Þ. Ragnar Jónasson: Bókasöfnun og bóklestur


Íslendingar hafa löngum verið taldir mikil bókaþjóð. Þeir rituðu bækur á móðurmáli sínu á þrettándu öld, meðan aðrar menningarþjóðir notuðu latínu sem ritmál. Þeir færðu í letur sögu þjóðarinnar og annarra Norðurlandaþjóða, einkum Noregs. Þeir björguðu því sem frændþjóðirnar höfðu glatað af fróðleik og sögu fornra tíma og rituðu sína eigin sögu frá upphafi Íslandsbyggðar.

Aðrar þjóðir hafa borið mikla virðingu fyrir sagnaafrekum Íslendinga og landið hefur í heiðursskyni verið kallað Sögueyjan. Það hvílir mikil ábyrgð á afkomendum þessara forfeðra. Þeir tóku í arf dýrar bókmenntir, sem ekki einungis gerðu þjóðinni kleift að þekkja sína eigin sögu frá upphafi, heldur urðu einnig grundvöllurinn að endurheimtu sjálfstæði hennar. Norðmenn telja sig eiga sagnariturum Íslendinga að þakka að til eru heimildir um sögu þeirra til forna og álíta ýmsir þeirra að þau rit hafi örvað þá og stælt í sjálfstæðisbaráttunni.

Hið mikla skáld og sagnahöfundur Snorri Sturluson hefur verið einn af þjóðardýrlingum Norðmanna. Hann var frægasti Íslendingurinn fram á okkar daga. Í rit hans hafa bæði innlendir og erlendir rithöfundar og skáld sótt hugmyndir og fróðleik og notað í sín rit. Fjöldi annarra rithöfunda og skálda hefur gert garðinn frægan, bæði að fornu og nýju.

Það er því ekki ósennilegt að lestrarlöngun og bókmenntaáhugi hafi ávallt verið mikill meðal ungra og aldraðra hér á landi. En lengi voru bækur dýrar og vandfengnar. Var þá notuð sú aðferð að einn las upp fyrir allt heimilisfólkið, eða mælti sögurnar af munni fram. Þannig var það á kvöldvökunum.

Snemma mun hafa komið fram sú hugmynd að setja á stofn félög sem höfðu það að markmiði að gera sem flestum fært að fá bækur til lestrar. Þannig mynduðust lestrarfélög og síðar bókasöfn. Almenningsbókasöfn eru einn mikilvægasti miðill sem völ er á til þess að veita öllum aðgang að heimildum þeim sem kynnt geta og frætt um hugmyndir manna á hinum ýmsu sviðum. Á bókum byggist öll menntun sem til gagns má verða einu þjóðfélagi og þær flytja reynslu kynslóðanna áfram til þeirra sem við taka hverju sinni. Þannig eru bókasöfnin menningarmiðstöðvar í sérhverju byggðarlagi og þau geta haft mjög víðtækt gildi fyrir samfélagið og fólkið sjálft.

   

Hægt farið af stað

Ekki fara sögur af neinum samtökum á Siglufirði í þessa átt fyrir aldamótin 1900. Byggðin var fámenn og fátæk, og erfiðar samgöngur milli byggðarlaga. Með breyttum atvinnuháttum upp úr aldamótunum og vaxandi þéttbýli i kauptúninu urðu meiri möguleikar á félagslegum lausnum ýmissa mála.

?Á miðsvetrarfundi hreppsnefndar 11. febrúar 1911, hreyfði fundarstjóri (sr. B. Þorsteinsson) því, hver nauðsyn væri á að koma hér sem fyrst á fót lestrarfélagi og bókasafni, og jafnvel lestrarsal, er væri opinn 2-3 tíma á dag að vetrinum. Fundurinn var þessu samþykkur og kaus þessa þrjá menn til þess að hrinda málinu áfram sem fyrst og sem best: Séra Bjarna Þorsteinsson, Jón Guðmundsson, verslunarstjóra, Sigurð H. Sigurðsson, kaupmann. Þá er Sigurður H. Sigurðsson fluttist héðan var Kjartan Jónsson kosinn í hans stað.? Þannig er fyrsta innfærsla í fundargerðabók lestrarfélagsins færð með fagurri rithönd séra Bjarna Þorsteinssonar. Þetta er upphaf Bókasafns Siglufjarðar. ?Sá veldur miklu, sem upphafinu veldur.? Þarna er séra Bjarni forgöngumaður, eins og á svo mörgum öðrum sviðum. Hugsjónir hans og brautryðjandastarf settu svip á Siglufjörð og mótun hans meðan staðurinn var í mestum og örustum vexti, enda var Bjarni andlegur og veraldlegur forystumaður bæjarfélagsins meðan hans naut við.

