sem skólastjóri í Reykjavík brosi oft í kampinn, er skólum er aflýst vegna veðurs og hugsa norður. Aldrei man ég eftir að G.S. hafi verið aflýst vegna veðurs þá vetur, sem ég var þar og þó var veðrið stundum það vont, að varla var stætt milli húsa.)

Á kennarastofunni, sem nú þætti æði lítil, beið kennaraliðið okkar. Sem skólamaður þykist ég vita að þar hafi einnig ríkt eftirvænting og spurn: Hvernig ætli þessi hópur verði? Réttast að taka hann föstum tökum strax í byrjun og láta óróaseggi ekki komast upp með neitt múður.

Eins og siður var vorum við skussarnir settir í fjósið, stærstu stofuna fyrir enda kirkjuloftsins – og lærifeðurnir hófu að sá í hinn grýtta jarðveg.

Fyrstan þeirra skal telja skólastjórann Jóhann Jóhannsson, mikinn öðling og gagnmerkan skólamann. Hann kenndi sögu og dönsku. Jóhann var strangur kennari og enginn dirfðist að sýna neina léttúð í tímum hjá honum. Glöggur athugandi hefði þó oft getað séð glettni í svip hans, þótt hann yrði að sveipa yfirbragð sitt strangleika vegna breka okkar. Einkum var það augnsvipur Jóhanns á slíkum stundum, sem gaf til kynna hve stutt var í kímnina, en væru afbrotin alvarleg gneistuðu augu hans af heilagri vandlætingu.

Eitt sinn vorum við Rikki (Ríkharður Axel Sigurðsson, nú lyfjafræðingur í Reykjavík) teknir á beinið hjá Jóhanni. Orsökin var sú að við höfðum verið að tuskast frammi í fatahenginu, en þar var oft aðalvettvangur ærsla okkar. Ein skólasystranna lenti í slagnum, eða kannski var leikurinn gerður til að erta hana, nema hvað, að leik loknum stóðum við Rikki eftir hvor með sína ermi og hálfan boðung af flík, líklega peysu eða blússu stúlkunnar, sem að sjálfsögðu fór niðurbrotin til skólastjórans.

Nú var illt í efni og ekki hafði þetta verið ætlunin. Við stóðum þarna skjálfandi og fölir en Jóhann kom fram úr kennarastofunni og skipaði okkur höstugur að koma og tala við sig. Svipur hans var harður og mikilúðlegur þessa stundina og sökudólgarnir ekki miklir fyrir manni að sjá, þar sem þeir stóðu með hangandi höfuð, titrandi af hræðslu með peysuslitur í höndunum, bíðandi eftir þrumuræðu skólastjórans.

Ekki kom ég upp nokkru orði en ég man enn nákvæmlega þá stuttu varnarræðu sem Rikki stamaði fram: ?Svona er að vera ungur?. Ég gleymi því aldrei hver áhrif þessi töfrasetning hafði. Það var eins og gríma strangleikans dytti af andliti Jóhanns. Fyrst komu viprur í augnkrókana, sem breiddust svo út um andlitið, þar til hann skellti upp úr. Í einni svipan breyttist andrúmsloftið og eftir föðurlegar áminningar og tilmæli um að bæta skólasystur okkar flíkina var málinu lokið. Í starfi mínu síðar hefur þetta atvik oft komið upp í huga minn.

Eins og ég tók fram áður kenndi Jóhann sögu og dönsku. Jóhann var frábær kennari. Sérstaklega held ég að nemendur hafi lengi búið að dönskukennslu hans. Kennsluaðferðin hefði ef til vill ekki fallið í kramið í dag, þegar höfuðáhersla er lögð á að tjá sig og tala, en málfræði og utanaðbókarlærdómur teljast af hinu illa, en undirstöðuna urðum við að læra og beyging danskra sagna var eins mikilvæg og lærdómur faðirvorsins er í fermingarundirbúningi.

Annar kennari, nú nýlega látinn, er mér og minnisstæður, en þar á ég við Hafliða Guðmundsson, innfæddan Siglfirðing og þekktan borgara í Siglufirði um langan aldur.

Hafliði kenndi okkur stærðfræði og eðlisfræði, en þau fög eru yfirleitt ekki hin vinsælustu né léttkenndustu á þessu aldursstigi. Hafliði tók þó heimsku okkar og skilningsleysi á algebru og útreikningum á fallhraða, eða hvað það nú allt hét, með kristilegri þolinmæði og í stað þess að æðrast eða lesa okkur reiðilestur sló Hafliði oft á léttari strengi er allt var að sigla í strand, sagði okkur gamansögu, sló fram gátu eða talnaleik og hló með okkur busunum. Stundum var stærðfræðinni stungið undir stól og rætt um landsins gagn og nauðsynjar. Ég man t.d. eftir því að Hafliði kenndi okkur að kjósa og reikna út fjölda bæjarfulltrúa eftir atkvæðatölum flokka.

