Það er engin þörf að kvarta


?Það er engin þörf að kvarta, þegar blessuð sólin skín,? orti Stefán frá Hvítadal, og eflaust með sanni.

Og þótt í dag hafi blásið kröftuglega af norðan og grár drungi legið yfir plássinu, tilheyrandi fyrstu haustlægð ársins, höfum við svosem enga ástæðu heldur til ganga um með yggldar brár, enda rjúkandi heitt vatn nýlega fundið í Skarðsdal og malbikun Héðinsfjarðarganga lokið og eflaust væri hægt að telja upp hér fjölmargt annað af svipuðum toga.

Og sú bjarta fyrir ofan skýin, bíðandi eftir því að fá að kyssa okkur og faðma nokkrum sinnum enn, uns hún leggur í ferðalag héðan í nokkrar vikur.

Ef hún ekki gerði það, væri lítið um sólarkaffi í janúar.

Og hver myndi vilja sleppa því?

Það rauk vel á borunarsvæðinu fyrr í dag, enda vatnið 72,5°C heitt.

Yfir bænum var skýjamistur.

Svo fór að blása.

Þessi dílaskarfur hafði ekkert á móti því.

Ekki frekar en ritan, sem tókst að ná sér í bita í öldurótinu – eða kannski vegna þess.

Dúfurnar biðu þetta af sér í einum hnapp og snéru brjóstum upp í vindinn.

Og síðan fór að rigna, en teistan kippti sér ekkert upp við það, enda til lítils.

Öll él birtir upp um síðir.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is