Unnið var að því allra fyrstu árin að vekja áhuga fyrir því að koma upp bókasafninu og kynna nauðsyn þess að safna bókum til lestrar. En ?peningarnir eru afl þeirra hluta sem gera skal.? Reynt var að safna fé til bókakaupa og leitað var í því sambandi til opinberra aðila um fjárframlög. Þetta virðist hafa gengið nokkuð treglega í fyrstu. Það má nefna að árið 1913 fékkst 70 kr. styrkur úr landssjóði og 150 kr. úr hreppssjóði. Sama ár fengust 25 kr. til bókakaupa úr sýslusjóði Eyjafjarðarsýslu. En um leið og það var veitt, var þessi ályktun bókuð: ?Jafnframt sé hreppsnefndinni bent á að nota sem best þann rétt, sem hún hefur samkvæmt samningi sýslunefndar og bæjarstjórnar til þess að fá lánaðar bækur af bókasafninu á Akureyri.?

Þetta er að vísu vinsamleg ábending um möguleika fyrir auknum bókakosti til lestrar, en hægt er að skilja hana á þann veg að bókasafn á Siglufirði sé ekki aðkallandi. Þessa ábendingu tóku forráðamenn lestrarfélagsins ekki til greina, og áfram var haldið.

Á miðsvetrarfundi hreppsnefndar 13. febrúar 1915 skýrði oddvitinn, séra Bjarni, frá því hvernig málin stæðu í lestrarfélaginu. Taldi hann að peningar til bókakaupa væru ?allsendis ónógir, hér væri allt komið undir hluttöku hreppsbúa og skilsemi … Nálægt 80 manns skrifuðu sig á fundinum sem væntanlegir félagsmenn, með þriggja króna árgjaldi.?

Í febrúar 1916 voru allar þær bækur sem keyptar höfðu verið komnar frá bókbindara. ?Bókunum raðað, ca: 100 bindum og þeim komið fyrir í barnaskólahúsinu. Jens B. J. Stær var fenginn til að sjá um útlánin fyrst um sinn, og ákveðið að útlán skyldu byrja sunnudaginn 20. febrúar, en Kjartani Jónssyni falið að smíða skáp sem fyrst undir bækurnar.?

Á fundi í lestrarfélaginu vorið 1916 voru samþykkt lög fyrir félagið. Í 2. gr. segir: ?Tilgangur félagsins er að stofna bókasafn í Siglufjarðarkauptúni, glæða lestrar- og fróðleikslöngun hreppsbúa og veita félagsmönnum kost á lestri fræðandi og skemmtandi bóka og blaða fyrir svo lágt árgjald, sem auðið er.?

Með þessu verða nokkur þáttaskil hjá félaginu. Lokið er fyrstu erfiðleikaárunum. Þrátt fyrir dýrtíð á þessum árum – fyrri stríðsárunum – og lítið fé handbært til bókakaupa var kominn stofn að bókasafni sem átti fyrir sér að vaxa og verða bæjarbúum til fróðleiks og skemmtunar.

Skin og skúrir

   

?Bókvitið verður ekki í askana látið? er mjög gamalt orðtak sem hlýtur að hafa myndast á einhverju hörmungartímabili í sögu þjóðarinnar, þegar lítið var um ?björg og brauð? og erfitt var að fylla askana. Þó oft hafi verið þröngt í búi á umliðnum öldum var sífellt vakandi áhugi þjóðarinnar fyrir andlegum viðfangsefnum og skáldin og fræðimennirnir færðu í letur hugsanir sínar. Þannig héldu þeir uppi menningarlegu sjálfstrausti fólksins og auðguðu og bættu við bókmenntirnar. Landið, þjóðin og sagan hafa ávallt verið nátengd.

Þeir sem stofnuðu lestrarfélögin gerðu sér grein fyrir því að bókvitið ? fræðslan og þekkingin ? er grundvöllur framfaranna sem áttu að færa fólkinu í landinu aukin og betri tækifæri til þess að afla þeirra nauðsynja sem krafist er hjá siðmenntuðum þjóðum til hins svokallaða mannsæmandi lífs.

Í lögum lestrarfélagsins, frá 1916, kom fram sú hugsjón, að bækurnar ættu að notast sem fræðslumiðill og sem ánægjuauki í lífinu. Þar kom einnig greinilega fram að félagið var hugsað sem brautryðjandi og frá upphafi var gert ráð fyrir því, að hreppsfélagið yrði seinna eigandi að bókum og öðrum eignum sem félaginu tilheyrðu, ef það hætti starfsemi sinni. Þetta var eitt af nauðsynlegustu framfaramálunum í ört vaxandi samfélagi.

Einn úr stjórn lestrarfélagsins var ráðinn bókavörður um haustið 1916. Það var Hannes Jónasson, sem síðar rak bókaverslun í bænum um langa hríð. Hann var gagnfræðingur frá Möðruvallaskóla og fjöllesinn bókamaður og skáld. Hann var ritstjóri ýmissa blaða í bænum og áhugasamur félagsmálamaður. Hann annaðist safnvörsluna til ársins 1932, en það ár voru bindin í safninu orðin 1000.

