Þór á 25 ára afmæli í dag


Þór, félag safnara á Siglufirði, er 25 ára í dag og opnar af því tilefni afmælissýningu í Ráðhúsi Fjallabyggðar, á 2. hæð, kl. 14.00.

„Upphafið að þessu félagi var það að ég var búinn að vera með þessa hugmynd í kollinum lengi,“ segir Þór Jóhannsson, forsprakkinn, sem félagið er nefnt í höfuðið á. „Þannig var, að Hafdís Ólafsson og mamma unnu saman á sjúkrahúsinu og Hafdís var mikill safnari. Hún kom oft í heimsókn til okkar upp á Hverfisgötu og þannig kynntist ég henni, og ég fór svo seinna meir að heimsækja hana og skoða það sem hún var að dunda sér við, sem var æði margt. Ég var sjálfur byrjaður að safna þá, en vissi ekki að hún væri svona rosalegur safnari. Svo kynntist ég henni og fór að segja henni frá þessari hugmynd minni, að stofna eitthvert félag, og hún dreif í þessu og ýtti á þetta með mér og við gerðum þetta í sameiningu.“

Félagið var stofnað 5. maí 1993.

„Við byrjuðum á því að smala saman einhverju liði, það var Arnfinna Björnsdóttir, Abbý, síðar bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2017, Jóhannes Friðriksson, Sigurður Gíslason með allt sitt, hann átti eitt stærsta safn í heimi, held ég, af eldspýtnastokkamiðum, Jónína Hallgrímsdóttir eða Ninna í Skútu, eins og hún var oftast nefnd, hún safnaði m.a. litlum, fallegum vínflöskum, og svo voru Jóhanna Þorsteinsdóttir, Sveinn Þorsteinsson og eiginkona hans Berta Jóhannsdóttir og fleiri – ætli við höfum ekki verið um fjórtán lengi vel.“

Félagið var í fyrstu með aðstöðu í Aðalgötu 8 á Siglufirði, þar var fundað og fyrsta sýningin sett upp, á 5 ára afmælinu.

„Svo fórum við niður í Eyrargötu 16, vorum uppi hjá úrsmiðnum, þar funduðum við á tímabili. Svo fórum við í Aðalgötu 22, sem Rúdolf Sæby átti, þar var Abbý fyrst með vinnustofu, þar funduðum við uppi og vorum í smá tíma. Síðan fórum við niður í Aðalgötu 13, þar sem hún er núna, og höfum verið að funda þar undanfarið,“ segir Þór.

Sýningar hafa verið haldnar á fimm ára fresti.

„Við höfum látið gera svona ýmislegt í gegnum tíðina, þar á meðal eru spilastokkar í tilefni tímamótanna núna. Á 10 ára afmælinu létum við gera jólafrímerki. Á 15 ára afmælinu keypti ég mér stimpla og blek og handstimplaði yfir hitt. Og lyklakippu létum við gera einhverju sinni.

Sem dæmi um það sem félagsmenn hafa verið að safna, fyrir utan það sem áður var minnst á, má nefna peningaseðla, þar á meðal eru nokkrir ríkisdalir frá því undir lok 18. aldar, jóla- og póstkort, fingurbjargir, lyklakippur, og listar með nöfnum siglfirskra fermingarbarna, að bara fátt eitt sé nefnt.

Og sjálfur á formaðurinn ýmislegt í pokahorninu.

„Já, ég safna öllu,“ segir Þór, „ég á t.d. stórt safn af golfkúlum, merktum íslenskum fyrirtækjum og golfklúbbum, þetta eru 500-600 kúlur. Meiningin var að gefa þetta í nýja golfskálann í Hólsdal, sem vonandi rís innan skamms. Ég hef bara tekið þetta og hent í kassa, þegar ég hef fundið þetta, og svo fór ég að skoða þetta fyrir nokkrum árum og þá var þetta orðið helvíti mikið safn. Ég var búinn að finna sérstaka glerramma á Netinu sem taka 80 kúlur hver, til að hafa á vegg, ég var að hugsa um að fá mér nokkra svoleiðis. Svo hirði ég alla jókera úr öllum spilum og er með heila stokka líka, allt íslenskt. Ég á um 350 stokka heila. Svo á ég eitthvað yfir 1000 spilabök. Það er til mikið af íslenskum spilum, allt frá 1925. Svo safna ég líka reikningum og kvittunum, það elsta er frá því um aldamótin 1900, þetta er frá flestum verslunum sem voru á Siglufirði á 20. öld, og þær voru ekki fáar. Þetta er óhemju kássa, allt geymt í plastvösum í möppum.“

Á 25 ára afmæli félagsins er hann þó dálítið uggandi hvað framtíðina varðar.

„Það er merkilegt að þetta félag skuli vera til ennþá. Nú er ég sá yngsti, fæddur 1961, fjögur eru horfin á braut. Þetta deyr út af sjálfu sér ef það verður engin endurnýjun. Það er fullt af öðrum söfnurum hérna, sem gaman væri að fá til liðs við okkur. Þeir eru bara úti í horni eins og er, vilja vera einir og sér. En um leið og þú ert kominn í svona félagsskap, ég þekki það af eigin raun, þá kynnistu svo mörgum söfnurum og færð miklu meiri gleði út úr þessu.“

Spilastokkarnir, sem gerðir hafa verið í tilefni dagsins til styrktar félaginu, verða til sölu á afmælissýningunni og kosta 2.000 kr. hver. Þeir eru númeraðir, frá 1 og upp í 100.

Opið verður í dag til kl. 17.00 og svo einnig á morgun, frá kl. 14.00-17.00, sem og 9. og 10. maí á sama tíma.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.
Auglýsing: Aðsend.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is