Tennis í Fjallabyggð


Í Íþróttamiðstöðinni í Ólafsfirði fara fram tennisæfingar tvisvar sinnum í viku. Þar æfa að staðaldri sextán krakkar, bæði frá Ólafsfirði og Siglufirði.

Sunnudaginn 20. febrúar síðastliðinn fóru fram tennisæfingar í Íþróttamiðstöðinni, á vegum Tennis- og badmintonfélags Siglufjarðar, þar sem landsliðsþjálfarinn, Raj Kumar Bonifacius, mætti og kenndi krökkunum og þjálfara þeirra, Axel Pétri Ásgeirssyni. Fjórtán krakkanna sem æfa gátu mætt og var námskeiðið mjög vel heppnað.

Raj, sem er af bandarískum og indverskum uppruna, hefur búið á Íslandi í meira en átján ár og verið lengi í landsliði Íslands í tennis og þjálfað liðið.

Eftir tenniskennslu og æfingar fór fram tveggja tíma kynning á hafnarbolta, en auk þess að kenna tennis í Reykjavík, kennir Raj og þjálfar hafnarbolta.

Mánudaginn 21. febrúar voru síðan Raj og Axel Pétur í tveimur íþróttatímum í Íþróttamiðstöðinni þar sem fleiri krökkum og íþróttakennurum þeirra voru sýndar tennisæfingar sem nota mætti til að auka fjölbreytni í íþróttatímum.

Myndir og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is