Þórarinn Hannesson kominn með fleiri gamansögur frá Siglufirði


Þórarinn Hannesson hefur nú gefið út 2. hefti af 50 gamansögum frá Siglufirði. Eins og í því fyrra inniheldur það nýjar og gamlar sögur í léttum dúr sem tengjast Siglufirði eða Siglfirðingum. Sumar þessara sagna hafa gengið manna á milli í fjölda ára, aðrar eru nýrri af nálinni og sumar aðeins á fárra vitorði.

Þórarinn stefnir að því að gefa út svona rit á hverju ári meðan hann hefur nægan efnivið að moða úr og fólk er tilbúið að kaupa afurðina.  Biðlar hann því til fólks um að hvísla að sér sögum í þessum anda sem það gæti átt í pokahorninu.

Nýja bókin er til sölu í Siglósport, Videoval og hjá Þórarni sjálfum og kostar litlar 1.000 krónur.

Hér kemur örlítið sýnishorn, með góðfúslegu leyfi höfundar.

Eina Camel, takk!

Sigurbjörn Sveinsson bjó að
Grundargötu 6 og var planformaður á söltunarstöð Ólafs Ragnars.
Sigurbjörn var hæglátur maður og reglusamur. Hann hafði það að vana
eftir hádegismatartímann að koma við í sjómannaversluninni Dröfn, sem
Jóhann Pétur Jónsson, faðir Budda skipstjóra, rak neðarlega í
Aðalgötunni. Hið daglega erindi í verslunina var að kaupa eina sígarettu
til að hafa með sér í vinnuna.

Einu sinni á góðum degi gerðist
Sigurbjörn nokkuð stórtækari og bað um þrjár sígarettur. Jóhann
afgreiddi hann og spurði svo: ?Ertu að fara í ferðalag Sigurbjörn minn??

Sigurbjörn var faðir Gunnars Rafns
fyrrverandi skólastjóra G.S. og afi stjórnmálamannanna Illuga
Gunnarssonar og Þórlinds Kjartanssonar.

Afsakið, geit

Guðmundur Hannesson, sem lengi var
bæjarfógeti á Siglufirði, eða frá 1919-1948, var maður afskaplega
kurteis en þótti oft nokkuð utan við sig.

Á bæjarfógetaárum Guðmundar var það
ekki fátítt að Siglfirðingar hefðu geitur sem húsdýr. Eitt sinn bar svo
við að geit hafði farið inn í garð fógetans. Hann hugðist reka hana út,
gekk til hennar og sagði: ?Afsakið, geit, en viljið þér ekki gjöra svo vel að ganga út úr garðinum??

                                

Gideonfélagar fara húsavillt

Árið 2008 flutti til Siglufjarðar
tónlistarkennarinn Guito Thomas ásamt fjölskyldu sinni og komu þau alla
leið frá Brasilíu. Kennir Guito við Tónskóla Siglufjarðar sem og
tónmennt í grunnskóla staðarins auk þess sem hann er organisti við
kirkjuna.

Ár hvert heimsækja Gideonfélagar
Grunnskóla Siglufjarðar, sem og aðra grunnskóla landsins, og færa
hverjum nemenda 5. bekkjar eintak af Nýja testamentinu að gjöf. Haustið
2009 var von á Gideonfélögum í neðra hús grunnskólans, þar sem 5. bekkur
stundar nám sitt, en þeir fóru húsavillt og mættu í efra þar sem eldri
nemendur sinna sínu námi. Jónína skólastjóri, sem var í efra, hringdi í
neðra til að láta vita af þessum ruglingi og sagði að Gideonfélagar væru
á leiðinni niður eftir til að afhenda Nýja testamentið. Ríkey
aðstoðarskólastjóri tók við skilaboðunum en þótti þetta eitthvað
undarlegt. ?Af hverju eru Guito og félagar að afhenda Nýja testamentið
og hverjir eru eiginlega þessir félagar sem eru með honum?? spurði Ríkey
í forundran.

Fugl með bílpróf?

Þegar styttist í 50 ára afmæli
Sigurðar Jónssonar, Sigga drumbs, var hann spurður hvort hann ætlaði nú
ekki að gera eitthvað sérstakt í tilefni dagsins, skella sér kannski í
sólarlandaferð eða eitthvað slíkt. Nei, ekki vildi karl heyra á það
minnst og sagði að sér væri illa við svona fjölmenni eins og væri á
slíkum stöðum. Hann sagðist þó ætla í ferðalag með frúna en það yrði á
rólegan og afskekktan stað. ?Já, þetta er meira að segja svo afskekkt að
þangað kemst enginn akandi nema fuglinn fljúgandi,? sagði Sigurður að
lokum og þá átti viðmælandinn ansi bágt með sig.

Þarna er gat

Gestur Fanndal, kaupmaður með meiru,
var um árabil umboðsmaður flugfélaga sem flugu til Siglufjarðar. Eins og
gengur og gerist voru veður misjöfn og þar með aðflugs- og
lendingarskilyrði. Þegar alskýjað var þurftu flugmennirnir stundum að
sveima yfir firðinum í von um að sjá glufu á skýjahulunni. Eitt sinn
þegar svona stóð á var Gestur með kalltækið í höndunum úti á
flugvellinum, í beinu sambandi við flugvélina, og reyndi að aðstoða
eftir fremsta megni. Allt í einu rofar til yfir Skarðinu þá bendir
Gestur og kallar upp yfir sig: ?Þarna er gat!?

Sjálfstæð kona

Guðrún Rögnvaldsdóttir, eða Gudda Rögg
eins og hún var kölluð, rak hér verslun um árabil með miklum bravúr.
Hún var gift Ragnari Jóhannessyni, en hann var skattstjóri Norðurlands
vestra þegar þessi saga gerist. Gudda þurfti að láta breyta í búðinni
hjá sér og réð til sín smiði til verksins. Þegar verkinu var lokið
spurði hún smiðina hvort þeim væri ekki sama þó hún borgaði þeim svart.
Nokkuð fát kom á smiðina og spurðu þeir hvað hún héldi að maðurinn
hennar segði við því. ?Honum kemur þetta ekkert við, ég á þennan
rekstur,? sagði frúin þá.

Þegar mikið liggur við

Hjördís Aðalsteinsdóttir spurði Ásgeir
Björnsson verslunarstjóra eitt sinn hvort dóttir hennar á unglingsaldri
gæti fengið sumarvinnu í Versló. ?Nei, það er fullráðið hjá mér,?
sagði Ásgeir, ?og ég hef að auki svo margar giftar konur sem ég get
hlaupið uppá þegar mikið liggur við.?

Þórarinn Hannesson með 50 gamansögur frá Siglufirði, 1 og 2.

Mynd og inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Sýnishorn úr nýju bókinni: Þórarinn Hannesson | hafnargata22@hive.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is