Svipleg örlög


Í Héðinsfirði er sumarfagurt, en vetrarríki mikið. Þar eru landkostir góðir fyrir sauðfé en erfiðar smalamennskur sumstaðar vegna brattra fjalla. Hlunnindi eru þar nokkur, silungsveiði í stóru vatni í miðjum dalnum, sem gengur inn af firðinum, talsverður reki og gnægð sjófangs var til skamms tíma upp við landsteinana. Há fjöll umlykja Héðinsfjörð og dalina sem inn af honum ganga. Um þau liggja fjallvegir, sumir ekki hættulausir, ýmist til Siglufjarðar, til Hvanndala eða niður í Ólafsfjörð. Nú fer enginn framar þessar alræmdu fjallaslóðir nema einstöku sérvitringar, það á enginn framar erindi um þær, því Héðinsfjörður er kominn í eyði.

Fimm bæir hafa verið í byggð í Héðinsfirði fram á þessa öld. Þessir bæir eru Vík, Vatnsendi, Grundarkot, Möðruvellir og Ámá. Sá fyrsti þeirra lagðist í eyði skömmu eftir aldamótin, en síðan hver af öðrum og síðast Vík fyrir nokkrum árum.

Ekkja frá 22. aldursári

Í röð hinna síðustu íbúa Héðinsfjarðar er Helga Erlendsdóttir, kona um hálfsjötugt sem nú er búsett á Siglufirði. Hún hefur verið ekkja frá því hún var 22ja ára gömul og missti bónda sinn og uppkominn bróður með dags millibili, báða í snjóflóðum. Það voru þung örlög fyrir unga, fátæka konu, aleina á heimilinu af fullorðnu fólki, en hafði fyrir ungu barni að sjá og var að því komin að fæða annað.

Helga Erlendsdóttir.


?Það var erfiðara að vera ekkja í þá daga heldur en það er nú,? sagði Helga Erlendsdóttir þegar ég kom á fund hennar á Siglufirði til að fræðast af henni um Héðinsfjörð og æskuár hennar þar. ?Það opinbera hafði engum skyldum við fátækar ekkjur að gegna,? hélt frú Helga áfram. ?Þær urðu að berjast fyrir tilveru sinni eins og unnt var og bezt lét hverju sinni. Annars tók hreppurinn við og það var hlutskipti sem enginn kaus fyrr en öll önnur sund voru lokuð.?


Ert þú Héðinsfirðingur að ætt og uppruna?

?Ég er a.m.k. fædd og alin upp í Héðinsfirði. Átti þar heima hátt á 5. tug ára að ég flutti alfarin burt. Heilsan var þrotin, ég átti ekki annars kost. Annars langaði mig ekki til að hverfa úr Héðinsfirði. Það er fallegt þar.?

Sannkallaður manndrápsvegur

?Þú spurðir um ætt mína. Ég á hana hérna skrifaða á blöðum. En það er of langt að rekja það allt saman. Svo veit ég ekki heldur hver hefði áhuga fyrir því. En afi minn og amma bjuggu í Hvanndölum, einhverjum afskekktasta bæ í allri Eyjafjarðarsýslu. Þú veizt hvar Hvanndalir eru, það er örlítil hvos eða dalskvompa norðaustan í þverhníptum hamra-björgum milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar. Hvanndalabjörg eru þar rétt hjá og fyrir framan þau, eftir svokölluðum Hvanndalaskriðum, liggur aðalleiðin á landi yfir í Héðinsfjörð. Það er stórhættuleg leið og yfir forvaða að fara – sannkallaður mannsdrápsvegur. Sjóleiðin er líka oft illfær, einkum vegna þess að þarna brimar fyrir opnu hafi og lendingin háskaleg, undir snarbröttum háum bökkum. Nei, þetta var sannarlega afskekktur staður, ekki sízt í vondri tíð á vetrum. Þarna var aðeins einn bær – Hvanndalir. Ég veit ekki hvenær hann byggðist fyrst, en árið 1896 lagðist hann í eyði. Þá keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps jörðina til að fyrirbyggja það að hún byggðist aftur. Það þótti of viðurhlutamikið að tefla mannslífum í þvílíka hættu.?

