Svifflugfélag Siglufjarðar


Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar var í gær afhent til varðveislu Fundargerðarbók Svifflugsfélags Siglufjarðar, sem starfaði hér á árunum 1939-1942.

Í siglfirsku tímariti sem nefndist Brautin og kom út á árunum 1936-1938 og var gefið út af Siglufjarðardeild K.F.Í. ritar Sigtryggur Helgason um aðdragandann að stofnun umrædds félags. Hann segir:

„Hér á landi hefir til skamms tíma verið mjög hljótt um svifflugíþróttina. Menn lásu í mesta lagi í blöðunum frásagnir um svifflug einhversstaðar úti í heimi, en slíkt gleymdist jafnóðum, og enginn hófst handa um framkvæmdir málinu hér heima. En svo, fyrir eitthvað tveim árum síðan, er Agnar Kofoed Hansen, kom heim frá Danmörku varð skyndilega gagngjör breyting á þessu. Menn vöknuðu til logandi áhuga fyrir flugmálunum, Flugmálafélag Íslands var stofnað, Svifflugfélag íslands var stofnað og hóf þegar svifflugvélasmíðar og flugæfingar. Skömmu síðar var Svifflugfélag Akureyrar stofnað og á það þegar eina skólaflugu.

Á þessum stutta tíma hafa þegar náðst framúrskarandi árangrar. Í Reykjavík eru allmargir búnir að standast hin ýmsu próf í svifflugi og í sumar skeði það í fyrsta sinn, að maður tók próf á hreifilflugvél á Íslandi. Öll flugstarfsemi hefir gengið að óskum og mun engan iðra þess erfiðis sem hann hefir þurft á sig að leggja fyrir þessa göfugu íþrótt.

Hér á Siglufirði hefir þessum málum ekki verið hreyft, þar til í vor, er Ungmennafélag Siglufjarðar setti nefnd til þess að athuga um stofnum flugmálafélags innan félagsins, eða svifflugfélag.

Nú hefir verið ákveðið að hefjast handa um stofnum svifflugflokks hér á Siglufirði og var í því skyni haldinn kynningarfundur um svifflug í Alþýðuhúsinu í gærkvöld. Þar var ákveðið að halda á næstunni stofnfund svifflugfélags og er þess vænst, að þeir sem áhuga hafa á málinu leggi fram krafta sína því til stuðnings í framtíðinni.

Engin íþrótt er eins til þess fallin og svifflugið að efla félagsanda og andlega og líkamlega heilbrygði og ekki er óhugsandi, að Siglufjörður sem er þekktur að því að eiga bestu skíðamenn landsins, geti einnig í framtíðinni eignast sína afburða svifflugmenn.“

Lokastofnfundur var svo haldinn 5. febrúar 1939.

Í bókinni voru þrjár lausar myndir.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]