Svavar kominn heim


Óhætt er að segja að Svavar Knútur Kristinsson tónlistarmaður hafi náð vel til áheyrenda og áhorfenda í Siglufjarðarkirkju fyrr í kvöld þegar hann bauð bæjarbúum og gestum á ókeypis tónleika.

Hann flutti lög eftir sjálfan sig, meðal annars eitt sem hann samdi í gær í Skagafirði, og einnig nokkur þekkt lög eftir aðra. Milli laga ræddi hann um lífið og tilveruna og las ljóð.

Lokalagið var „Ferðalok“, sem er betur þekkt sem „Ég er kominn heim“. Það átti vel við vegna þess að langafi hans, Stefán Aðalsteinsson, átti heima á Siglufirði síðustu árin og nokkur afasystkin hans bjuggu hér, til dæmis Jóhann Stefánsson verslunarmaður og systurnar Sigrún og Jóna Stefánsdætur.

Spjallað við tónleikagesti.

Í einu lagi lék Svavar Knútur bæði á ukulele og gítar. Fyrir það lag fékk hann nýlega tónlistarverðlaun í Færeyjum.

Myndir og texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is