Hannes ritaði grein um bókasafnið í Einherja árið 1917. Ræðir hann þar m.a. um bókakaup félagsins. ?Bækur þær, sem útgefnar eru nú, eru afar dýrar, og þar sem lítið fé mun vera til bókakaupa, er ekki hægt að kaupa allt, sem út er gefið, þess vegna þarf að velja úr, og það er réttara að fleiri geri en einn. Það er kunnugt að margar merkar útlendar bækur fást með góðu verði, og þar sem svo hagar til hér, að fjöldi manna les dönsku og norsku, virðist liggja nærri að kaupa eitthvað af þeim bókum.?

Um þetta atriði ? bókakaupin ? höfðu verið skiptar skoðanir meðal nefndarmanna. Hannes vildi auka fjölbreytni bókasafnsins og kynna bæjarbúum Norðurlandabókmenntir jafnhliða þeim innlendu. Varð sú skoðun ofaná, og voru slíkar bækur keyptar síðar eftir því sem fé hrökk til.

Þessi árin var safnið opið til útlána aðeins tvo tíma á viku. Á styrjaldarárunum 1914-1918 hefur verið miklum erfiðleikum bundið að treysta fjárhagslega afkomu lestrarfélagsins. Þann 13. desember 1919 var rætt um það í bæjarstjórn Siglufjarðar að bærinn eignaðist bókasafnið og tæki við rekstri þess. Þann 24. janúar 1920 hélt stjórn lestrarfélagsins fund. Fyrir fundinum lá málaleitun frá bæjarstjórn þess efnis að bókasafn félagsins ?yrði lagt til bæjarins og yrði hans eign og yrði svo framvegis starfrækt fyrir bæjarins reikning.? Samþykkt var ?að taka til greina málaleitan bæjarstjórnar. Þar með er lestarfélaginu slitið,? segir í fundargerðinni.

Þegar næsti fundur var haldinn í bókasafnsnefnd 15. júní 1920, var komin ný stjórn, kosin af bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar. Í nýju stjórninni voru aðeins þrír menn í stað fimm áður, en það voru þau Sigurður Kristjánsson, Hannes Jónasson og Guðrún Björnsdóttir. Nefndin samþykkti að selja tíu bækur sem voru til í safninu í tveimur eintökum. Þetta sýnir glöggt hve fjárhagur safnsins var þröngur, þó nú væri það komið í eign Siglufjarðarbæjar. Hannes tók að sér að sjá um útlán bóka, sem aðeins átti að vera fyrst um sinn ein klukkustund, einu sinni í viku, á sunnudögum. En veturinn 1922-23 var útlánstíminn ein klukkustund tvo daga í viku.

Bókasafnið var fyrstu árin í Barnaskólahúsinu. Var því ætlað þar lítið rými. Fjölgun barna í skólanum krafðist þess að allt húsrými yrði notað í þágu skólans, og þess vegna varð safnið að fara þaðan út. Þá var hvergi hægt að fá samastað fyrir það, og árið 1922 flutti Hannes Jónasson það heim til sín í nýbyggt hús við Norðurgötu 9. Þar var það í þrjú ár er það fékk inni í einu herbergi í norðvesturhorni Íslandsfélagshússins við Eyrargötu 5, sem þá var í eigu bindindisfélaganna í bænum. Í þessum húsakynnum var safnið til haustsins 1934. Þá var það flutt á loft hinnar nýbyggðu sóknarkirkju bæjarbúa.

Á lofti kirkjunnar

Hannes Jónasson hætti sem bókavörður 1932. Eftir það er ekki vitað hver hefur annast safnið því ekki eru til fundargerðir fyrir tímabilið 1932-1938. Á kirkjuloftinu var safninu ætlað eitt stórt herbergi. Þar var það til ársins 1937. Á þessum tíma virðist hafa verið lítill áhugi fyrir þessari starfsemi, enda ríkti þá heimskreppan mikla og atvinnuleysi og fátækt settu mark sitt á bæjarlífið. Pólitískar öldur risu þá hátt í bænum og miklar erjur voru með mönnum. Stjórnmálaforingjarnir hafa sennilega sett önnur mál ofar en safnið. Á árunum 1935, 1936 og 1937 fékk bókasafnið engan rekstrarstyrk frá kaupstaðnum svo ekkert hefur verið hægt að gera til viðhalds eða aukningar á bókakosti safnsins.