Eldurinn slokknaði

Bjuggu afi þinn og amma þarna lengi?

?Nei, aðeins fá ár, árin 1854-59. Það bjó enginn lengi í Hvanndölum a.m.k. ekki á öldinni sem leið og annað veifið var jörðin alltaf í eyði. Afi minn hét Einar Ásgrímsson og amma mín Guðrún Þórarinsdóttir. Næst síðasta vorið sem þau bjuggu í Hvanndölum fór afi á hákarlaveiðar eins og þá var venja, en amma var ein heima með barnahópinn. Yngst barnanna var Guðlaug, móðir mín, sem þá var aðeins 9 mánaða gömul. Eina nóttina þetta vor slokknaði eldurinn á Hvanndalaheimilinu. Engin ráð voru að kveikja eld nema sækja hann til næsta bæjar. Engin matbjörg til nema hrár matur. Ómögulegt að segja hvenær Einar bóndi kæmi heim úr veiðiferðinni. Líf barnanna lá við að náð væri í eld og það hið skjótasta.?

Lét barnið í pils og batt um háls sér

?En hver átti að sækja eldinn? Börnin öll kornung og enginn fullorðinn á heimilinu nema húsfreyja ein. Hún átti ekki um neitt að velja – hún varð að fara sjálf hvað sem tautaði. Eina leiðin sem til greina kom voru Hvanndalaskriðurnar undir hrikaháu hengiflugi og um lífshættulega forvaða að fara. Þá tók hún yngsta barnið – móður mína – níu mánaða gamla og bar það í pilsi til Héðinsfjarðar. Hin börnin skildi hún eftir. Um annað var ekki að ræða. Tvívegis varð hún að vaða fyrir forvaða og sjórinn náði henni í brjóst. Þá batt hún pilsið með barninu í um háls sér til að það blotnaði ekki. Og heilu og höldnu komst hún til Víkur í Héðinsfirði. Þar fékk hún eld. Amma mín rómaði móttökurnar sem hún fékk í Vík hjá Birni bónda Skúlasyni og húsfreyju hans. Björn flutti ömmu og eldinn á báti til Hvanndala og lífi allra var borgið. Vorið næsta á eftir fluttu afi og amma að Ámá í Héðinsfirði og þar bjuggu þau um mörg ár.?

Enginn aukvisi

Og á Ámá ert þú fædd?

?Já, faðir minn Erlendur Stefánsson frá Möðruvöllum gekk að eiga Guðlaugu þá, sem amma mín bar í pilsi sínu milli Hvanndala og Héðinsfjarðar og þau tóku við búi á Ámá af afa mínum 1884. Þar fæddist ég sem 9. barnið í röðinni af alls 10 árið 1897. Auk okkar systkinannna ólu foreldrar mínir upp tvö fósturbörn, svo það var stór barnahópurinn á Ámá.?

Hvernig voru húsakynni fyrir jafnfjölmenna fjölskyldu?

?Þau myndu ekki hafa þótt beysin nú til dags. Það var torfbær með baðstofu, þiljaðri að vísu en með moldargólfi. Foreldrar mínir voru lengi vel svo fátæk að þau höfðu ekki efni á að setja trégólf í baðstofuna fyrr en löngu seinna. En við vorum ánægð þarna. Baðstofan var sæmilega hlý og það hvorki fennti inn í hana né að þakið læki. Það var fyrir miklu.?

Er Ámá góð jörð?