Einn reiðilestur man ég eftir að Hafliði flutti yfir okkur. Sá lestur var svo mergjaður og meinhæðinn að áhrifa hans til góðs gætti það sem eftir var vetrar, en tilefnið var slæm umgengni á salernum skólans. Engum datt í hug að láta illa í tímum hjá Hafliða, slíkur var persónuleiki hans og þrátt fyrir allt tókst honum með elju og meðfæddum kennsluhæfileikum að opinbera okkur ótrúlega leyndardóma stærðfræðinnar, þótt margt sé það nú aftur gleymt og grafið.

Guðbrand Magnússon þekkja allir Siglfirðingar. Hann kenndi náttúrufræði og landafræði, ?kjaftafögin? eins og nemendur gjarnan nefna þessar greinar. Guðbrandur var lifandi og skemmtilegur kennari og áhugi hans á náttúrufræðum alkunnur. Ég hafði gaman af þeim greinum sem hann kenndi og fór vel á með okkur þá og ætíð síðan.

Séra Óskar J. Þorláksson kenndi okkur ensku, a.m.k. fyrsta veturinn. Mér er kennsla hans enn minnisstæð. Í þá daga var einhver ljómi yfir því að tala framandi tungumál, í þessu tilfelli ensku, og mér fannst séra Óskar bera með sér andblæ framandi þjóða er hann gekk inn í stofuna, virðulegur og góðmannlegur. Mér fannst enska hans svo falleg að ég lagði mig allan fram og æfði í einrúmi þennan, að ég hélt, Oxfordframburð, sem Óskar hafði, en náði þeim framburði að sjálfsögðu aldrei.

Ég vorkenni annars þeim málakennurum, sem verða að hlusta á afbakaðan framburð misáhugasamra byrjenda dag eftir dag, en aldrei skipti Óskar skapi. Hann var alltaf sami ljúflingurinn, sem hafði skírt okkur flest og fermt og verið með okkur Siglfirðingum í blíðu og stríðu, á gleði- og sorgarstundum eins langt aftur og minni okkar unglinganna náði.

Einhverra hluta vegna var ekki fastur íslenskukennari við skólann á þessum árum, en mig minnir að séra Þorbergur Kristjánsson, síðar sóknarprestur í Kópavogi, og Ingi Tryggvason, síðar hæstráðandi hjá bændasamtökunum, hafi staldrað við í Siglufirði hvor sinn veturinn og reynt að kenna okkur íslenska málfræði með misjöfnum árangri eins og gengur.

Óþarft er hér að lýsa Helga heitnum Sveinssyni leikfimikennara og íþróttafrömuði í Siglufirði. Eins og Siglfirðingar muna var Helgi eldhugi að öllu sem hann gekk og sérstæður maður. Það var ekki honum að kenna að ég lærði aldrei flugstökk, kollstökk var það allengsta sem ég komst á þeirri braut.

Ekki má ég skiljast svo við mína gömlu kennara að ég minnist ekki á Jón Móberg, sem nú mun látinn fyrir allmörgum árum. Jón kenndi okkur handavinnu, smíði og bókband. Það var ekki mikill hávaði í kringum Jón. Hann vann sín verk í kyrrþey og af alúð, það var nærri eins og hann bæðist afsökunnar á því að vera til. Þrátt fyrir þetta þekktumst við aldrei við Jón. Andrúmsloftið í þessari einstæðustu smíðastofu á Íslandi var hlýlegt eins og maðurinn, sem þar réði ríkjum. Smíðastofan var annars ekki á kirkjuloftinu, heldur í sjálfum kirkjuturninum!

Hvernig var svo félagslíf nemenda í Gagnfræðaskólanum á Siglufirði á árunum eftir seinna stríð? Var þar diskotek vikulega með voldugum ?stereógræjum?, sem geta framleitt nægan hávaða til að stórskaða heyrn áheyrenda á skömmum tíma? Var ?opið hús? algengt, þar sem borðtennis, tölvuspil alls konar og leikir blandast dansi og léttu glensi milli kynja, og hvað um tómstundakvöldin þar sem nemendur una sér við skapandi starf og föndur?

Þótt svar við sumum spurninganna sé neikvætt finnst mér að félagslíf okkar unglinganna í Siglufirði hafi verið fjölbreytt og skemmtilegt á þessum árum. Það var að vísu ekki allt tengt skólanum. Íþróttafélögin, ekki síst skíðafélögin, skátar, stúkan o. fl. sáu ásamt skólanum um að krydda tilveruna.