Sigurður Björgólfsson kennari og rithöfundur skrifaði grein um bókasafnið í blaðið Siglfirðing 23. febrúar 1935. Í upphafi greinarinnar segir hann: ?Eitt af því er bráðast kallar að í þessum bæ og þarf skjótra og röggsamlegra umbóta og gagngerðrar skipulagningar er bókasafn bæjarins. Ég býst við, að ekki sé nauðsynlegt að útskýra það hér, hvílíkur menningarauki og menningarnauðsyn gott bókasafn væri bænum, bókasafn, sem dálítill veigur væri í og stjórnað væri með dugnaði og áhuga.? Rekur hann því næst hve mjög safnið hafi verið vanrækt af forsvarsmönnum þess og bæjarstjórnendum. ?Allur vandinn hefur legið á bókaverðinum, og hið litla, er gert hefur verið fyrir safnið hefur hann gert.? Telur hann upp hve lítið fé hafi verið veitt til þessa menningarstarfs. Mest hafi verið lagt til safnsins eitt þúsund krónur á ári, og af þeirri upphæð hafi átt að greiða allan kostnað, svo sem bókakaup, húsaleigu, ljós og hita og svo kaup bókavarðar o. fl. ?Allt hefur þetta því orðið kák eitt, og ber safnið þess glöggan vott að til þess hefur algjörlega verið kastað höndunum. Safnið má heita algjörlega ósamstætt rusl, og svo lítið að vöxtum að furðu gegnir, eftir að hafa veri undir handarjaðri bæjarstjórnar og bókasafnsnefnda hennar í 16 ár.? Sigurður tekur fram, að æskumenn bæjarins þurfi að eiga athvarf í lestrarsal sem væri í bókasafninu, til þess að auka menntun sína með sjálfsnámi í bókmenntum sem væru yfirgripsmeiri en námsbækur skólanna. Telur hann að hægt væri að koma upp lestraraðstöðu í húsnæði safnsins á kirkjuloftinu.

Svo virðist sem ?reiðilestur? Sigurðar hafi komið hreyfingu á mál bókasafnsins, en þó ekki strax. Síðari hluta ársins 1936 var Pétur Á. Brekkan ritstjóri fenginn til að gera úttekt á safninu og hafa umsjón með því. Hann var bókavörður fram á árið 1939. Talið er að Steingrímur Einarsson læknir hafi fengið Pétur til þess að taka þessi störf að sér, enda var Steingrímur í bókasafnsnefndinni.

Haustið 1937 þurfti gagnfræðaskólinn á öllu kirkjuloftinu að halda, því þá var bætt 3. bekk við skólann. Var þá safnið flutt á nýjan leik og komið fyrir í einni stofu í húsinu Aðalgötu 25. Þetta var bráðabirgðaráðstöfun og alls ekki hugsuð til frambúðar. Bæjarstjórnin kaus nýja bókasafnsnefnd 8. febrúar 1938 og voru þessir menn í henni: Pétur Björnsson, Sigurður Björgólfsson og Angantýr Guðmundsson. Þessi nýja nefnd hóf störf strax, og átti eftir að láta mikið að sér kveða.

Merkilegt safn keypt

Með bréfi dagsettu 19. apríl 1938 til fjárhagsnefndar Siglufjarðarkaupstaðar vekur bókasafnsnefndin máls á því að til sölu sé hið merkilega og mikla einkabókasafn Guðmundar Davíðssonar á Hraunum í Fljótum. Safn þetta fáist fyrir ?gjafverð?. Nefndin hvatti til þess að safnið yrði keypt því þarna væri einstakt tækifæri til þess að eignast stórt safn fágætra og ágætra bóka. Fjárhagsnefndin brá skjótt við og hélt fund um þetta mál daginn eftir, 20. apríl, og samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun: ?Fjárhagsnefndin óskar eftir að bókasafnsnefnd skoði bókasafn Guðmundar Davíðssonar og skili um það skýrslu til fjárhagsnefndar. Telji bókasafnsnefnd þá hyggilegt að kaupa safnið, er fjárhagsnefnd meðmælt að það verði keypt.?

Þessi fundargerð var samþykkt á bæjarstjórnarfundi 26. apríl. Samkvæmt þessum samþykktum fóru þeir Sigurður Björgólfsson og Pétur Á. Brekkan til Hrauna, skoðuðu safnið nákvæmlega og gáfu skýrslu um það í bréfi 13. maí og mæltu eindregið með kaupum á því. Guðmundur á Hraunum lagði fram staðfestingu á tilboði sínu í bréfi dagsettu 24. maí 1938 og sagði bindatöluna vera um 5300 og söluverð bókanna allra 5.500 kr. Þann 2. júní voru þessi kaup samþykkt í bæjarstjórninni. Var síðan hafist handa við flutning á Hraunasafninu. Bókavörður skrásetti allar bækur safnsins og var bókaskráin prentuð vorið eftir. Kaupin á Hraunasafninu sköpuðu trausta undirstöðu núverandi safns, og var það mikil heppni að ná þannig í fjölda bóka sem óhugsandi hefði verið að eignast síðan, þar á meðal ómetanlegar gersemar.