?Ámá er innsti bærinn í Héðinsfirði, um það bil 8 km. frá sjó. Það er fremur góð jörð fyrir beit, hins vegar erfið. Heyskap varð að mestu leyti að sækja upp í fjall og það var langur og örðugur vegur. En um það var ekki fárast. Og pabbi var hörkuduglegur maður þótt hann væri fatlaður frá 3ja ára aldri. Hann tyllti aldrei niður í annan fótinn nema með stóru tánni einni. Samt var hann dugnaðarmaður að hverju sem hann gekk, þótti t.d. gönguforkur og iðulega fékk séra Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði hann til fylgdar yfir fjallgarðinn til Ólafsfjarðar á meðan hann þjónaði Kvíabekk. Séra Bjarni sagði að sá sem hefði föður minn til fylgdar þyrfti ekki að kvíða því að liggja úti. Pabbi gekk líka alltaf út að sjó á veturna þegar hann stundaði hákarlaveiðar. Nei, pabbi var enginn aukvisi við að sækja björg í búið, hvorki á sjó eða landi. Það var ekki fátítt að hann væri búinn að slá allt að því dagsláttu á morgnana þegar nágrannarnir komu á fætur.?

Vorum aldrei svöng

Þið börnin hafið vanizt fljótlega á að taka til hendinni við heimilisstörfin?

?Já, en samt varð það léttara hjá okkur en víða annars staðar vegna þess hvað við vorum mörg. Meðan pabbi var á sjónum sinntum við gegningunum heima. Á vorin sátum við yfir lömbunum fyrst eftir fráfærunar. Það var á hverju vori fært frá 36-40 ám og við krakkarnir sátum yfir lömbunum til skiptis eftir því sem við höfðum aldur til. Mér þótti gaman að sitja lömbin. Það var heldur ekki erfitt því þau voru öll heft með ullarhafti. Og ef eitthvert lambanna losnaði úr haftinu höfðum við meðferðis aukahöft. Heyskapurinn var langerfiðasti annatíminn. Túnið var harðbalalegt og lítið, en þó nægilegt fyrir tvær kýr. Foreldrar mínir höfðu mikið kúalán alla sína búskapartíð og við vorum aldrei svöng þótt stundum væri þröngt í búi.?

Nutuð þig einhverrar kennslu?

?Það var enginn barnaskóli né kennari í Héðinsfirði á uppvaxtarárum mínum. Pabbi kenndi okkur það sem nauðsynlegast þótti, en það var að lesa og skrifa og eitthvað í reikningi. Veturinn sem við fermdumst vorum við send til Siglufjarðar og fengum þá, auk kristindómsfræðslu, nokkur undirstöðuatriði í almennum námsgreinum. Það var allt og sumt. Ekki venja að það væri meira.?

Kom aldrei póstur

Samgöngur við Héðinsfjörð og aðdrættir allir hafa að sjálfsögðu farið fram á sjó?

?Nei, a.m.k. eins mikið landleiðina, ef ekki meira, þótt örðug væri. Það voru tvær aðalleiðir til Siglufjarðar, önnur um Hestskarð, hin um Hólsskarð. Fyrrnefnda leiðin var erfið og hættuleg, ekki sízt vegna snjóflóða enda fórust menn þar stundum. Hólsskarðið var auðveldara. Þar var oft farið með hesta og faðir minn sótti aðdrætti alla til Siglufjarðar yfir það. Allir sem áttu leið um Hólsskarð komu að Ámá og margir gistu. Það var gestkvæmt hjá okkur og öllum var veittur beini eftir því sem föng voru á. Foreldrar mínir voru gestrisnir.?

Hvaða leið kom pósturinn til ykkar?

?Það kom aldrei póstur í Héðinsfjörð. Maður í slíkum erindum hefur aldrei stigið fæti sínum þar. Ef Héðinsfirðinga langaði í blöð að lesa eða áttu von á sendibréfum urðu þeir að sækja þau sjálfir til Siglufjarðar. Það var gert annað veifið þegar veður og aðrar aðstæður leyfðu.?

