Svartsvanur í heimsókn


Svartsvanur er á Langeyrartjörninni þessa stundina, nærri hólmanum, hefur sennilega komið með álftum og gæsum sem eru að tínast til landsins þessa dagana. Ekki er ljóst hvernig siglfirsku álftunum og honum muni koma saman, þær voru ekki innfjarðar í morgun, hafa brugðið sér frá eitthvert, kannski yfir á Ráeyrarfjöru, sem þær gera stundum til að ná sér í marhálm, uppáhaldsætið. Verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar þær koma auga á hann svo nærri varphólmanum þeirra. Má búast við átökum.

Wikipedia hefur þetta að segja um tegundina:

„Svartsvanir eru algengir á votlendisvæðum í suðvestur og austur Ástralíu og nálægum eyjum. Kjörlendi svartsvana er ferskvatns- og saltvatnsvæði, mýrar og ár þar sem nóg fæðuframboð er og efni til hreiðurgerðar. Svartsvanir ferðast mikið um og ferðalög þeirra tengjast úrkomu og þurrki. Eins og margir vatnafuglar þá fella svartsvanir flugfjaðrir eftir að þeir hafa komið upp ungum og eru þeir þá ófleygir í einn mánuð. Á þeim tíma þá halda þeir oftast til á opnum stórum vötnum þar sem þeir eru öruggir.

Áður en Maórar komu til Nýja-Sjálands var þar svartsvanategund sem virðist hafa dáið út vegna ofveiði. Árið 1864 var svartsvanur fluttur frá Ástralíu til Nýja-Sjálands sem skrautfugl á vötnum og hefur tegundin breiðst út og eru svartsvanur nú algengur fugl þar á stærri vötnum og strandsvæðum. Svartsvanir eru vinsælir skrautfuglar í Vestur-Evrópu, sérstaklega á Bretlandi.

Svartsvanir hafa verið nær árlegir flækingar á Íslandi undanfarin ár. Þeir eru taldir eiga uppruna sinn að rekja til fuglagarða í Evrópu.“

Ekki er vitað til þess að svartsvanur hafi sést hér í firðinum áður, en skemmst er að minnast annarra sjalfgæfra fuglategunda sem hingað hafa leitað, s.s. svörtu kríunnar, býsvelgsins og gjóðsins, þannig að Siglufjörður virðist ekki bara heilla mennska túrista.

Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is / Wikipedia.org.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is