Nú lagði bókasafnsnefndin mikla áherslu á vaxandi fjárþörf til reksturs safnsins og að aðkallandi væri að fá stærra húsnæði. Bæjarstjórnin tók á leigu húsnæði að Eyrargötu 3, sem var nýbyggt steinhús. Bókasafnið fékk þar þrjár stofur á neðstu hæð. Um haustið 1939 var safnið flutt. Þann 16. nóvember var samþykkt í bæjarstjórninni að ráða Gísla Sigurðsson sem bókavörð við bókasafnið. Þar með hófst hinn langi og farsæli starfsferill hans á þessum vettvangi.

Bókasafnsnefndin var óánægð með húsnæðið að Eyrargötu 3 og kvartaði yfir því að það væri óhentugt og of lítið og vildi fá annað betra og stærra húsrými. Taldi hún sig hafa verið sniðgengna er ráðið var fram úr húsnæðismálunum. Einnig vildi hún fá ?óskorað vald til þess að ráðstafa málum safnsins eftirleiðis, svo komist verði hjá árekstrum framvegis.? Bæjarstjórinn, Áki Jakobsson, mætti á fund nefndarinnar 17. október 1940 og bar fram ásakanir á nefndina ?um slælega unnin störf í þágu bókasafnsins.? Sem svar við kvörtunum bæjarstjórans taldi nefndin ?að bæjarstjórn hafi á síðastliðnum vetri, gripið á þann hátt inn í verksvið nefndarinnar, að hún hafi ekki verið nema að litlu leyti sjálfráð gerða sinna.? Á fundinum var ákveðið að semja nýja reglugerð fyrir bókasafnið, svo skýrt kæmi fram hvernig stjórn og störfum skyldi hagað. Í nóvember tók bókasafnsnefndin fyrir uppkast að reglugerðinni, sem bæjarstjóri hafði samið, og hafði hún margt við það að athuga. Þarna kom fram að bókasafnsnefndin var í reglugerðinni kölluð ?stjórn bókasafnsins? og hefur hún gengið undir því nafni síðan. Á árinu 1941 var farið að taka útlánsgjöld af lánþegum safnsins. Var það fyrsta árið aðeins ein króna. Síðan hafa verið tekin lág útlánsgjöld.

Hugað að húsbyggingu

Þegar kom fram á árið 1944 taldi stjórn bókasafnsins að húsnæðið að Eyrargötu 3 væri orðið alltof lítið. Ekki væri hægt að nýta allar bækurnar til útlána. Þann 11. mars 1944 var svohljóðandi samþykkt send bæjarstjórninni: ?Bókasafnsstjórn leggur til, að byggt verði yfir Bókasafnið á komandi sumri, og leyfir sér að benda á að byggt verði á gatnamótum Gránugötu og Lækjargötu, ein hæð og stærð hússins miðuð við þarfir bókasafnsins næstu 10 ár, og mætti ekki vera minna hús en 14×14 metrar.?

Þarna kom fram, í fyrsta sinn, ósk um framtíðar húsakost fyrir bókasafnið. Ári síðar hafði ástandið þó ekkert lagast og lagði bókasafnsstjórnin þá til að keypt yrði öll neðsta hæðin í Eyrargötu 3. Var svo horfið að því ráði og fékkst þar með eitt herbergi til viðbótar, sem áður var undanskilið.

Í ársbyrjun 1946 var Benedikt Sigurðsson kennari kosinn í stjórn safnsins. Tók hann þá við ritarastörfum af Sigurði Björgólfssyni og gegndi þeim í fjörutíu ár, þar til hann var kosinn formaður árið 1986. Hann hefur lengst allra verið í stjórn bókasafnsins.

Til boða stóð stærra húsnæði í ársbyrjun 1947 í Aðalgötu 25. Var það öll hæðin, sem Útvegsbankinn var þá nýlega fluttur úr. Var leigusamningur um það húsnæði undirritaður á fundi 25. apríl. Bókasafnið var svo flutt í umrætt húsnæði í júní.

Þegar kom fram á árið 1949 lenti bæjarfélagið í miklum fjárhagserfiðleikum, vegna síldarleysis. Þannig var einnig mörg næstu árin. Þetta gekk út yfir rekstur bókasafnsins. Á fundi safnsstjórnarinnar 4. desember 1949 var lagt fram bréf frá bæjarstjóra, þar sem tilkynnt var eftirfarandi samþykkt allsherjarnefndar: ?Nefndin samþykkir, að með tilliti til hins erfiða fjárhags Siglufjarðarkaupstaðar, sé ekki fært að heimila Bókasafnsnefnd kaup á nýjum bókum fyrst um sinn.? Á þessum sama fundi allsherjarnefndar var samþykkt ?að skora á bókasafnsnefnd, að hún hlutist til um, að Bókasafn Siglufjarðar haldi saman dagblöðunum, Alþýðublaðinu, Morgunblaðinu, Tímanum og Þjóðviljanum, og láti binda þau inn, ef tök eru.? Hefur þetta verið gert fram að þessum tíma, en hinn mikli blaðakostur er fyrirferðarmikill og tekur mikið rými. Auk þessara blaða á safnið öll fáanleg blöð sem hafa komið út á Siglufirði, flest innbundin.