Læknir helzt ekki sóttur

En læknisvitjanir? Eftir hvaða leiðum sóttu Héðinsfirðingar lækni?

?Hann var helzt ekki sóttur. Það varð að vera eitthvað mikið að til þess. Meðalanotkun var heldur ekki meiri en brýn þörf gerðist. Til gamans skal ég segja þér að fyrir nokkrum árum lét ég skera upp á mér augun á Akureyri. Það var eftir að ég fluttist alfarin til Siglufjarðar. Eftir aðgerðina vildi Guðmundur Karl yfirlæknir gefa mér einhver meðul til að draga úr sársaukanum. Sagði að ég hefði t.d. gott af magnyltöflum. Ég spurði til hvers ég ætti að taka inn meðul? Ég vissi ekkert hvað það var og hafði aldrei gert það á allri minni ævi. Ég sagði Guðmundi Karli að ég kærði mig ekkert um að byrja á þeim andskota. En þannig held ég að það hafi almennt verið í Héðinsfirði. Hvorki læknar né lyfjabúðir högnuðust á tilveru Héðinsfirðinga.?

Höfðuð þið ekki oft silung til matar úr Héðinsfjarðarvatni?

?Ámá átti ekki veiðirétt í því. Það var heldur aldrei lögð mikil rækt við silungsveiði í vatninu, þótt veiði væri þar oft góð. Fiskurinn var fljótteknari úr sjónum. Menn þurftu ekki nema rétt út fyrir landsteinana, þar var gnægð fiskjar þangað til togbátarnir komu til sögunnar. Þá hvarf fiskurinn.?

En reki?

?Hann var nokkur. Stundum. Hann var þó sjaldnast notaður til húsaviðar nema í útihús, og svo eitthvað til eldiviðar og annarra nota eftir þörfum.?

Hroðaslys

Var mikið um sjóslys í eða við Héðinsfjörð á þínum uppvaxtar- eða búskaparárum þar?

?Það urðu þar aldrei sjóslys í mínu minni. Stundum skall hurð nærri hælum, einkum í norðanveðrum á haustin eða vetrum. Þá hleyptu Ólafsfirðingar oft inn á Héðinsfjörð því Ólafsfjarðarhöfn var þá ófær. Í Héðinsfirði var betri lending þegar í harðbakkann sló.

Mesta hroðaslys sem orðið hefur í Héðinsfirði fyrr og síðar var þegar flugvélin fórst þar á árunum. Það var hræðilegt. Þoka og dimmviðri grúfði sig niður undir sjó. Það sá ekkert frá sér. Búið var þá enn í Vík, yzta bænum í Héðinsfirði en fólkið þar varð einskis vart.?

Héðinsfirðingar gott fólk

Hvernig var sambýlið við nágrannana?

?Ágætt, Héðinsfirðingar voru, svo lengi sem ég man eftir, gott fólk. Mjög gott. Það ríkti ævinlega friður og ánægja milli allra íbúanna. Og þegar Héðinsfirðingar komu í verzlunarerindum til Siglufjarðar var þeim ævinlega vel tekið, jafnt fátækum sem ríkum. Það var vegna þess að þeir stóðu í skilum og stóðu við orð sín hvað sem tautaði. Um leið og verzlunarmaðurinn vissi að viðskiptamaðurinn var úr Héðinsfirði vissi hann jafnframt að það var óhætt að lána honum það, sem hann vildi. Héðinsfirðingar höfðu mjög gott orð á sér í einu og öllu.?

Þú fórst ung að búa?

?Ég giftist ung Páli Þorsteinssyni frá Þverá í Ólafsfirði og hann hóf búskap á Ytri-Vík árið 1916. En sambúð okkar var stutt, því hann fórst í snjóflóði þrem árum síðar, eða 12. apríl 1919.?

