Það læra börnin sem fyrir þeim er haft


Nú þegar leik- og grunnskólar eru byrjaðir að nýju eftir sumarfrí er full ástæða til að biðja ökumenn að fara með sérstakri gát, því fleiri börn eru í umferðinni nú heldur en venjulega, á leið heiman frá sér á morgnana og svo aftur heim um miðjan dag, og mikilvægt að sýna þeim virðingu, tillitssemi og kurteisi. Ekki síst á þetta við þegar þau þurfa að komast yfir götur, við gangbrautir eða annars staðar.

Ekki sakar að rifja upp hvað umferðarlögin, sem eru nr. 50 frá 30. mars 1987, segja, en það er eftirfarandi:

 

III. Umferðarreglur fyrir gangandi vegfarendur.

12. gr. Gangandi vegfarandi, sem ætlar yfir akbraut, skal hafa sérstaka aðgát gagnvart ökutækjum, sem nálgast. Hann skal fara yfir akbrautina án óþarfrar tafar. Þegar farið er yfir akbraut skal nota gangbraut, ef hún er nálæg.

IV. Umferðarreglur fyrir ökumenn.

26. gr. Ökumaður, sem nálgast gangbraut, þar sem umferð er ekki stjórnað af lögreglu eða með umferðarljósum, skal aka þannig að ekki valdi gangandi vegfaranda á gangbrautinni eða á leið út á hana hættu eða óþægindum. Skal ökumaður nema staðar, ef nauðsynlegt er, til að veita hinum gangandi færi á að komast yfir akbrautina.

36. gr. Sérstök skylda hvílir á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður: ? d. áður en komið er að gangbraut ?

Verum ungu kynslóðinni góð fyrirmynd.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Og lengi býr að fyrstu gerð.

Sýnum unga fólkinu virðingu, tillitssemi og kurteisi

jafnt í umferðinni sem utan hennar.

Mynd: http://www.seltjarnarnes.is/gamli-skoli/frettir/2007/08

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is