Þ. Ragnar Jónasson: Aftur kemur vor í dal


Það líður að vetrarsólhvörfum. Skammdegismyrkrið grúfir yfir byggð og bæ. Þar sem sólin sést eru áhrif hennar hverfandi. Geislarnir eru því sem næst láréttir og hiti þeirra og birta skammvinn. Ég sit við gluggann og horfi út í síðdegishúmið. Úti ?dynur hríðin svo bitur og köld,? snjókornin hlaðast upp í skafla og það glitrar á ?hina hreinu skæru mjúku mjöll.?

Ég nýt heimilishlýjunnar. Nú er það ekki heimilisarinn sem gefur frá sér hita og hugnæm geðhrif, heldur varminn úr iðrum jarðar í Skútudal og rafaflið úr Skeiðsfossi í Fljótum. Tæknin skapar lífsþægindin.

Engin sólarglæta nær að lýsa innan við fjallahringinn háa sem skýlir Siglufirði og vefur hann örmum sínum. Þann 15. nóvember hvarf vetrarsólin að venju á bak við Blekkilsfjall. Eftir það bregður aðeins fyrir daufu skini á Hafnarhyrnu og Hestskarðshnjúk, þegar létt er í lofti um hádegisbil. Roðaslikja endurvarpast snöggvast niður á milli fjallanna, á meðan hinn stutti skammdegisdagur líður yfir norðurhvel jarðar.

Á næturþeli skín máninn hátt á himni og varpar frá sér töfrabirtu yfir vetrarlöndin hvítu, þar sem hvergi sér á dökkan díl. Ótal tilbrigði í glitrandi bláum og silfurgráum litum og misdökkum skuggum í dældum og giljum gera landslagið torráðið og dularfullt. Fjörðurinn merlar í mánaskini og leiftrandi norðurljósalogar skreyta dimmblátt himinhvolfið með mögnuðu sjónarspili.

Því nær sem dregur sólhvarfamörkum verður rökkrið langvinnara og dimmara, en þó er verkljóst um stund á hverjum degi. Að liðnum sólhvörfum, 21.-22. desember, byrjar að birta á ný, hægt en örugglega. Daginn fer að lengja um hænufet í senn uns að því kemur að sólskinið vitjar okkar á ný þann 28. janúar, á sólardaginn. Þá skín björt og fögur vetrarsól á ný yfir Hólshyrnu eftir 74 daga hlé og fagnað er í bænum.

Úlfsdalafjöll að vestan og Siglunesmúli og Staðarhólsfjöll að austan, taka af okkur mörg ofviðrin að vetrarlagi, þó hart geysi veður í víðari héruðum og á norðurhöfum. En í myrkri skammdegisins, þegar hinn napri norðaustanstormur feykir snjókomunni fyrir Nesnúp, yfir Siglunes, inn á Siglufjörð og síðan áfram inn yfir tröllafjöllin miklu, þykir mörgum gerast þröngt fyrir dyrum og áhyggjur hlaðast upp. Þetta tilheyrir árstíðinni hér og svo er einnig um gjörvallt okkar ágæta land. Mjög finnst þó sumum að erfitt tíðarfar ásamt heimskautamyrkri reyni á andlegt þrek sitt. Öðrum líkar þessi tími einkar vel og telja hann hinn æskilegasta til afþreyingar, hvíldar og andlegra starfa. Félags- og menningarmál dafna en annríkið úti og inni er í lágmarki.

Eftir syndaflóðið mikla, forðum daga, gerði Guð sáttmála við Nóa gamla, forföður okkar allra: ?Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.? Og Guð setti regnbogann í skýin, sem staðfestingu á sáttmála þessum.

Árstíðirnar ganga sinn fasta hring og stöðugt skiptast á skin og skúrir, og ávallt mun ?hið blíða, blandað stríðu.? Sífellt skiptist á gott og illt, vorhugur og vetrarkvíði, en alltaf lýsir af nýjum og björtum degi, eftir myrkur næturinnar ? eða eins og segir í ljóði Freysteins Gunnarssonar:

Þó að æði ógn og hríðir,

aldrei neinu kvíða skal.

Öll él birtir upp um síðir,

aftur kemur vor í dal.

Sumardýrðin með dásemdum náttúrunnar tekur brátt völd á ný í þessari byggð við sjó fram. Geislar sumarsólar gylla himinhá fjöllin í blíðviðrum hinnar björtu árstíðar svo að fjörðurinn allur verður ein sólskinskista.

Í nóttleysum sólmánaðar skarta fjöll og dalir óteljandi litbrigðum og hafflöturinn verður sem lýsigull kvölds og morgna. Hvað jafnast á við lognkyrrð og fegurð árla sumarmorguns þegar tignarlegir fjallatindar og grónar hlíðar standa á höfði í fagurskyggndum firðinum?

Þá eru bætt öll vetrarmein.

Sólin að hverfa á braut. Myndin er tekin 15. nóvember 2010 kl. 13.45.


Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Þ. Ragnar Jónasson. Úr bókinni Siglfirskir söguþættir, 1997.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is