Annar Víkurbærinn í Héðinsfirði. Hann lagðist síðastur allra bæja þar í eyði,

en íbúðarhúsið var notað sem skipbrotsmannaskýli, uns nýtt var reist þar árið 1966.

Vissi hvað skeð hafði

Hvernig vildi það til?

?Hann var að koma af beitarhúsum sem voru á svokölluðum Sandvöllum vestan við árósinn. Það var um hálfs annars kílómetra leið frá bænum. Hann fór þangað tvisvar á dag og þetta var í seinni ferðinni hans. Undanfarinn hálfan mánuð höfðu gengið stöðug hríðarveður, látlausir byljir og eitthvert mesta fannfergi sem elztu Héðinsfirðingar minnast. Snjóflóðahætta var mikil í Víkurhyrnu og þau höfðu stundum orðið mönnum að fjörtjóni.?

Hvernig vissirðu það að bóndi þinn hafði farizt í snjóflóði?

?Þegar mig tók að lengja eftir honum um kvöldið fór ég til sambýlismanns okkar, sem líka hafði verið á beitarhúsum um kvöldið og þau voru skammt frá fjárhúsum okkar. Hann hafði orðið þess var að snjóskriða hafði fallið úr Víkurhyrnu um kvöldið. Meira vissi hann ekki. En þegar Páll kom ekki heim, vissi ég hvað skeð hafði. Það þurfti ekki að fara í neinar grafgötur um það.?

Varstu þá ein í bænum?

?Ég var ein af fullorðnu fólki, en með dóttur á 3ja aldursári og var kominn að því að ala barn. Þetta voru erfiðar aðstæður.?

Hvað tókstu til bragðs?

?Helzta lausnin fannst mér sú að senda eftir Ásgrími bróður mínum inn að Ámá. Við vorum mjög samrýmd og ég vissi að hann myndi koma mér til hjálpar. Heimilisástæður voru líka að því leyti góðar á Ámá að þar voru fleiri bræður mínir fyrir, auk föður míns. Allt uppkomnir menn og duglegir. Ég bað því sambýlismann minn frá Vík að skreppa inn að Ámá og sækja Ásgrím bróður minn.?

Fórst í snjóflóði daginn áður

Og hann hefur komið?

?Nei, hann kom ekki. Hann hafði sjálfur farizt í snjóflóði daginn áður. Það voru einu fréttirnar sem sendimaðurinn hafði að færa mér.

Þetta með snjóflóðið á Ámá var næstum óskiljanlegt. Þar hafði aldrei komið snjóflóð áður svo sögur færu af, og af öllum öruggt talið að snjóskriður féllu ekki. Þegar það reið yfir voru bræður mínir þrír og faðir minn að gefa fé í tveim fjárhúsum, sem stóðu skammt frá bænum. Það var stutt bil milli húsanna og var Ásgrímur bróðir minn í öðru þeirra, en faðir minn og hinir bræðurnir í hinu. Svo varð móðir mín, sem var í bænum, allt í einu vör við að snjóflóð hafði fallið því jaðarinn af því lenti á bæjarhúsunum og snjórinn þyrlaðist upp á baðstofuglugga. Olli samt ekki neinu tjóni á bænum. Móðir mín varð ofsalega hrædd. Hana uggði að einhver ógæfa myndi hafa skeð. Það varð líka raunin á. Sem betur fór slapp fjárhúsið sem faðir minn og bræðurnir tveir voru inn í, en hitt sópaðist burtu með manni og öllum ánum rúmlega 60 að tölu. Það mun hafa farið allt að 500 metra vegalengd unz flóðið staðnæmdist á hinum bakka árinnar.                    

Þarna var ekkert að gera. Strax og tök voru á var brotizt yfir Hólsskarð til Siglufjarðar til að sækja hjálp. Það tók langan tíma að grafa Ásgrím heitinn og féð upp. 48 ær voru grafnar dauðar úr fönn, en 13 voru lifandi. Þær dóu samt flestar eða allar sumarið næsta á eftir, hafa sennilega laskast eitthvað innvortis og drógust upp.