Í júní 1954 fékk bókasafnsstjórnin tilboð um að selja eða skipta á nokkrum gömlum guðsorðabókum, þar á meðal fyrstu útgáfu Passíusálmanna (en þeir voru úr safni Guðmundar á Hraunum). Var þetta mál til athugunar hjá safnstjórninni og var leitað álits sérfræðinga um verð slíkra bóka. Á fundi í ágúst samþykkti stjórnin að engar bækur yrðu seldar úr safninu fyrst um sinn. Komið hafði til greina í þessum umræðum að gefa Siglufjarðarkirkju gömlu Passíusálmana. Á fundi bókasafnsstjórnar 13. nóvember 1954 var tekið fyrir bréf frá bæjarstjóra þar sem tilkynnt er ?að bæjarstjórn hafi hafnað tilmælum bókasafnsstjórnar um að gefa Siglufjarðarkirkju eintak safnsins af 1. útgáfu Passíusálmanna.? Þá segir í samþykkt bæjarstjórnar að hún telji rétt ?að safnið eigi allar sínar bækur og að engu sé fargað af þeim bókakosti, sem safninu hefur áskotnast.?

Þetta var hin heppilegasta lausn málsins því það hefði verið óbætanlegt tjón fyrir safnið að selja slíka dýrgripi, þótt hátt verð væri í boði. Það hefur síðan verið föst regla að safnið léti hvorki eitt né neitt af hendi af bókakosti sínum, þó oft hafi síðan verið falast eftir fágætum bókum, ýmist í skiptum eða gegn gjaldi. Það er stolt Siglfirðinga að safnið varðveiti ómetanlega bókadýrgripi sína framvegis.

   

Byggingamál enn á dagskrá

Það var alltaf mikið baráttumál bókasafnsstjórnarinnar að byggt yrði framtíðarhús yfir hið sívaxandi safn. Bókafulltrúi ríkisins, Guðmundur G. Hagalín, beitti sér fyrir nýrri löggjöf sem ætlað var að stórauka framlög til bókasafnsbygginga. Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra var mjög velviljaður þessu. Stjórn bókasafnsins skoraði á þingmenn kjördæmisins, haustið 1956, að styðja framgang þessa frumvarps. Bókafulltrúinn var mjög áhugasamur um bókasafnsbyggingu á Siglufirði.

Í árslok 1959 er bókað í gerðabók safnsstjórnar að loforð sé fengið fyrir ríkisstyrk á næsta ári til byggingarinnar, gegn því að kaupstaðurinn leggi fram fé á móti og leggi til lóð fyrir húsið. Á fundi safnsstjórnar 30. mars 1960 lýsti Sigurjón Sæmundsson bæjarstjóri áhuga sínum á því að koma upp, sem fyrst, framtíðarhúsnæði fyrir safnið. Skýrði hann frá því að vonir stæðu til að framlög fengjust á næstu tveimur árum úr ríkissjóði. Þá tilkynnti hann að Sigurjón Sveinsson arkitekt væri að teikna fyrirhugaða ráðhúsbyggingu og þar væri gert ráð fyrir húsnæði bókasafnsins á neðstu hæðinni. Alla sína vinnu vildi Sigurjón Sveinsson gefa bænum, og yrði hann til ráðuneytis við bygginguna. Þetta var mikil og góð gjöf. Hafist var handa við framkvæmdirnar í ágústmánuði 1961. Byggingarmeistari var ráðinn Þórarinn Vilbergsson, en margir aðrir verktakar og iðnaðarmenn unnu að þessum framkvæmdum.

Leigusamningur um húsnæðið í Aðalgötu 25 hafði verið framlengdur frá ári til árs. En í ársbyrjun 1964 tilkynnti eigandinn, Pétur Björnsson, að hann væri búinn að leigja öðrum aðila húsnæðið frá 1. apríl það ár. Þetta knúði á um frágang á nýja húsinu. Eftir að hæðin hafði verið máluð var allur bókakosturinn fluttur í bókasafnshúsið til geymslu.

