Terónarnir þrír


Í gærkvöldi hélt MS GRM tónleika í nýja, stórglæsilega menningarhúsinu
Hofi á Akureyri, en áhöfnina skipa Gylfi Ægisson, Rúnar Þór og Megas.
Tilefnið var það að kynna nýja hljómplötu og fylgja henni eftir. Léku
þeir félagar mörg af sínum þekktustu lögum ásamt flottri hljómsveit sem skipuð
var Magnúsi Ásvaldssyni trommuleikara, Albert Ásvaldssyni gítarleikara
og Birgi Kárasyni bassaleikara.

Um 400 manns sem þangað höfðu lagt leið
sína til að berja einfarana þrjá augum í einni grúppu skemmtu sér alveg
konunglega og var bandið klappað upp í tvígang í lokin.

Rúnar Þór upplýsti að kona ein sem á þá hafði hlýtt í Austurbæjarbíói á
dögunum hefði haft á orði, að það væri ekki hægt að segja að þetta væru
tenórarnir þrír, það væri nokkuð augljóst, heldur væri nær að segja að þarna væru á ferðinni terónarnir þrír, enda núna hættir annarri og sterkari drykkju, sem einkenndi þá alla sem einn á fyrri árum.

Og einkunnin fyrir gærkvöldið? Tíu störnur af fimm mögulegum.

Hér koma nokkrar myndir.

Umslag nýju hljómplötu áhafnarinnar á MS GRM.

Þremenningarnir komnir á sviðið.

Um 400 manns skemmtu sér alveg konunglega.

Rúnar Þór, Megas og Gylfi fluttu mörg sinna þekktustu laga í nýjum útsetningum.

Gylfi fagnaði þarna 64 ára afmæli sínu.

?Lóa, Lóa, Lóa …?

Stjórnstöðin er engin smásmíði.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is