Ól barn jarðarfarardaginn

Þriðja áfallið á þessum tveim dögum var það að mamma brotnaði alveg saman, svo mjög fengu þessi óvæntu slysatíðindi á hana og hún náði sér aldrei eftir það.?

Hvenær fannst lík Páls bónda þíns?

?Ekki fyrr en mörgum dögum síðar. Snjóflóðið bar það á sjó út og þar fannst það rekið í fjörunni. Þeir voru jarðsungnir saman Páll og Ásgrímur þann 25. apríl. Þá var enn ofstopa norðan hríð og þann sama dag ól ég sveinbarn. Sveinninn var látinn heita í höfuðið á þeim báðum og nú er Páll Ásgrímur sonur minn dugmikill skipstjóri. Það þykir mér vænt um.?

Ekki hægt að sækja yfirsetukonu

Var ekki erfitt að ná í yfirsetukonu í þvílíku veðri?

?Um það var ekki að ræða. Það var ekki nein yfirsetukona í Héðinsfirði og enda þótt að einhver dugmesta yfirsetukona á öllu Íslandi í þá daga sæti á Siglufirði, Jakobína Jónsdóttir í Saurbæ, var ekki viðlit að sækja hana.?

Ólst þú barnið án nokkurrar hjálpar?

?Það var hjá mér gömul kona, Halldóra Björnsdóttir. Hún hafði tekið á móti börnum áður í neyðartilfellum og farnast vel. Og ef ég stend í þakkarskuld við einhverja manneskju í lífi mínu þá er það hún. Halldóra var góð kona, mikilhæf kona.?

Hélzt þú áfram að búa í Vík eftir þetta áfall?

?Nei, ég fluttist með bæði börnin heim á Ámá til foreldra minna. Ég þurfti á aðstoð þeirra að halda og þau á minni. Kjarkur mömmu var þrotinn og heimilið þurfti á kvenmannshjálp að halda. En átta árum seinna fluttum við öll alfarin frá Ámá og út í Vík, ég, börnin, foreldrar og tveir bræður. Í Vík dóu báðir foreldrar mínir. Þau vildu ekki yfirgefa Héðinsfjörð enda þótt byggðin væri að leggjast í auðn. Þau vildu eyða síðustu ævidögunum heima í ættbyggðinni sinni.?

Héðinsfjörður krefst sterkra manna – og kvenna

Og þú sjálf?

?Ég hefði helzt kosið að vera áfram í Héðinsfirði. Þar hafði ég fæðzt og alizt upp og dvalið fram á fullorðinsár. Oft við óblíð örlög og hörð kjör. Samt er Héðinsfjörður falleg sveit og gjöful á ýmsa lund. Maður verður aðeins að kunna að umbera hana og skilja. Vita það að hún heimtar sínar fórnir og þær stórar á stundum.?

En hvers vegna fórstu?

?Var þrotin á heilsu. Héðinsfjörður krefst sterkra manna og kvenna. Ekki vanheilla eða kjarklítilla. Ég var ekki manneskja til að vera þar áfram. Þess vegna fór ég.?

Áttu enn land í Héðinsfirði?

?Aðeins hluta úr Víkurlandi. En ég vildi ekki selja hann. Átti þess þó kost og þurfti stundum mjög á skildingum að halda. En Héðinsfjörður er hluti af lífi mínu – af sál minni – og hvernig ætti ég þá að selja hann??

[Þetta viðtal birtist upphaflega í dagblaðinu Vísi, þriðjudaginn 25. júní árið 1963, á bls. 4 og 10. Skrásetjara er ekki getið, en hann er sennilega Þorsteinn Jósepsson sem var á ferð hér einmitt þetta sumar. Texti við seinni myndina hefur verið uppfærður.]


image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is