Húsið vígt

Þann 14. nóvember 1964 fór fram vígsla hins nýja húss. Bæjarstjórinn, Sigurjón Sæmundsson, ræddi um hlutverk bókanna í menningu Íslendinga og gildi bókasafna. Síðan lýsti hann tildrögum og framkvæmd bókasafnsbyggingarinnar og þakkaði öllum þeim sem að framkvæmdum höfðu staðið. Hann afhenti síðan stjórn bókasafnsins húsnæðið til fullra umráða og afnota. Varaformaður bókasafnsstjórnar, Óli J. Blöndal, þakkaði bæjarstjórn og bæjarstjóra fyrir það framtak í þágu menningarmála bæjarins sem sýnt hefði verið með byggingu hússins. Gísli Sigurðsson bókavörður rakti sögu safnsins, lýsti bókaeign þess og sagði frá gjöfum sem safninu höfðu borist.  Þar sem nú voru opnar lesstofur og störfin höfðu sífellt verið að aukast var heimilað að ráða aðstoðarmann í hlutastarf. Sigurlaug Jóhannsdóttir var ráðin og tók hún einnig að sér ræstingu hússins.

Á fundi safnsstjórnarinnar 1. júlí 1966, var samþykkt að senda Pétri Björnssyni, sem þá var fluttur úr bænum, skrautritað þakkarávarp, fyrir langt og óeigingjarnt starf í þágu Bókasafns Siglufjarðar í samfellt 28. ár.  Á þessum sama fundi afhenti varaformaður Gísla Sigurðssyni skrautritað þakkarávarp fyrir trúmennsku í starfi í 25 ár. Bókavörður þakkaði gjöfina og ánægjulegt samstarf á liðnum árum. Nýkjörin stjórn kom saman 3. október 1966. Þar var Þ. Ragnar Jónasson kosinn formaður í stað Péturs Björnssonar og jafnframt gjaldkeri safnsins. Gengdi hann formannsstörfum til 1982 eða í 16 ár.

Fyrstu árin eftir að bókasafnshæðin var fullfrágengin hélt bæjarstjórnin fundi sína þar. Tvær hæðir voru síðar byggðar ofan á neðstu hæðina, samkvæmt upphaflegum teikningum af ráðhúbyggingunni. Á efstu hæðinni eru nú skrifstofur Siglufjarðarkaupstaðar. Bókasafnið hefur hálfa miðhæðina fyrir söfn sín, en þar er einnig fundarsalur bæjarstjórnar, sem jafnframt verður notaður sem sýningarsalur listaverka o.fl.

Bókasafnsstjórn lét gera ljósprentanir af gömlum kirkjubókum Siglufjarðar sem komnar voru til geymslu í Þjóðskjalasafninu. Þetta var kostað af safninu í nokkur ár, og er nú svo komið að þær eru allar í skjalasafni Siglufjarðar.

Gísli Sigurðsson bókavörður varð sjötugur þann 20. maí 1975. Sagði hann starfi sínu lausu frá og með 1. september. Í lok ágúst afhenti Gísli stjórninni safnið. Í ræðu sem hann hélt þakkaði hann samstarfið í þau 36 ár sem hann hafði gegnt þessu starfi. Rakti hann í stuttu máli þróunarsögu safnsins sem hann taldi að væri orðið nálægt 30 þúsund bindi. Bjarni Þór Jónsson bæjarstjóri þakkaði Gísla í nafni bæjarstjórnarinnar og Þ. Ragnar Jónasson formaður bókasafnsstjórnar þakkaði bókaverði allan þennan langa starfstíma. Var Gísli leystur út með gjöfum. Í starf bókavarðar kaus bæjarstjórnin Óla J. Blöndal.

Stjórn bókasafnsins taldi nauðsynlegt að koma upp löggiltu héraðsskjalasafni fyrir Siglufjarðarkaupstað. Hafði safninu borist allmikið af gömlum skjölum sumarið 1978, sem Frosti Jóhannsson hafði safnað fyrir bæjarstjórnina. Auk þessa hafði bókasafnið eignast ýmislegt, á löngum starfstíma, sem ætti heima í slíku safni. Bæjarstjórnin samþykkti 7. júlí 1978 að fela bókasafnsstjórn og bókaverði að koma upp skjalasafni fyrir bæinn og hefja þegar undirbúning þess.

Á þessu sumri var tekin upp hljóðbókaþjónusta í samvinnu við Borgarbókasafnið í Reykjavík. Lionsklúbbur Siglufjarðar gaf safninu fjögur segulbandstæki, sem hægt er að lána út til sjónskertra manna í bænum eða aðra sem erfitt eiga með lestur.

Óli J. Blöndal bókavörður hreyfði þeirri hugmynd í stjórn bókasafnsins að koma þyrfti upp í safninu minningarherbergi um séra Bjarna Þorsteinsson. Þessari hugmynd var vel tekið, því telja má hann upphafsmann að stofnun bókasafnsins. Bókavörður hafði kynnt sér það að hægt væri að fá ýmsa persónulega muni séra Bjarna í þetta herbergi.