Diskótek voru að sjálfsögðu þá langt handan sjóndeildarhrings tímans, en dansæfingar eða skólaböll voru, minnir mig, einu sinni í mánuði. Þessar samkomur voru yfirleitt haldnar í Sjómannaheimilinu. Þó er ég ekki frá því að einhvern tíma hafi sú synduga athöfn dansinn verið framin á kirkjuloftinu og drottinn látið það óátalið, að minnsta kosti komu ekki þrumur og eldingar hvað þá að kirkjan sykki. Á skólaböllunum var píanó eða harmonika ásamt trommum aðalhljóðfærið, öld rafmagnsgítarsins ekki upprunnin, Elvis Presley enn óskrifað blað.

Margir piltanna voru hálfóklárir í fótamenntinni og tregir út á gólfið, en við vorum óskaplega ástfangnir og það fór straumur um líkamann við minnstu snertingu draumaprinsessunnar. Sumar skólasystranna voru reyndar ósnertanlegar. Þær svifu um í öðru plani eins og Úurnar hans Laxness: Hadda, Bína, Stína og hvað þær hétu nú allar.

Eitt var að sjálfsögðu nær dauðasynd á skólaböllunum, en það var neysla áfengis og man varla eftir því að slíkt ylli vanda á þessum árum. Annað var litlu skárra, en kom þó oft fyrir. Þegar líða tók á kvöld vildu vangar dansenda færast óhóflega saman og loks snertast við síðustu tóna seiðandi lagsins. Vangadans var harðlega bannaður og var það hlutverk kennaranna, sem voru við gæslu, að afstýra þessum óskunda og ganga á milli. Þetta þótti okkur óréttlátt og sumir kennararnir voru nógu ungir í anda til þess að fyllast sjóndepru á réttum augnablikum.

Á kirkjuloftinu voru málfundir haldnir en heldur voru þeir líflitlir. Við héldum svo hlutaveltu ? sem ætíð var nefnd tombóla ? fyrir ferðasjóð. Var þá gengið í verslanir og betlað og alls staðar vel tekið, þótt vinningarnir væru ekki allir stórir. Loks var haldin árleg skemmtun fyrir almenning, en uppistaða dagskrárinnar var vanalega nokkuð langt leikrit. Mér er á þessari stundu lífsins ómögulegt, að muna nöfn þeirra ódauðlegu verka, sem færð voru upp fjölum Sjómannaheimilisins eða Nýja Bíós, en vafalaust hafa þau verið af léttara taginu og leikin af innlifun. Svo mikið er víst að oftast var fullt hús á þessum sýningum og ekki bar á öðru en áhorfendur skemmtu sér vel.

Þannig liðu þessi áhyggjulausu ár æskunnar í Siglufirði við nám, leik og starf. Eftir langan vetur en viðburðaríkan, eftir stórhríðar og blindbylji vikum saman, eftir tunglskinsbjört kvöld, þegar blá kyngimögnuð birta vafði Fjörðinn örmum sínum og unga fólkið leiddist í rómantískum draumi um götur og sund undir dansi norðurljósanna, var vori fagnað af dýpstu hjartans rótum.

Og brátt var skólanum lokið og ekki langt í, að sæist til fyrstu síldarskipanna koma að austan fyrir Siglunesið og beygja inn í Fjörðinn og senn fyllti tjöruangan af nýbikuðum nótabátum og plönum vitin.

Einn hringur í rás tímans var að baki, sá næsti að hefjast. Yfir byggðinni gnæfði kirkjuturninn traustur sem áður, en ekki lengur ógnvekjandi. Í skjóli hans höfðum við þroskast og okkur liðið vel. Og enn vakir hann yfir byggðinni í Siglufirði og vekur hlýjar minningar með þeirri kynslóð, sem framdi sín brek, tók út sinn þorska, hló og grét á kirkjuloftinu forðum daga.

Þráinn Guðmundsson.

Af kirkjuloftinu.

Gagnfræðaskóli Siglufjarðar tók til starfa þar, 13. október 1934

og skólastjóri var ráðinn Jón Jónsson frá Völlum í Svarfaðardal.

Hann stendur þarna aftast.

 

Uppdráttur af salarkynnum.

Litmynd: Aðsend.

Mynd af kirkjuloftinu og uppdráttur: Úr bókinni Siglufjarðarkirkja 1932-1982. Sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju 1982.

Texti: Þráinn Guðmundsson. Úr bókinni Margir eru vísdóms vegir – skólastarf á Siglufirði í eitt hundrað ár, 1883-1983. Grunnskóli Siglufjarðar 1999. Greinin er birt hér með leyfi aðstandenda Þráins.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is