Systrafélag Siglufjarðarkirkju


Systrafélag Siglufjarðarkirkju hefur lengi verið til í bænum okkar en frá upphafi starfað utan við geisla kastljóssins. Það var stofnað í Æskulýðsheimilinu 27. nóvember árið 1968 að frumkvæði Auðar Guðjónsdóttur, eiginkonu séra Kristjáns Róbertssonar. Alls mættu 43 konur á þann fund. Markmið Systrafélagsins er og hefur alltaf verið að hlúa að kirkjunni og vekja áhuga á öllum þeim málum sem félagið á hverjum tíma telur að geti orðið Siglufjarðarkirkju til góðs.

Jólakortasala hefur verið hjá félaginu síðan 1969 og merki kirkjunnar hafa verið seld í kring um afmæli hennar, sem er 28. ágúst. Hafa bæjarbúar ávallt tekið vel á móti Systrafélagskonum.

Alltaf er verið að betrumbæta safnaðarheimilið og hefur Marlis Sólveig Hinriksdóttir tækniteiknari, ekkja Hafsteins Sigurðssonar, verið þar mikil hjálparhella, en hún hannaði herbergið fyrir framan salinn og einnig baðstofuna (herbergið að vestan) sem tekið var í notkun 2008 og sáu Marlis og Brynja Stefánsdóttir um að kaupa húsgögn og fleira fyrir félagið.

Sem dæmi um gjafir frá Systrafélaginu í gegn um tíðina mætti nefna tvo útskorna stóla í kór kirkjunnar sem gefnir voru 1970 en þá smíðaði Hjörtur Ármannsson. Hinir tveir voru síðar, eða 31. desember 1975, gefnir kirkjunni af Jóni Kjartanssyni og Þórnýju Tómasdóttur, börnum þeirra og tengdabörnum, til minningar um frú Jónínu Tómasdóttur (31.12. 1875-05.12. 1967) og Kjartan Jónsson byggingameistara (06.06. 1871-27.10. 1927).

Árið 1971 gaf félagið fána á kistur fyrir jarðarfarir og einnig moldarker og reku.

Eldra handriðið við útitröppur kirkjunnar, sem tekið var niður þegar núverandi handrið var sett upp, var smíðað og sett upp í maí 1975. Systrafélagið átti einnig drjúgan þátt í að koma upp steindum gluggum í kirkjuna. Ljósakrossinn í nýja kirkjugarðinum var gefin 1992. Skenkur uppi í safnaðarheimili var gefinn 2003 og félagið gaf allan borðbúnað til safnaðarheimilisins. Og á 75 ára afmæli kirkjunnar 2007 færði félagið henni eina milljón króna að gjöf. Og er þá bara fátt eitt upp talið.

 

Og ekki má gleyma því að áratugum saman hafa Systrafélagskonur farið á fætur fyrir allar aldir til að undirbúa súkkulaði og aðrar veitingar að morgni páskadags, og tekið á móti kirkjugestum uppi í safnaðarheimili eftir messuna kl. 08.00 með hlaðin borðin.

Óhætt er að segja að það væri æði snautlegt um að litast í og við kirkjuna okkar ef þessara fórnfúsu handa hefði ekki notið við.

Stjórn Systrafélagsins 2011 er svona skipuð: Brynja Stefánsdóttir formaður, Sigurlaug Ragna Guðnadóttir gjaldkeri, Margrét Ósk Harðardóttir ritari, Magna Salbjörg Sigbjörnsdóttir varagjaldkeri, Erla Svanbergsdóttir vararitari, Júlía Birna Birgisdóttir varaformaður, Elín Gestsdóttir meðstjórnandi og Guðrún Björnsdóttir meðstjórnandi. Fráfarandi úr stjórn eru Dagný Finnsdóttir gjaldkeri og Brynja Hafsteinsdóttir varaformaður. Endurskoðendur eru Anna Lára Hertervig og Anna Snorradóttir.

Við þetta er bæta að félagsgjöld eru engin og hafa aldrei verið.

Sjá nánar um félagið hér.

Systrafélagskonur gáfu tvo af fjórum glæsistólum Siglufjarðarkirkju, um jólin 1970.

Hér má sjá merkinguna, undir setunni.

Og ljósakrossinn í nýja kirkjugarðinum á Saurbæjarásnum var gefinn árið 1992.

Hvað skyldu margir bæjarbúa hafa vitað það?

Núverandi stjórn félagsins.

Aftari röð frá vinstri:

Magna Salbjörg Sigbjörnsdóttir, Erla Svanbergsdóttir, Júlía Birna Birgisdóttir,
Elín Gestsdóttir og Guðrún Björnsdóttir.

Fremri röð:

Sigurlaug Ragna Guðnadóttir, Brynja Stefánsdóttir og
Margrét Ósk Harðardóttir.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is