Svipmyndir úr ráðhúsi


Í gær kl. 17.00 var Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2011, Örlygur Kristfinnsson, heiðraður við athöfn í Ráðhúsinu á Siglufirði. Undirritaður var bundinn annars staðar á þeim tíma, sbr. fréttina hér á undan, en Sveinn Þorsteinsson tók að sér að mynda það sem fyrir augu bar.

Siglfirðingur.is hefur fengið góðfúslegt leyfi Söndru Finnsdóttur, formanns menningarnefndar Fjallabyggðar, til að birta ræðu hennar.

Hún er á þessa leið:

Kæru gestir, verið velkomin.

Við erum saman komin í tilefni þess að menningarnefnd hefur valið Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2011. Markmiðið
með því að tilnefna bæjarlistamann ár hvert er að hvetja og auka áhuga á
listsköpun og bæta menningarlíf íbúa. Um leið er það viðurkenning
bæjaryfirvalda á því að sköpun og list skipti samfélagið máli. Slík nafnbót er
jafnframt auglýsing á listamanninum og sveitarfélaginu.

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2011 er
Örlygur Kristfinnsson, safnstjóri, rithöfundur, myndlistarmaður,
hönnuður, kvæðamaður og lífskúnstner. Það var einróma samþykkt af
menninganefnd að veita Örlygi þessa viðurkenningu þegar að þessu vali
kom.

Örlygur hefur verið áberandi í lista- og menningarlífi Siglufjarðar um áratuga skeið og er því bæjarbúum vel kunnur.

Stærsta og mesta listaverk Örlygs er
án efa Síldarminjasafnið. Uppbygging og hönnun þess hefur alla tíð verið
undir öruggri forustu hans, gestir safnsins upplifa sig í miðju
síldarævintýri um miðbik síðustu aldar, svo vel tekst honum að segja
segja söguna. Örlygur hefur unnið þarna mjög óeigingjarnt starf í
áratugi, en starf hans í þágu safnsins á eftir að vera okkur íbúum
Fjallabyggðar til sóma um ókominn ár. Þetta glæsilega safn,
Síldarminjasafn Íslands, er í stöðugri sókn og sífellt fleiri gestir
heimsækja safnið frá ári til árs, en að jafnaði koma um 10-12 þúsund
gestir á ári.

Og nú eftir opnun Héðinsfjarðaganga
verður gaman að fylgjast með þróun mála, með tiliti til ferðamannastaums
í bæinn, og kemur Síldarminjasafnið til með að vera eitt helsta
aðdráttarafl ferðamannsins hingað.

Síldarminjasafnið er eitt stærsta
sjóminja- og iðnaðarsafn landsins og fjallar um þann kafla
Íslandssögunnar sem oft hefur verið nefndur síldarævintýrið. Og svo
hlaut Síldarminjasafnið Íslensku safnverðlaunin árið 2000 og
Evrópuverðlaun safna árið 2004, sem besta, nýja iðnaðarsafn Evrópu.

Á síðastliðnu ári leit dagsins ljós
bókin Svipmyndir úr síldarbæ og var hún áberandi í jólabókaflóðinu.
Þessi bók Örlygs inniheldur skemmtilegar mannlýsingar og byggist á
viðtölum hans við fjölda fólks sem upplifði hin raunverulegu
síldarár. Bókin fékk verðskuldaða athygli og góða dóma sem undirstrikar
það hversu góður sögumaður Örlygur er.

En þetta er ekki það eina sem Örlygur
hefur tekið sér fyrir hendur, langt því frá. Þau verkefni sem hann hefur
lagt hönd á plóg eru allmörg, eða meðal annars:

  • Uppbygging Þóðlagaseturs Sr. Bjarna Þorsteinssonar
  • Herhúsfélagið
  • Kvæðamannafélagið Fjallahnjúkar
  • FÁUM (Félag áhugamanna um minjar)
  • Sæluhúsið við Aðalgötu
  • Smíði lítilla trébáta
  • Og endurbygging gamalla húsa, svo eitthvað sé nefnt.

Örlygur Kristfinnsson, bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2011, innilega
til hamingju; þú hefur svo sannarlega sett svip þinn á menningarlíf
sveitarfélagsins okkar.

Takk fyrir.

Að því búnu tók Örlygur til máls. Hann þakkaði fyrir þann mikla heiður sem honum væri sýndur og sagði síðan frá því verki sem hann vinnur nú að, að skrifa ?síldarsögu? fyrir börn og myndskreyta hana. Taldi hann það ánægjulegt fyrir sig að geta sagt, að sjaldan hafi hann unnið að jafn skapandi verki og einmitt þessu. Sagan væri full af fræðslu um gamla tímann á Siglufirði, fyrstu síldarárin þegar bærinn var að verða til. Hún hefði í fyrstu verið hugsuð til netútgáfu en málin hefðu tekið nokkuð óvænta stefnu í fyrra þegar útgáfufélagið Uppheimar hefðu sýnt því áhuga að gefa hana út á bók fyrir almennan markað og síðar sem námsbók – allt í samvinnu við Síldarminjasafnið.

Örlygur sýndi nokkrar teikningar og vatnslitamyndir sem hann hefur unnið fyrir söguna og sagði að brátt lyki þessu verki og stefnt væri að útgáfu bókar með haustinu; ríkulega myndskreyttri sögu úr Síldarfirði fyrir börn á öllum aldri.

Siglfirðingur.is óskar Örlygi innilega til hamingju með allt þetta og ekki síst nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2011.

Myndir: Sveinn Þorsteinsson | svennith@simnet.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is