Myndlist, skjöl og tónlist

Þann 16. júní 1980 gáfu hjónin Arngrímur Ingimundarson og Bergþóra Jóelsdóttir Siglufjarðarkaupstað einstæða stórgjöf. Voru það 124 málverk eftir 69 listamenn, innlenda og erlenda. Gjöfin var afhent við hátíðlega athöfn í Ráðhúsinu að viðstöddu fjölmenni. Síðar fól bæjarstjórnin bókasafnsstjórninni þetta mikla safn, ásamt öðrum listaverkum bæjarins til varðveislu. Eru þau vel geymd í húsakynnum safnsins.

Í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar frá 1978 um skjalasafn í sambandi við bókasafnið fór safnsstjórnin fram á það að ráðinn yrði aðstoðarmaður til þess að undirbúa og vinna að þessu verkefni. Benti hún á að starfsmenn bókasafnsins hefðu ærið nóg að starfa þar, enda vinnukraftur minni en í öðrum hliðstæðum söfnum. Var ákveðið að ráða Þ. Ragnar Jónasson frá 1. ágúst 1980 í hlutastarf um óákveðinn tíma til þess að raða upp skjalasafninu, skrásetja það og færa í spjaldskrá hið mikla tímaritasafn.

Eftir bæjarstjórnarkosningarnar 1982 var kosið í stjórn bókasafnsins, samkvæmt venju. Á fyrsta fundi stjórnarinnar var Halldóra S. Jónsdóttir kosin formaður til næstu fjögurra ára.

Þar sem bæjarstjórnin hafði staðfest samþykktir bókasafnsstjórnar um Héraðsskjalasafn og Bjarnastofu var unnið að breytingum á húsnæði safnsins. Hluti miðhæðarinnar í húsinu var tekinn undir skjalasafn, tímaritasafn og málverkageymslu. Auk þess er góð aðstaða þar fyrir þá sem leita vilja heimilda í söfnunum um hin fjölþættustu efni.

Á neðri hæðinni var komið upp hinni nýju Bjarnastofu og tónlistardeild í tenglsum við hana og bókasafnið. Í Bjarnastofu eru skrifborð og aðrir húsmunir úr heimili séra Bjarna. Þar er orgelið hans, nótur, handrit, bækur, myndir og margt fleira. Til þessara framkvæmda þurfti talsvert fé, sem ekki mátti taka frá rekstri safnsins. Hafði Óli J. Blöndal bókavörður veg og vanda af allri fjárútvegun, og sá hann um allan undirbúning og framkvæmd verksins.

Þann 18. ágúst 1984 voru Bjarnastofa og Héraðsskjalasafn Siglufjarðar opnuð og vígð, með fjölbreyttri dagskrá, að viðstöddum mörgum afkomendum séra Bjarna og fjölda bæjarbúa. Var þetta um leið minningarhátíð séra Bjarna Þorsteinssonar tónskálds. Hann var um langt skeið aðalforystumaður Siglfirðinga í andlegum og veraldlegum málum. Séra Bjarni safnaði íslenskum þjóðlögum og sá um útgáfu þeirra, með frábærri elju og fórnfýsi. Hann færði þannig þjóð sinni ómetanlegar söngbókmenntir. Hann auðgaði einnig kirkjutónlistina með snilldarverkum, og ungir og aldnir syngja lögin hans fögru.

Verðmæt söfn

Bókasafn Siglufjarðar hefur notið mikilla vinsælda meðal bæjarbúa og margir hafa gefið því stórgjafir í bókum og tímaritum. Sparisjóður Siglufjarðar hefur styrkt það á mjög myndarlegan hátt og ýmsir aðrir hafa stutt það fjárhagslega þegar um sérstök viðfangsefni hefur verið að ræða. Þróun bókasafnsins hefur verið nokkuð sveiflukennd, eftir fjárhagsgetu bæjarins hverju sinni. En það hefur eflst mjög mikið hina síðustu áratugi og er nú talið vera um fjörutíu þúsund bindi.

Með stofnun Hérðasskjalasafns, Bjarnastofu og Málverkasafns hefur starfsvettvangurinn breikkað mikið. Þetta hefði varla getað orðið að veruleika ef hið góða húsnæði hefði ekki verið fyrir hendi. Grunnflötur þess húsnæðis, sem söfnin hafa til afnota nú er 540 fermetrar og er það fullnotað.

Siglufjarðarkaupstaður á mikil verðmæti þar sem umrædd söfn eru. Þau eru ekki einungis peningaleg verðmæti heldur einnig mikilsverður hyrningarsteinn í menningu bæjarfélagsins og ein virðulegasta stofnun þess og stolt íbúanna.

Bókasafn Fjallabyggðar, Siglufirði, 2011.

   

Forsíðumynd: Fengin af Netinu.

Mynd úr bókasafni: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Þ. Ragnar Jónasson. Úr bókinni Siglfirskir söguþættir, 1997. Samið í tilefni af 75 ára afmæli bókasafnsins, 1986. Endurbirt hér með leyfi.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is